1. fundur

18.09.2019 15:00

1. fundur menningar- og atvinnuráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12, Seltjörn 18. september 2019, kl. 15:00

Viðstaddir: Arnar Páll Guðmundsson, Friðjón Einarsson, Sigrún Inga Ævarsdóttir, Trausti Arngrímsson, Kjartan Már Kjartansson, Þórdís Ósk Helgadóttir og Guðlaug María  Lewis sem ritaði fundargerð. Bjarni Stefánsson og Eydís Hentze Pétursdóttir boðuðu forföll. 

1. Erindisbréf menningar- og atvinnuráðs (2019090453)

Erindisbréfið lagt fram til kynningar.

2. Skipting embætta í menningar- og atvinnuráði (2019090455)

Friðjón Einarsson var kjörinn formaður ráðsins.
Trausti Arngrímsson var kjörinn varaformaður ráðsins.
Eydís Hentze Pétursdóttir var kjörin ritari ráðsins.

3. Kynning á verkefnum og starfssviði menningar- og atvinnuráðs (2019090456)

Forstöðumaður Súlunnar kynnti starfssvið og skipurit Súlunnar.

4. Fundartími menningar- og atvinnuráðs (2019090457)

Ákvörðun frestað til næsta fundar.

5. Tilmæli Örnefnanefndar til sveitarfélaga á Íslandi (2019070114)

Tilmæli Örnefnanefndar kynnt um að sveitarfélög hafi frumkvæði að því að gefa stöðum nöfn þegar þörf er á og sporna gegn óviðunandi nafni sem annars gæti fest í sessi. Samkvæmt Örnefnanefnd hafa ferðaþjónustufyrirtæki hafi í auknum mæli tekið að nota ensk nöfn á íslenskum stöðum í markaðssetningu. Í ljósi þess mælir Örnefnanefnd með því að reynt verði að finna leiðir til að bregðast við ef ensk nöfn á íslenskum stöðum eru líkleg til að festast í sessi. Ráðið felur forstöðumanni Súlunnar að kanna hvort slíkt eigi við um örnefni í Reykjanesbæ og koma málinu í viðeigandi farveg.

Fylgigögn:

Tilmæli Örnefnanefndar

6. Menningarverðlaun Reykjanesbæjar 2019 (2019090461)

Ráðið felur forstöðumanni Súlunnar að auglýsa eftir hugmyndum bæjarbúa að verðugum fulltrúa til menningarverðlauna ársins 2019.

7. Umsókn um Vestnorden kaupstefnu í Reykjanesbæ 2020 (2019080689)

Ráðið upplýst um stöðu mála og styður umsókn Reykjanesbæjar og Markaðsstofu Reykjaness um að Vestnorden kaupstefnan verði haldin í Reykjanesbæ á næsta ári.

8. Ljósanótt (2019050127)

Undirbúningur og framkvæmd tuttugustu Ljósanæturinnar gekk vel. Sérstök áhersla var í ár lögð á menningu erlendra íbúa m.a. með sýningu á pólskri myndlist í Duus Safnahúsum. Einnig var áhersla lögð á að bjóða upp á ókeypis leiktæki og skemmtidagskrá fyrir börn til viðbótar við þau tæki þar sem gjalds er krafist. Þá voru fyrstu skrefin stigin í að sporna gegn notkun á einnota plasti á Ljósanótt og verður haldið áfram að þróa það verkefni. Góð þátttaka var í öllum viðburðum hátíðarinnar sem stóð frá miðvikudegi til sunnudags en minni þátttaka en áður var á laugardegi vegna mikils vatnsveðurs að deginum til. Með góðum undirbúningi og snöggum viðbrögðum starfsmanna var ekki þörf á að aflýsa viðburðum heldur voru þeir fluttir til sunnudags og mæltist það vel fyrir. Ráðið þakkar öllum sem stóðu að framkvæmd Ljósanætur í ár. Sérstakar þakkir eru færðar Valgerði Guðmundsdóttur menningarfulltrúa fyrir hennar framlag sem framkvæmdastjóri hátíðarinnar sl. 20 ár.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16:05. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 1. október 2019