21. fundur

19.08.2021 14:00

21. fundur lýðheilsuráðs Reykjanesbæjar, fjarfundur haldinn 19. ágúst 2021, kl. 14:00

Viðstaddir: Jóhann Friðrik Friðriksson formaður, Anna Sigríður Jóhannesdóttir, Guðrún Ösp Theodórsdóttir, Guðrún Pálsdóttir, Kristín Gyða Njálsdóttir, Guðrún Magnúsdóttir lýðheilsufulltrúi og Íris Andrea Guðmundsdóttir ritari.

1. Aðgerðir vegna lýðheilsuvísa (2021040032)

Lýðheilsuráð hefur hafið vinnu við aðgerðaráætlun er snýr að nýútkomnum lýðheilsuvísum Embættis landlæknis. Reykjanesbær hefur lagt áherslu á geðheilsu á árinu en hugmyndir að aðgerðum fyrir næsta starfsár munu liggja fyrir á næsta fundi ráðsins.

2. Heilsutengdir viðburðir - haust 2021 (2021080347)

Hafþór B. Birgisson íþrótta- og tómstundafulltrúi mætti á fundinn. Drög að dagskrá heilsu- og forvarnarvikunnar verða kynnt á næsta fundi lýðheilsuráðs og ráðgert að viðburðadagatal fyrir haustið 2021 liggi þá fyrir. Lýðheilsuráð leggur áherslu á að setja aukna áherslu á rafræna heilsueflingu sem snýr að starfrænni fræðslu í formi myndbanda, mynda og greina sem nýtist til heilsueflingar og forvarna.

3. Heilsueflandi samfélag - kort og göngustígar (2019050505)

Lýðheilsuráð óskar eftir því að sviðsstjóri umhverfissviðs komi á næsta fund ráðsins og kynni stöðu á uppbyggingu heilsustíga í Reykjanesbæ. Formaður lýðheilsuráðs tekur að sér að leita upplýsinga um kynningarmál er snúa að heilsustígum og aðgengi íbúa að þeim upplýsingum í samráði við lýðheilsufulltrúa.

4. Fjölgun íþróttatíma í grunnskólum Reykjanesbæjar (2021080348)

Lýðheilsuráð felur lýðheilsufulltrúa að vinna drög að fýsileikakönnun um aukna hreyfingu barna í grunnskólum Reykjanesbæjar s.s. fjölgun íþróttatíma eða markvissri hreyfingu í byrjun skóladags. Rannsóknir sýna að aukin hreyfing barna í grunnskólum hefur m.a. áhrif á líðan þeirra og námsárangur til góðs. Um áratugaskeið hefur fjöldi tíma í íþróttum og sundi barna verið sá sami þrátt fyrir vísbendingar um aukna kyrrsetu barna. Niðurstöður úr rannsóknum sýna að aukin kyrrseta byrjar yfirleitt við 7 ára aldur en við 15 ára aldur nær kyrrseta yfir 3/4 af þeim tíma sem börn eru vakandi. Ráðlagt er að öll börn stundi miðlungserfiða eða erfiða hreyfingu í minnst 60 mínútur daglega. Heildar tímanum má skipta í styttri tímabil, t.d. 10-15 mínútur í senn samkvæmt ráðleggingum Embættis landlæknis. Fýsileikakönnunin skal unnin í samráði við íþrótta- og tómstundafulltrúa og fræðslusvið.

Eftirfarandi þættir skulu kannaðir: 1. Vilji barna til aukinnar hreyfingar í skólum og hugmyndir þeirra þar um. 2. Mögulegar útfærslur á aukinni hreyfingu barna og kostnaður við slíkar breytingar í grunnskólum Reykjanesbæjar. 3. Samantekt á útfærslum og rannsóknum sem gerðar hafa verið á Íslandi og nágrannalöndum er varðar verkefni er snúa að aukinni hreyfingu barna í grunnskólum.

5. Heilsueflandi skólar í Reykjanesbæ (2021080349)

Lýðheilsuráð óskar eftir stöðuskýrslu um heilsueflandi skóla, hvernig sú vinna gengur og hvaða verkefni skólarnir og stýrihópar innan hvers skóla hafa lagt megin áherslu á. Einnig er óskað eftir upplýsingum um hvernig gangi að uppfylla gátlista frá Embætti landlæknis. Lýðheilsuráð vill styðja dyggilega við framgang verkefnisins og óskar því einnig eftir athugasemdum um hvað betur má fara varðandi framgang þess.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15.05. Fundargerð fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 24. ágúst 2021.