190. fundur

14.01.2025 08:15

190. fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 14. janúar 2025, kl. 08:15

Viðstaddir: Eva Stefánsdóttir formaður, Hjördís Baldursdóttir, Marta Sigurðardóttir, Sindri Kristinn Ólafsson og Valgerður Björk Pálsdóttir.

Að auki sátu fundinn Hafþór Barði Birgisson íþrótta- og tómstundafulltrúi, Rúnar Vífill Arnarson formaður Íþróttabandalags Reykjanesbæjar, Frosti Kjartan Rúnarsson fulltrúi ungmennaráðs og Íris Eysteinsdóttir ritari.

1. Golfklúbbur Suðurnesja - samningur 2025 (2025010045)

Samningur við Golfklúbb Suðurnesja um eflingu barna- og ungmennastarfs 2025 lagður fram og samþykktur.

2. Vélhjólaíþróttafélag Reykjaness (VÍR) - kynning (2025010051)

Sigurður Örn Stefánsson og Júlíus Ævarsson frá Vélíþróttafélagi Reykjaness mættu á fundinn og kynntu starfsemi félagsins.

Íþrótta- og tómstundaráð þakkar greinargóða kynningu.

Ljóst er að aðstöðu sé ábótavant fyrir barna- og ungmennastarf en engin salernisaðstaða er á svæðinu. Íþrótta- og tómstundaráð felur Hafþóri B. Birgissyni íþrótta- og tómstundafulltrúa að vinna málið áfram.

3. ÍRB - samningur um íþróttaþjálfun barna 2025 (2025010047)

Samningur við Íþróttabandalag Reykjanesbæjar um íþróttaþjálfun barna og ungmenna árið 2025 lagður fram og samþykktur.

Samningsupphæð hefur ekki hækkað síðan 2018, er ekki vísitölutengdur og tekur ekki mið af aukningu iðkenda milli ára. Íþrótta- og tómstundaráð mun fjalla ítarlega um samninginn í næstu fjárhagsáætlunargerð ásamt öðrum liðum.

4. Íþrótta- og tómstundaráð Reykjanesbæjar - áheyrnarfulltrúar (2024110254)

Bæjarráð Reykjanesbæjar vísaði ofangreindu máli til íþrótta- og tómstundaráðs Reykjanesbæjar til umræðu.

Íþrótta- og tómstundaráð Reykjanesbæjar leggur til að ekki verði gerðar breytingar á fyrirkomulagi ráðsins. Formaður Íþróttabandalags Reykjanesbæjar hefur nú þegar seturétt í ráðinu með tillögurétt og málfrelsi, sem tryggir mikilvæga tengingu við starfsemi íþróttafélaga í bænum. Að auki vekur ráðið athygli á að sambærileg sveitarfélög og Reykjanesbær hafa svipað fyrirkomulag varðandi áheyrnarfulltrúa í sínum ráðum.

Ráðið mun meta fyrir hvern fund þörf fyrir áheyrnafulltrúa frá félögum þegar mál eru til umræðu sem þau varða.

Ráðið leggur áherslu á mikilvægi þess að stöðugildi fyrir framkvæmdastjóra ÍRB verði samþykkt í næstu fjárhagsáætlun en kröfur og umfang starfsins hefur aukist til muna undanfarin ár.

5. Hestamannafélagið Máni - samningur 2025 (2025010049)

Samningur við Hestamannafélagið Mána lagður fram og samþykktur.

6. Íþróttafólk Reykjanesbæjar 2024 (2025010092)

Thelma Dís Ágústsdóttir körfuboltakona og Guðmundur Leo Rafnsson sundmaður eru íþróttafólk ársins 2024 í Reykjanesbæ.

Íþrótta- og tómstundaráð óskar þeim innilega til hamingju sem og öllum verðlaunahöfum á hófinu sem haldið var sunnudaginn 12. janúar sl. í Stapanum. Íþróttabandalagi Reykjanesbæjar eru færðar kærar þakkir fyrir vel heppnaðan viðburð.

7. Framtíðaruppbygging íþróttamannvirkja og -svæða (2022050239)

Eva Stefánsdóttir formaður upplýsti íþrótta- og tómstundaráð um þá fundi sem eru að fara fram þessa dagana en samráð og hönnun um framtíðaruppbyggingu vestan Nettóhallar er í fullum gangi.

8. Upplýsingagjöf íþrótta- og tómstundafulltrúa (2024050049)

Hafþór Barði Birgisson íþrótta- og tómstundafulltrúi fór yfir stöðu ýmissa mála er varða starfsemi íþrótta,- tómstunda- og lýðheilsumála sveitarfélagsins.

9. Styrkir til greiðslu fasteignaskatts (2025010112)

Íþrótta- og tómstundaráð minnir forsvarsfólk íþrótta- og tómstundafélaga á að sækja um styrki til greiðslu fasteignaskatts fyrir 28. febrúar. Nánari upplýsingar eru á vef Reykjanesbæjar.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10.23. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 21. janúar 2025.