15. fundur menningar- og atvinnuráðs Reykjanesbæjar, fjarfundur haldinn 18. nóvember 2020, kl. 08:30
Viðstaddir: Friðjón Einarsson formaður, Arnar Páll Guðmundsson, Eydís Hentze Pétursdóttir, Sigrún Inga Ævarsdóttir, Trausti Arngrímsson, Þórdís Ósk Helgadóttir forstöðumaður Súlunnar verkefnastofu og Hrefna Höskuldsdóttir ritari.
1. Tjaldsvæði að Stapabraut 21 - erindi frá Happy Campers (2020100218)
Á fundinn mættu Hrafnhildur Ýr Hafsteinsdóttir verkefnastjóri ferðamála og Sigurgestur Guðlaugsson verkefnastjóri atvinnu- og viðskiptaþróunar.
Menningar- og atvinnuráð þakkar yfirferð verkefnastjóranna.
Í ljósi kröfu um gagnsæi og jafnræði í opinberri þjónustu getur sveitarfélagið ekki farið í skuldbindandi uppbyggingu á lóð einkaaðila eða tekið að sér kostnaðarliði í rekstri hans án þess að bjóða öllum öðrum í sambærilegum rekstri sambærilegan stuðning. Menningar- og atvinnuráð leggur til að verkefnastjórum ferðamála og atvinnu- og viðskiptaþróunar verði falið að ræða við Happy Campers um það hvernig bæjarfélagið geti stutt við uppbyggingu þess og atvinnusköpun en um leið verði gætt að gagnsæi og jafnræði gagnvart öllum aðilum. Menningar – og atvinnuráð fagnar áhuga á uppbyggingu í sveitarfélaginu.
2. Tjaldsvæði í Reykjanesbæ (2020100171)
Á fundinn mættu Hrafnhildur Ýr Hafsteinsdóttir verkefnastjóri ferðamála og Sigurgestur Guðlaugsson verkefnastjóri atvinnu- og viðskiptaþróunar.
Við uppbyggingu tjaldsvæðis skal leitast við að bjóða upp á afþreyingu sem auka mun fjölbreytileika svæðisins. Bera virðingu fyrir náttúrutengdum þáttum og tekur mið af umhverfinu, sé þar af leiðandi ekki íþyngjandi fyrir umhverfi sitt. Möguleikar til reksturs á slíku svæði getur fallið að stefnu Reykjanesbæjar í ferðamálum og miða að því að svara bæði rekstrargrundvelli tilvonandi rekstraraðila í þeirri starfsemi sem þar verður.
Skv. minnisblaði frá Umhverfissviði Reykjanesbæjar eru m.a. Njarðvíkurskógar álitin álitlegur kostur undir tjaldsvæði. Verkefnastjóri ferðamála tekur undir þá tillögu þó fyrirvari sé settur um flug umferð í nálægð við svæðið. Svæðið býður upp á rými fyrir rekstur sem ekki byggist eingöngu á gistirekstri.
Þar sem ekki er verið að leggja til að Reykjanesbær reki svæðið er ekki raunhæft að kostnaðargreina rekstur en hægt er að gera kostnaðaráætlun um uppbyggingu svæðisins út frá þekktum kostnaðarliðum hjá Umhverfissviði en aðra liði þyrfti að greina með væntanlegum samstarfsaðila.
Menningar- og atvinnuráð leggur til að málið verði tekið áfram og kostnaðargreint miðað við tillögu Umhverfissviðs um staðsetningu.
3. Lýðheilsustefna – beiðni um umsögn (2019100079)
Menningar- og atvinnuráð fagnar metnaðarfullri stefnu og samþykkir hana.
4. Gjafir til Listasafns Reykjanesbæjar (2020110268)
Daði Guðbjörnsson (f. 1954) hefur frá upphafi níunda áratugarins starfað nær eingöngu að listsköpun sinni með áherslu á málverkið og grafík. Hann lærði við Myndlistaskólann í Reykjavík 1972–1976, Nýlistadeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1976–1980 og stundaði nám við grafíkdeild Rijksakademie van beelende kunsten í Amsterdam 1983–1984. Daði hefur haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í samsýningum bæði hér á landi og erlendis. Hann var formaður Félags íslenskra myndlistamanna 1986–1990, í safnráði Listasafns Íslands 1987–1989 og hefur einnig unnið sem leiðbeinandi við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1985–1989 og Myndlistaskólann í Reykjavík 1988–1997. Daði hefur stundað Sahajajóga og hugleiðslu frá árinu 2006.
Þann 17. október 2020 opnaði Listasafn Reykjanesbæjar yfirlitssýningu á grafíkverkum Daða frá árunum 1978–2020. Við þetta tilefni gaf listamaðurinn safninu formlega að gjöf um rúmlega 300 grafík verk, en af þeim eru 244 verk á sýningunni. Listasafnið vinnur nú að því að skrá grafík verk Daða í menningarsögulegt gagnasafn Sarps sem hefur að geyma verk í eigu allra safna á Íslandi.
Listasafn Reykjanesbæjar þakkar Daða Guðbjörnssyni fyrir traustið sem hann sýnir safninu með svo rausnarlegri gjöf.
