54. fundur

14.01.2025 14:00

54. fundur lýðheilsuráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 14. janúar 2025, kl. 14:00

Viðstödd: Bjarney Rut Jensdóttir formaður, Anna Lydía Helgadóttir, Karítas Lára Rafnkelsdóttir, Jóhanna Björk Sigurbjörnsdóttir og Magnús Einþór Áskelsson.

Að auki sátu fundinn Hafþór Birgisson íþrótta- og tómstundafulltrúi og Íris Eysteinsdóttir ritari.

1. Suðurhlíð í Reykjanesbæ miðstöð fyrir þolendur ofbeldis - kynning (2025010124)

Inga Dóra Jónsdóttir forstöðumaður Suðurhlíðar mætti á fundinn og kynnti starfsemi Suðurhlíðar.

Lýðheilsuráð Reykjanesbæjar þakkar Ingu Dóru Jónsdóttur fyrir kynninguna. Ráðið fagnar því mikilvæga hlutverki sem Suðurhlíð gegnir sem miðstöð fyrir þolendur ofbeldis og metur mikils það starf sem þar er unnið til stuðnings einstaklingum í viðkvæmri stöðu. Lýðheilsuráð telur afar mikilvægt að samfélagið styðji áfram við bakið á starfsemi sem þessari til að tryggja öryggi og velferð þolenda ofbeldis.

Fylgigögn:

Suðurhlíð - glærur 

Suðurhlíð opnar í Reykjanesbæ

2. Happapp.is - nýtt app til að hlúa að andlegri heilsu (2025010120)

Lýðheilsuráð Reykjanesbæjar vekur athygli á Happapp.is, nýju appi sem ætlað er að styðja við andlega heilsu. Ráðið lítur svo á að nýsköpun sem þessi sé mikilvæg viðbót í verkfærakistu einstaklinga og samfélagsins til að hlúa að andlegri vellíðan. Mikilvægt er að styðja við og kynna slíkar lausnir sem stuðla að bættri lýðheilsu og hvetja til notkunar þeirra á breiðum grundvelli ekki síst í ljósi þess að lýðheilsuvísar og niðurstöður rannsókna hjá íslenskri æskulýðsrannsókninni benda til að andleg líðan á svæðinu sé ekki nægilega góð.

Fylgigögn:

Happapp

3. Félagsmiðstöðin Brúin í Háaleitisskóla - kynning (2025010125)

Jón Ragnar Magnússon umsjónarmaður Brúarinnar mætti á fundinn og kynnti starfsemi Brúarinnar, félagsmiðstöðvar í Háaleitisskóla.

Lýðheilsuráð Reykjanesbæjar þakkar Jóni Ragnari Magnússyni fyrir kynninguna. Ráðið leggur ríka áherslu á mikilvægi félagsmiðstöðva í hverfum, sérstaklega á svæðum þar sem hátt hlutfall íbúa eru innflytjendur og samgöngur eru ekki nægilega góðar.

Opnun félagsmiðstöðvarinnar Brúarinnar er í fullu samræmi við áherslur bæjarstjórnar Reykjanesbæjar um að börn og ungmenni séu í forgangi. Félagsmiðstöðvar gegna lykilhlutverki í því að skapa vettvang fyrir félagsfærni, jákvæða samveru og virkni meðal barna og unglinga. Ráðið fagnar því að slík þjónusta sé til staðar og vekur athygli á að stefnt er að opnun nýrrar félagsmiðstöðvar í Innri Njarðvíkurhverfi á þessu ári.

Fylgigögn:

Brúin - kynning 

4. Verklag og viðbragð vegna ofbeldismála (2025010122)

Lýðheilsuráð Reykjanesbæjar fagnar þeirri vinnu sem lögreglan hefur unnið í samstarfi við Neyðarlínuna og aðra samstarfsaðila við þróun ítarlegra flæðirita fyrir fyrsta viðbragð vegna vopnaburðar og kynferðisofbeldis.

Flæðiritin eru mikilvægur hluti af því að tryggja skýrt og samhæft verklag í neyðartilvikum. Lýðheilsuráð lítur á þau sem lykilþátt í að:

Fækka ofbeldisbrotum, styðja þolendur og gerendur með það að markmiði að draga úr ofbeldishegðun og auka fræðslu og þekkingu meðal starfsfólks skóla, félagsmiðstöðva og íþrótta- og æskulýðsstarfsemi.

Þar að auki er mikilvægt að þessi flæðirit séu aðgengileg og sýnileg þar sem þau nýtast best, meðal annars í kennarastofum og á vettvangi skóla- og æskulýðsstarfs. Ráðið tekur undir mikilvægi þess að fylgja eftir dreifingu og innleiðingu flæðiritanna með öflugri fræðslu og samstarfi við samfélagslögreglu.

Lýðheilsuráð þakkar fyrir þetta mikilvæga framlag og felur íþrótta- og tómstundafulltrúa að koma þessum upplýsingum áfram á þau þurfa mögulega að nýta þessar úrræðaleiðbeiningar til að tryggja öryggi og velferð barna og ungmenna.

5. Mikilvægi hreyfingar (2025010127)

Lýðheilsuráð Reykjanesbæjar leggur mikla áherslu á mikilvægi reglulegrar og rösklegrar hreyfingar fyrir bæði líkamlega og andlega heilsu. Ráðið hvetur íbúa allra aldurshópa til að stunda fjölbreytta hreyfingu sem eflir heilsu og vellíðan.

Hreyfing er ekki aðeins lykillinn að bættri líkamlegri heilsu heldur hefur hún einnig jákvæð áhrif á andlega líðan, aukið úthald og félagslega þátttöku. Sérstök áhersla er lögð á að hvetja börn og ungmenni til að taka virkan þátt í hreyfingu og íþróttastarfi sem stuðlar að heilbrigðum lífsstíl og styrkir félagslega færni.

Ráðið mun halda áfram að hvetja alla íbúa Reykjanesbæjar til að stunda hreyfingu, bæði í gegnum skipulagt öflugt íþrótta- og tómstundastarf sem og sér til heilsubótar.

Fylgigögn:

Hreyfum okkur rösklega á hverjum degi

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16.05. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 21. janúar 2025.