9. fundur lýðheilsuráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 10. júní 2020 kl. 08:15
Viðstaddir: Jóhann Friðrik Friðriksson formaður, Anna Sigríður Jóhannesdóttir, Guðrún Pálsdóttir, Guðrún Ösp Theodórsdóttir, Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs, Guðrún Magnúsdóttir lýðheilsufræðingur og Hrefna Höskuldsdóttir ritari.
1. Lýðheilsustefnan (2019100079)
Lýðheilsuráð mun óska eftir opnum fundi með Embætti landlæknis á lýðheilsuvísum fyrir íbúa sveitarfélagsins. Dag- og tímasetning verður auglýst síðar.
Í niðurstöðum lýðheilsuvísa undanfarin ár hefur komið fram að aðsókn í skimun fyrir krabbameini hefur verið einna minnst á Suðurnesjum. Lýðheilsuráð telur að nauðsynlegt sé að fara í átak í krabbameinsskimun á Suðurnesjum og mun beita sér fyrir því.
Lýðheilsuráð hvetur vinnuveitendur á Suðurnesjum að skapa starfsmönnum sínum tækifæri til að sækja slíkar skimanir.
2. Suðurnesjaskýrsla (2019110318)
Skýrslan lögð fram.
Fram kemur í skýrslunni að um 3000 íbúar Suðurnesja eru skráðir á heilsugæslum á höfuðborgarsvæðinu. Lýðheilsuráð óskar eftir kynningu frá forstjóra og yfirlækni heilsugæslunnar á stefnu Heilbrigðisstofnunarinnar varðandi heimilislæknakerfi fyrir íbúa Suðurnesja. Lýðheilsuráð krefst þess að sett verði upp slíkt kerfi á Suðurnesjum.
Með því að smella hér opnast Suðurnesjaskýrslan
3. Kynningarmyndband (2019100079)
Guðrún Magnúsdóttir lýðheilsufræðingur sýndi kynningarmyndband um lýðheilsu. Myndbandið verður aðgengilegt á heimasíðu Reykjanesbæjar. Ráðið þakkar Guðrúnu Magnúsdóttur og Víði Björnssyni fyrir vinnslu myndbandsins.
4. Skessumílan (2020040026)
Heilsueflingarverkefnið Skessumílan sem Reykjanesbær og Skessan í hellinum stóðu fyrir fór fram í fyrsta skipti 4. júní síðastliðin. Viðburðurinn var hugsaður sem heilsueflingarhvatning fyrir alla fjölskylduna, þar sem gengið var eða skokkað frá hafnarvoginni við Keflavíkurhöfn og út í smábátahöfnina eftir göngustígnum við sjávarsíðuna. Um var að ræða 1,6 km langa gönguferð þar sem allir geta tekið þátt og notið útivistar í okkar fallega sveitarfélagi.
Bæjarstjórinn ræsti keppendur og gekk með þeim í endamarkið. Stefnt var að því að Skessan tæki líka þátt, en hún afboðaði því miður á síðustu stundu. Allir þátttakendur fengu þátttökunúmer, úr þessum númerum voru síðan dregnir út nokkrir heilsueflingarglaðningar. Að lokinni göngunni beið jógabílinn eftir hópnum og stjórnendur hans sáu um að teygja á þreyttum vöðvum eftir göngutúrinn. Jafnframt fengu allir þátttakendur lífræn epli og frítt í sund að loknum viðburðinum. Framkvæmdin var í höndum þríþrautarfélagsins 3N og Reykjanesbæjar og miðað við þátttökuna í ár er stefnt að því að gera þetta heilsueflingarverkefni að árlegum viðburði.
Lýðheilsuráð fagnar þessu frumkvæði og þakkar íbúum þátttökuna.
5. Umhverfisstefna Reykjanesbæjar (2020021391)
Lýðheilsuráð leggur áherslu á að fram komi markmið í umhverfisstefnu þar sem hið byggða umhverfi tekur mið af tækifærum til heilsueflingar.
Lýðheilsuráð mun leggja sitt á vogarskálarnar að móta heildræna umhverfisstefnu og felur Guðrúnu Magnúsdóttur lýðheilsufulltrúa að fullvinna texta ráðsins.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 9.50. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 16. júní 2020