35. fundur menningar- og atvinnuráðs Reykjanesbæjar haldinn í Duus safnahúsum 17. ágúst 2022 kl. 09:15
Viðstaddir: Trausti Arngrímsson formaður, Birgitta Rún Birgisdóttir, Eydís Hentze Pétursdóttir, Gunnar Jón Ólafsson og Sverrir Bergmann Magnússon
Eva Stefánsdóttir boðaði forföll, Gunnar Jón Ólafsson sat fundinn.
Að auki sátu fundinn Þórdís Ósk Helgadóttir forstöðumaður Súlunnar verkefnastofu og Íris Andrea Guðmundsdóttir ritari.
1. Framkvæmdir í Duus safnahúsum (2021050282)
Guðlaug María Lewis menningarfulltrúi mætti og kynnti fyrirhugaðar framkvæmdir í Duus safnahúsum.
2. Ljósanótt 2022 (2022030346)
Guðlaug María Lewis menningarfulltrúi mætti á fundinn og kynnti stöðuna. Undirbúningur er vel á veg kominn og dagskráin í ár verður síst viðaminni en áður. Ráðið hvetur alla þá sem eru með viðburði á sínum snærum að koma upplýsingum um viðburðina inn á vef Ljósanætur www.ljosanott.is. Ráðið hvetur einnig fyrirtæki til að taka jákvætt í og svara sem fyrst, styrkbeiðni Ljósanefndar, margt smátt gerir eitt stórt.
3. 17. júní 2022 (2022050379)
Guðlaug María Lewis menningarfulltrúi mætti á fundinn. Skýrsla fyrir 17. júní 2022 lögð fram.
4. Atvinnumál (2021010176)
Sigurgestur Guðlaugsson verkefnastjóri atvinnu- og viðskiptaþróunar mætti á fundinn og fór yfir stöðu atvinnumála.
5. Nýting á skjaldarmerki bæjarins (2022080291)
Menningar- og atvinnuráð felur Þórdísi Ósk Helgadóttur að vinna að málinu.
6. Saga Keflavíkur 1949-1994 (2019050831)
Fundargerð lögð fram.
Verkefninu Söguvefurinn er vísað til fjárhagsáætlunargerðar fyrir árið 2023.
Fylgigögn:
Fundargerð sögunefndar Keflavíkur 22. júní 2022
7. Fjármál deilda Súlunnar verkefnastofu (2022080289)
Þórdís Ósk Helgadóttir forstöðumaður Súlunnar fór yfir stöðu fjármála Súlunnar verkefnastofu.
8. Mælaborð (2022030348)
Mælaborð lagt fram.
9. Sýningar í Listasafni og Byggðasafni (2022030351)
- Listráð Reykjanesbæjar sýnir verk sín í Bíósal Duus húsa á Ljósanótt. Listráð skipaða þau; Kristinn Már Pálmason, Andrea Maack og Gunnhildur Þórðardóttir. Öll hafa þau rætur í Reykjanesbæ, annað hvort með búsetu eða eru fædd og uppalin bæjarfélaginu. Andrea rýfur mörkin á milli listsköpunar og tísku. Listsköpun Andreu er drifin áfram af þörf fyrir að skapa nýstárleg verk sem höfða til allra skynfæra.
Kristinn Már Pálmason er fæddur í Keflavík árið 1967 og tilheyrir því hinni svokölluðu pönkkynslóð. Á síðustu árum hafa myndverk Kristins verið byggð upp á dulhyggju og táknfræði. Formin eru tákn sem þó eru án sértækrar merkingar fyrir utan myndverkið sjálft.
Myndverk Gunnhildar styðjast oft við fundna endurunna hluti sem finna má í nærumhverfi listamannsins. Segja má að hún setji á svið eigin upplifun af hinu hversdagslega lífi, sem í tilfelli Gunnhildar er kannski ekki svo hversdagslegt. Oft má finna hættulega dulúð sem dregur áhorfandann inn í myndheim listamannsins.
- Byggðasafn Reykjanesbæjar opnar nýja sýningu fimmtudaginn 1. september kl. 18 í Duus safnahúsum. Sýningaropnunin er hluti af dagskrá Ljósanætur.
Sýningin ber heitið Hér sit ég og sauma. Byggðasafnið varðveitir yfir 60 saumavélar, þar á meðal saumavél sem framleidd var á árunum 1860-1870. Líklega er um að ræða eina af elstu saumavélum landsins.
Fatasaumur var eitt af verkefnum kvenna á árum áður og var saumaskapur mikilsmetið handverk. Tilkoma saumavélarinnar olli byltingu og sagt var að saumavél gæti sparað eina vinnukonu. Sumar konur urðu þekktar fyrir saumaskap sinn og gerði saumavélin þeim kleift að afla tekna.
Menningar og atvinnuráð hvetur íbúa að heimsækja Duus safnahús og upplifa nýjar áhugaverðar sýningar.
Fylgigögn:
Boðskort
10. Hljómahöll 2022 (2022050383)
- Sýningarhald í Rokksafni Íslands
Rokksafn Íslands opnaði nýja sýningu laugardaginn, 13. ágúst, kl. 14:00. Nýja sýningin fjallar um Sævar Þorkel Jensson, betur þekktur sem Keli, og úrklippubókasafn hans en hann hefur frá því að hann var ungur strákur safnað úrklippum og eiginhandaráritunum tónlistarfólks.
Safnarar á Íslandi safna ólíklegustu hlutum, en það eru ekki margir sem eru jafn ákafir safnarar á sviði rokk-, popp- og hvers konar dægurtónlistar eins og Keli. Sævar Þorkell Jensson, kallaður Keli, hefur safnað eiginhandaráritunum og úrklippum frá árinu 1964 þegar hann sá Hljóma fyrst á sviði. Keli á eitt stærsta úrklippusafn um dægurtónlist á Íslandi.
Úrklippubækur Kela geyma margskonar fróðleik og spanna dægurtónlistarsöguna í rúmlega hálfa öld. Bækurnar í dag eru rúmlega þrjú hundruð og fimmtíu talsins.
- Tónleikarhald í Hljómahöll
Það verður að teljast sannkallaður hvalreki fyrir tónlistarunnendur á Íslandi að Aldous Harding lagði lykkju á leið sína til að halda tónleika í Hljómahöll. Hún gaf út sína fyrstu plötu Aldous Harding árið 2014 og hefur síðan þá vakið athygli fyrir lagasmíðar og ekki síður flutning. Plöturnar Party (2017) og Designer (2019) hlutu einróma lof gagnrýnenda og tónlistarunnenda um allan heim. Þannig fékk hún 5 stjörnur af fimm mögulegum í Q tímaritinu og í The Independant fyrir Designer.
11. Bókasafn Reykjanesbæjar (2022030353)
Sýningin „Ofurhetjur fara sínar eigin leiðir“ verður opnuð í Bókasafni Reykjanesbæjar fimmtudaginn 1. september kl. 17.00. Á sýningunni verða munir, bækur og blöð er tengjast ofurhetjuheiminum.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 11:30. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 23. ágúst 2022.