17. fundur

20.01.2021 08:30

17. fundur menningar- og atvinnuráðs Reykjanesbæjar, fjarfundur haldinn 20. janúar 2021, kl. 08:30

Viðstaddir: Friðjón Einarsson formaður, Arnar Páll Guðmundsson, Eydís Hentze Pétursdóttir, Sigrún Inga Ævarsdóttir, Trausti Arngrímsson, Þórdís Ósk Helgadóttir forstöðumaður Súlunnar verkefnastofu og Hrefna Höskuldsdóttir ritari.

1. Menningarsjóður 2021 (2021010178)

Þórdísi Ósk Helgadóttur forstöðumanni er falið að auglýsa menningarstyrki/þjónustusamninga sem fyrst. Umsóknarfrestur verður til 14. febrúar 2021.

2. Bókasafn Reykjanesbæjar (2020080049)

Fimmtudaginn 31. desember sl. gamlársdag, var árið kvatt í Bókasafni Reykjanesbæjar. Rit- og myndhöfundurinn Bergrún Íris Sævarsdóttir las úr bók sinni Töfralandið í gegnum veraldarvefinn og sendi íbúum Reykjanesbæjar töfrandi nýárskveðjur.

3. Bókasafn Reykjanesbæjar 2021 (2021010359)

15. janúar sl. var opnuð sýning í Átthagastofu bókasafnsins, tilefnið er að 65 ár eru síðan bókin um Soffíu frænku og ræningjana Kasper, Jesper og Jónatan kom út. Sýningin kemur frá Norræna húsinu og er unnin í samstarfi við Norska sendiráðið á Íslandi. Sýndar verða teikningar höfundarins Thorbjørn Egner úr Kardemommubænum.

4. Bókasafn í Stapaskóla 2021 (2021010360)

Mikil eftirvænting er meðal barna í Stapaskóla en þar styttist í opnun bókasafnsins í skólanum. Stapasafn verður opnað fyrir nemendur í síðasta lagi 20. janúar 2021. Mikil vinna hefur farið fram til þess að gera safnið sem best.

5. Hljómahöll og Rokksafn Íslands 2021 (2021010361)

Rokksafn Íslands opnar nýja sérsýningu í febrúar sem heitir Melódíur minningana & Jón Kr. Ólafsson. Sýningin fjallar um söngvarann Jón Kr. Ólafsson og tónlistarsafn hans Melódíur minninga sem staðsett er á Bíldudal. Undirbúningur að sýningunni hefur staðið yfir síðan í júní árið 2020 og er sýningin byggð á munum sem Jón hefur safnað í gegnum tíðina frá tónlistarferli sínum og munum frá öðrum tónlistarmönnum á borð við Ellý Vilhjálms, Ragga Bjarna, Hauk Morthens, Svavar Gests o.fl. Gagnvirkur skjár sem inniheldur ýmis myndbrot úr lífi Jóns Kr. er hluti af sýningunni ásamt gagnvirkum sýndarveruleikagleraugum sem gerir sýningargestum kleift að heimsækja og ganga um tónlistarsafnið á Bíldudal. Opnunardagsetning verður tilkynnt á næstkomandi vikum.

6. Hátíðir og viðburðir - Safnahelgi á Suðurnesjum (2021010172)

Á fundi menningarfulltrúa sveitarfélaganna á Suðurnesjum var sú ákvörðun tekin í ljósi samkomutakmarkana að fresta Safnahelgi á Suðurnesjum, sem fyrirhuguð var í mars, fram í október.

