33. fundur

18.05.2022 11:00

33. fundur menningar- og atvinnuráðs Reykjanesbæjar haldinn á Courtyard by Marriott 18. maí 2022 kl. 11:00

Viðstaddir: Friðjón Einarsson formaður, Arnar Páll Guðmundsson, Eydís Hentze Pétursdóttir, Trausti Arngrímsson og Sigrún Inga Ævarsdóttir.

Að auki sátu fundinn Þórdís Ósk Helgadóttir forstöðumaður Súlunnar verkefnastofu, Betsý Ásta Stefánsdóttir fulltrúi ungmennaráðs, Ólafur Bergur Ólafsson umsjónarmaður ungmennaráðs og Íris Andrea Guðmundsdóttir ritari.

Menningar- og atvinnuráð samþykkti að tekið væri á dagskrá Rauðglóandi götuleikhús, fjallað um málið í fundarlið nr. 10.

1. Markaðsmál - sumar 2022 (2022050381)

Gunnar Víðir Þrastarson verkefnastjóri markaðsmála mætti á fundinn og fór yfir áætlun sumarsins í auglýsingamálum.

Markaðsherferðin „Kíktu í heimsókn“ hefur gengið vel undanfarin tvö ár þar sem Reykjanesbær hefur verið kynntur sem áhugaverður og skemmtilegur kostur fyrir ferðaþyrsta íslendinga sem ferðuðust í auknu mæli innanlands á meðan heimsfaraldrinum stóð. Núna þegar áhrifum frá Covid-19 faraldrinum er að mestu leiti lokið á Íslandi þá er kominn tími til að breyta um áherslur í kynningarmálum fyrir næsta sumar.

Til að nýta takmarkað fjármagn þá leggur verkefnastjóri markaðsmála til að nota áfram stafrænt myndefni sem er til fyrir og auglýsa eingöngu á vefnum og útvarpi. Skilaboðin þurfa núna að vera opnari og vera til þess fallinn að styrkja vitund, efla sýnileika og auka löngun til að ferðast til Reykjanesbæjar. Markmiðið er líka að vekja athygli á síðunni www.visitreykjanesbaer.is sem verður lendingarsíða fyrir allar auglýsingar sem birtast á veraldarvefnum sumarið 2022.

2. Grisjunaráætlun Byggðasafns Reykjanesbæjar (2022050377)

Eva Kristín Dal safnstjóri Byggðasafn Reykjanesbæjar mætti á fundinn og fór yfir grisjunaráætlun safnsins.

Menningar- og atvinnuráð gerir ekki athugasemd við grisjunaráætlun safnsins.

3. Hátíðardagskrá 17. júní 2022 (2022050379)

Guðlaug María Lewis menningarfulltrúi mætti á fundinn og fór yfir hátíðardagskrá 17. júní 2022. Drög að dagskrá 17. júní lögð fram. Drögin gera ráð fyrir hátíðardagskrá í skrúðgarðinum í Keflavík og skemmtidagskrá í fjórum hverfum Reykjanesbæjar, Ásbrú, Keflavík, Njarðvík og Innri-Njarðvík. Dagskrá verður kynnt síðar.

Menningar- og atvinnuráð samþykkir drögin.

4. Sjómannadagurinn í Reykjanesbæ 2022 (2022050380)

Drög að dagskrá sjómannadagsins, 12. júní 2022, lögð fram. Sjómannadagurinn hefur verið haldinn hátíðlegur með dagskrá í Duus Safnahúsum. Dagskráin er unnin í samstarfi nokkurra aðila og hefst með sjómannamessu, sem haldin er til skiptis á vegum Keflavíkurkirkju og Njarðvíkurkirkju, og í ár er hún haldin á vegum Njarðvíkurkirkju. Í lok dagskrár er lagður krans við minnismerki sjómanna við Hafnargötu fyrir tilstilli Vísis, félags skipstjórnarmanna á Suðurnesjum, Vélstjórafélags Suðurnesja og Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis.

Menningar- og atvinnuráð samþykkir dagskrána.

5. Ljósanótt 2022 (2022030346)

Undirbúningur fyrir Ljósanótt, 1.-4. september 2022, er í fullum gangi. Á næstu dögum berast fyrirtækjum erindi um framlög til hátíðarinnar og hvetur ráðið bæði þau, sem og félög og íbúa alla, eindregið til þess að taka höndum saman og leggja sitt af mörkum til að lyfta andanum eftir langt og strangt tímabil samkomutakmarkana og erfiðs atvinnuástands. Ljósanótt er tákn bjartsýni, ljóss og birtu og þá fögnum við lífinu og tilverunni og njótum nærveru hvers annars.