Björg Þorsteinsdóttir (1940–2019) lagði stund á teikningu, málun og grafík, allt frá sjöunda áratugnum til æviloka. Hún útskrifaðist úr Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1964, lærði við École Nationale Supérieure des Beaux Arts og grafíkverkstæðið Atelier 17 í París árin 1971–1973. Björg hélt fjölmargar einkasýningar og var valin á samsýningar bæði hér á landi og erlendis. Hún sat í stjórn Íslenskrar grafíkur og Félagi íslenskra myndlistarmanna, í ráði Norrænu myndlistarmiðstöðvarinnar NKC í Finnlandi og í fulltrúaráði Listasafns Sigurjóns Ólafssonar. Björg var forstöðumaður Safns Ásgríms Jónssonar 1980–1984 og starfaði einnig sem kennari við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og Myndlistaskólann í Reykjavík.
Í maí 2020 fékk Listasafn Reykjanesbæjar rausnarlega gjöf úr dánarbúi Bjargar sem samanstendur af 105 myndverkum, þar af eru 7 krítarteikningar, 11 akrýl málverk og 87 grafík verk. Búið er að skrá verkin í menningarsögulegt gagnasafn Sarps sem hefur að geyma verk í eigu allra safna á Íslandi.
Listasafn Reykjanesbæjar þakkar aðstandendum traustið, dóttur Bjargar, Guðnýju Ragnarsdóttur og hennar syni Ragnari Árna Ólafssyni. Safnið mun standa vörð um arfleifð Bjargar Þorsteinsdóttur.
5. Atvinnumál (2020090192)
Á fundinn mætti Sigurgestur Guðlaugsson verkefnastjóri atvinnu- og viðskiptaþróunar og fór yfir stöðuna á ýmsum verkefnum sem eru í undirbúning.
6. Atvinnuleysistölur (2020010478)
Á fundinn mætti Sigurgestur Guðlaugsson verkefnastjóri atvinnu- og viðskiptaþróunar.
Atvinnuleysi heldur áfram að aukast og var 22,5% í Reykjanesbæ í lok október. Góðar fréttir um að bólusetningar geti hafist á fyrri hluta næsta árs gefa von um að ástandið verði tímabundið. Þessar góðu fréttir undirstrika mikilvægi þess að gætt verði að þessum hópi nú á næstu mánuðum og að sá kostnaður sem hann verður fyrir vegna sóttvarnarráðstafana og tímabundinna áhrifa þeirra á atvinnulíf fylgi honum ekki um ókomna tíð.
7. Fundargerðir neyðarstjórnar (2020030192)
Fundargerðirnar lagðar fram.
Með því að smella hér opnast fundargerðir neyðarstjórnar
Ráðið samþykkir að taka eftirfarandi mál á dagskrá:
8. Menningarverðlaun Reykjanesbæjar (2020090177)
Menningarverðlaun Reykjanesbæjar, Súluna, hlaut að þessu sinni Alexandra Chernyshova sópransöngkona og tónskáld. Alexandra hlýtur Súluna fyrir framlag sitt til eflingar tónlistarlífs í Reykjanesbæ.
Menningar- og atvinnuráð þakkar Guðlaugu Maríu Lewis menningarfulltrúa sérstaklega fyrir góðan undirbúning.
9. Jóladagskrá 2020 (2020100172)
Jólagarðurinn - Alla laugardaga í desember og á Þorláksmessu
Jólagarðurinn er nýtt verkefni sem ætlað er að vekja upp skemmtilega jólastemningu. Ráðhústorg og hluti skrúðgarðsins verða skreytt og boðið upp á óvæntar uppákomur til að gleðja gesti og gangandi. Þar verða einnig sölukofar þar sem íbúar og aðrir geta selt varning tengdan jólum.
Jólasveinaratleikur og óskalistar til jólasveinanna frá 5.desember- 6.janúar kl. 12.00-17.00: Duus Safnahús
Á aðventunni stendur fjölskyldum til boða að fara í ratleik í Duus Safnahúsum og leita að gömlu jólasveinunum sem hafa falið sig hér og þar um húsið. Þá er hægt og biðja Skessuna í hellinum um að koma óskalista til jólasveinanna.
Skreytum saman Jólastofu, sunnudaginn 6.desember kl. 13-16: Duus Safnahús
Fjölskyldur búa til kramarhús, músastiga og jólahjörtu til að skreyta Jólastofuna í anda jólatrésskemmtana Duus fjölskyldunnar í upphafi 20.aldar. Notaleg jólaföndurstund fyrir fjölskyldur.
Jólasveinn dagsins, 12-.24. desember
Stekkjastaur kemur til byggða þann 12. desember og bræður hans einn af öðrum á hverju degi til jóla. Þeir munu koma við í Duus Safnahúsum daglega til jóla og bregða á leik. Hægt verður að fylgjast með uppátækjum þeirra á Facebooksíðu Duus Safnahúsa á hverjum degi.
Þrettándagleði miðvikudaginn 6. janúar
Nánari útfærsla síðar í ljósi samkomutakmarkana.
Ráðið lýsir ánægju sinni með metnaðarfulla jóladagskrá stofnana Reykjanesbæjar og hvetur íbúa til virkrar þátttöku í henni enda er hún þeim að kostnaðarlausu.
10. Viðburðardagskrá Súlunnar (2020110317)
Sameiginleg viðburðadagskrá allra menningarstofnana Reykjanesbæjar var gefin út rafrænt í fyrsta sinn í nóvember og verður gefin út mánaðarlega framvegis. Dagskráin er send til notenda með tölvupósti og þá geta áskrifendur nálgast á einum stað allar upplýsingar um viðburðadagskrá á vegum menningarstofnana bæjarins. Ráðið lýsir mikilli ánægju með metnaðarfullt starf stofnananna og bætta þjónustu þeirra.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10:10. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 1. des. 2020.