7. Jóladagskrá 2020 (2020100172)

Menningar- og atvinnuráð lýsir ánægju sinni með hvernig til tókst með Aðventugarðinn og leggur áherslu á að haldið verði áfram að vinna að þróun hans enda sé ljóst að ánægja bæjarbúa með hann sé almenn og mikil eins og niðurstöður viðhorfskönnunar á Aðventugarðinum gefur skýrt til kynna. 150 manns tóku þátt í að svara könnunni. Þar sögðust 96% ánægðir með tilkomu Aðventugarðsins og 97% töldu líklegt að þeir myndu heimsækja hann aftur. Flestum fannst jólaljósin vera það skemmtilegasta við Aðventugarðinn auk þess sem það vakti hrifningu að kíkja í sölukofana, á eldstæðin og heilsa upp á jólasveinana og Grýlu. Þá bárust einnig góðar ábendingar um hvernig hægt er að gera Aðventugarðinn enn betri. Ráðið þakkar þeim sem stóðu að undirbúningi og framkvæmd verkefnisins og einnig bæjarbúum fyrir jákvætt viðhorf og virka þátttöku.
Menningar- og atvinnuráð sendir líka þakkir til þeirra sem stóðu að þrettándadagskrá í Reykjanesbæ á þessum óvenjulegu tímum sem krefjast nýrra lausna.

8. Skapandi sumarstörf (2021010362)

Menningar- og atvinnuráð felur menningarfulltrúa að kostnaðarmeta verkefnið og leita leiða til að hrinda verkefninu í framkvæmd.

9. List á hringtorgum (2021010079)

Erindi barst frá Guðmundi Rúnari Lúðvíkssyni varðandi list á hringtorgum.
Menningar- og atvinnuráð tekur vel í erindið. Safnstjóra Listasafnsins er falið að vinna áfram í málinu í samvinnu við umhverfissvið.

Fylgigögn:

Erindi

10. Atvinnumál 2021 (2021010176)

Á fundinn mætti Sigurgestur Guðlaugsson verkefnastjóri atvinnu- og viðskiptaþróunar og fór yfir stöðuna á ýmsum verkefnum sem eru í undirbúningi.
Menningar- og atvinnuráð felur verkefnastjóra atvinnu- og viðskiptaþróunar að ræða við viðeigandi stjórnvöld varðandi sjókvíaeldi.

11. Atvinnuþróunarstefna (2020010477)

Á fundinn mætti Sigurgestur Guðlaugsson verkefnastjóri atvinnu- og viðskiptaþróunar og upplýsti ráðið um vinnu við stefnuna. Forsendugreining verður kynnt á næstu vikum.

12. Atvinnuleysistölur 2021 (2021010175)

Á fundinn mætti Sigurgestur Guðlaugsson verkefnastjóri atvinnu- og viðskiptaþróunar og fór yfir atvinnuleysistölur. Hægt hefur á vexti atvinnuleysis samkvæmt nýjustu tölum, atvinnuleysi er þó enn mjög hátt í sögulegu samhengi.
Menningar- og atvinnuráð ítrekar ósk sína til stjórnvalda um lengingu atvinnubótatímabilsins þar sem gera má ráð fyrir mikilli aukningu umsækjenda um fjárhagsaðstoð sveitarfélaga á næstu mánuðum.

13. Mælaborð Súlunnar (2020040101)

Þórdís Ósk Helgadóttir forstöðumaður fór yfir mælaborð vegna nóvember 2020.

14. Umhverfis- og loftslagsstefna Reykjanesbæjar - beiðni um umsögn (2020021391)

Stefnan lögð fram. Nefndarmenn sendi athugasemdir til framkvæmdastjóra Súlunnar.

15. Fundargerðir neyðarstjórnar (2021010061)

Fundargerðirnar lagðar fram. https://www.reykjanesbaer.is/is/stjornsysla/stjornsyslan/fundargerdir/neydarstjorn

 

Ráðið samþykkir að bæta eftirfarandi máli á dagskrá:

16. Vestnorden (2019080689)

Menningar- og atvinnuráð vísar erindinu til bæjarráðs þar sem um viðauka við fjárhagsáætlun er að ræða.

 

Á nýsköpunardeginum 21. janúar 2021 mun Þórdís Ósk Helgadóttir forstöðumaður Súlunnar halda erindi um rafræna menningarmiðlum á Covid tímum.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 2. febrúar 2021.