6. Sýning listasafns Reykjanesbæjar (2022050382)

Sporbaugur/Ellipse, verður aðal sýning Listasafns Reykjanesbæjar árið 2022, áætlað sýningatímabil er frá laugardeginum 28. maí til sunnudagsins 14. nóvember 2022. Safnstjóri Listasafns Reykjanesbæjar hefur verið í samtali um langt skeið við listamennina Gabríelu Friðriksdóttur og Björn Roth, bæði eru þau vel þekkt og vekja sýningar þeirra ávallt athygli bæði á Íslandi sem og út fyrir landssteinana.

Gabríela Friðriksdóttir og Björn Roth eru bæði vel þekktir listamenn sem hafa vel þekkt og afar persónulegt tungumál í listsköpun sinni. Ein kynslóð listamanna skilur þau að en á sama tíma tilheyra verk þeirra sömu fjölskyldu. Bæði eru þau þekkt fyrir súrrealíska túlkun á heiminum, ásamt pönkuðu viðhorfi til heimsins.

Myndheimur beggja listamanna hefur yfir sér framúrstefnulegt, ævintýralegt yfirbragð, þó með ólíkum hætti sé.

Sýningin verður gerð sérstaklega fyrir rými Listasafns Reykjanesbæjar.

Menningar- og atvinnuráð hvetur alla til þess að heimsækja listasafnið og upplifa sýninguna.

7. Viðburðir í Hljómahöll (2022050383)

Prins Póló og Moses Hightower tónleikar í Hljómahöll.

Tónlistarmaðurinn Prins Póló og hljómsveitin Moses Hightower komu fram á tónleikum sem haldnir voru á vegum Hljómahallar þann 12. maí 2022 í Stapa í Hljómahöll. Tónleikarnir heppnuðust vel en samtals sóttu tónleikana um 350 gestir. Rútuferðir voru í boði fyrir gesti af höfuðborgarsvæðinu og fóru 20 gestir með rútu á milli BSÍ og Hljómahallar.

8. Mælaborð (2022030348)

Þórdís Ósk Helgadóttir forstöðumaður fór yfir mælaborð fyrir apríl mánuð.

9. Leikfélag Keflavíkur (2022050385)

Menningar- og atvinnuráð óskar leikfélagi Keflavíkur til hamingju með að vera valin athyglisverðasta áhugaleiksýning ársins með leiksýningunni Fyrsti kossinn. Fyrsti kossinn er söngleikur saminn af Brynju Ýr Júlíusdóttir og Guðlaugi Ómar Guðmundssyni og fjallar í stuttu máli um líf og ástir hljómsveitarmeðlima hljómsveitarinnar Grip sem reyna að meika það með því að vinna eina stærstu hljómsveitarkeppni landsins, Hljómaflæði. Leikfélaginu er boðið í kjölfarið að sýna verkið í Þjóðleikhúsinu þann 9. og 10. júní nk.

10. Rauðglóandi götuleikhús (2022050477)

Hávaxnar undraverur og glaðværir trommuleikarar skálma um götur og torg og slá tóninn fyrir Listahátíð í Reykjavík 2022. Risavaxnir fánar og blævængir svífa yfir mannfjöldanum og loftið er þrungið spennu, fegurð og hrynjandi. Við í Reykjanesbæ erum svo einstaklega heppin að hafa fengið boð um að fá þetta stórfenglega opnunaratriði Listahátíðar í Reykjavík í heimsókn til okkar laugardaginn 4. júní 2022. Þessu má enginn missa af. Gangan hefst kl. 12 við Hafnargötu 88 og verður gengið niður Hafnargötu í átt að Duus Safnahúsum.

Hollenski leikhópurinn Close-Act Theatre hefur starfað í hartnær þrjátíu ár og vakið athygli víða um lönd fyrir leiftrandi götuleikhússýningar sem hrífa áhorfendur með sér inn í veruleika þar sem allt getur gerst. Risaeðlurnar í sýningunni Saurus spígsporuðu um miðborg Reykjavíkur í tilefni af opnun Listahátíðar árið 2018 og glöddu áhorfendur á öllum aldri. Hér snýr hópurinn aftur með seiðandi viðburð á heimsmælikvarða sem engin má missa af.

Menningar- og atvinnuráð hvetur íbúa Reykjanesbæjar til að fjölmenna á Hafnargötuna þann 4. júní og upplifa þetta stórfenglega atriði.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 12:10. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 7. júní 2022.