54. fundur

17.05.2024 08:30

54. fundur menningar- og þjónusturáðs var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 17. maí 2024, kl. 08:30

Viðstaddir: Trausti Arngrímsson formaður, Birgitta Rún Birgisdóttir, Eva Stefánsdóttir, Elfa Hrund Guttormsdóttir og Sverrir Bergmann Magnússon.

Að auki sátu fundinn Guðlaug María Lewis menningarfulltrúi og Íris Eysteinsdóttir ritari.

1. Hljómahöll - styrkir til viðburðarhalds (2023120295)

Tómas Viktor Young framkvæmdastjóri Hljómahallar mætti á fundinn og fór yfir þau verkefni sem sóttu um styrk til viðburðarhalds í Hljómahöll en um nýtt verkefni er að ræða þar sem styrkir eru ætlaðir upprennandi listafólki og hópum til að auðga menningarlíf Reykjanesbæjar. Alls hljóta átta verkefni styrk.

Menningar- og þjónusturáð fagnar þessu nýja verkefni.

2. Reykjanesbær 30 ára - dagskrá afmælisviku (2024010135)

Erindi frestað.

3. 17. júní 2024 (2024030441)

Drög að dagskrá 17. júní lögð fram. Þjóðhátíðardegi Íslendinga verður fagnað í Reykjanesbæ með hátíðardagskrá og skemmtidagskrá sem fram fer í skrúðgarðinum í Keflavík. Í ár er því einnig fagnað að Reykjanesbær á 30 ára afmæli og að 80 ár eru frá stofnun lýðveldisins Íslands og hefur forsætisráðuneytið undirbúið sérstaka hátíðardagskrá af því tilefni með fjölda viðburða um allt land. Menningar- og þjónusturáð hvetur íbúa til að taka virkan þátt í hátíðarhöldunum.

4. 80 ára afmæli íslenska lýðveldisins (2024030022)

Íslenska lýðveldið var stofnað á Þingvöllum þann 17. júní 1944 og fagnar því 80 ára afmæli á árinu. Af því tilefni skipaði forsætisráðherra nefnd sem unnið hefur að undirbúningi viðburða til að halda upp á tímamótin. Sérstök hátíðardagskrá hefur verið sett upp með fjölda viðburða sem finna má á vef Stjórnarráðs Íslands. Meðal þess sem er á dagskrá er útgáfa bókar með þjóðhátíðarljóðum og greinum um fjallkonuna sem gefin verður landsmönnum í júní. Bókinni verður dreift um landið og munu íbúar Reykjanesbæjar geta nálgast hana í Bókasafni Reykjanesbæjar og í Sundmiðstöðinni við Sunnubraut. Sérstök áhersla verður á kórastarf á Íslandi og verður nýtt kórlag sem samið var við ljóð Þórarins Eldjárns, Ávarp fjallkonunnar 2015, flutt á 17. júní af kórafólki úr kórum bæjarins. Auk þess býður forsætisráðuneytið upp á lýðveldisafmælisköku á þjóðhátíðardaginn.

5. Sjómannadagurinn í Reykjanesbæ 2024 (2024050087)

Sjómannamessa verður haldin á vegum Njarðvíkursóknar á sjómannadaginn 2. júní kl. 11:00 í Bíósal Duus safnahúsa. Félagar úr kór Njarðvíkurkirkju leiða söng við undirspil og stjórn Rafns Hlíðkvists Björgvinssonar organista. Séra Brynja Vigdís Þorsteinsdóttir þjónar. Við lok stundar verður gengið að minnismerki sjómanna á Bakkalág við Hafnargötu og þar lagður blómakrans frá Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur og nágrennis og Vísi, félagi skipstjórnarmanna á Suðurnesjum. Kaffi og nýsteiktar kleinur í boði Duus safnahúsa og Njarðvíkursóknar og að athöfn lokinni gefst gestum kostur á að skoða bátalíkön Gríms Karlssonar í Bryggjuhúsi. Allir sjómenn og fjölskyldur þeirra eru boðin sérstaklega velkomin við messuna.

6. Karlakór Keflavíkur (2024050086)

Menningar- og þjónusturáð óskar Karlakór Keflavíkur til hamingju með vel heppnaða vortónleika sem haldnir voru þann 6. og 8. maí í Ytri-Njarðvíkurkirkju.

7. Kvennakór Suðurnesja (2024050084)

Menningar- og þjónusturáð óskar Kvennakór Suðurnesja til hamingju með vel heppnaða vortónleika sem haldnir voru þann 29. apríl og 1. maí í Bíósal Duus safnahúsa.

8. Sönghópurinn Víkingar (2024050085)

Menningar- og þjónusturáð óskar söngsveitinni Víkingum til hamingju með vel heppnaða vortónleika sem haldnir voru þann 30. apríl í Bíósal Duus safnahúsa.

9. Vox Felix (2024050213)

Menningar- og þjónusturáð óskar sönghópnum Vox Felix til hamingju með vel heppnaða Suðurnesjatónleika sem haldnir voru þann 8. maí í Hljómahöll í tilefni 30 ára afmælis Reykjanesbæjar.

10. BAUN barna- og ungmennahátíð (2024020299)

BAUN, barna- og ungmennahátíð í Reykjanesbæ fór fram dagana 2. – 12. maí sl. Um það bil 60 dagskrárliði var að finna á hátíðinni og var þátttaka í allri dagskrá ókeypis. Markmiðin með hátíðinni eru m.a. þau að auka lífsgæði og vellíðan barna og íbúa Reykjanesbæjar og jafnframt að skapa vettvang fyrir börn og fjölskyldur til virkrar þátttöku í samfélaginu. Þátttaka í allri dagskrá hátíðarinnar var með eindæmum góð og sem dæmi má nefna að um 5.300 manns heimsóttu Listahátíð barna og ungmenna og sóttu smiðjur í Duus safnahúsum þá 11 daga sem hátíðin stóð yfir. Nú er í loftinu stutt könnun þar sem fólk getur komið á framfæri skoðunum sínum á hátíðinni. Menningar- og þjónusturáð þakkar öllum þeim fjölmörgu sem lögðu sitt af mörkum til hátíðarinnar og leggur áherslu á að hátíðinni verði tryggt nægt fjármagn í næstu fjárhagsáætlun.

11. Duus safnahús (2024050216)

Opnunartíma í Duus safnahúsum hefur verið breytt á þann veg að framvegis verður lokað á mánudögum en opið aðra daga frá kl. 12 til 17 eins og áður. Breytingin er liður í því að geta boðið upp á lengri opnunartíma yfir sumarmánuðina og verður opið frá kl. 10 á morgnana í júní, júlí og ágúst. Breytingin hefur auk þess í för með sér að aðgengi skólahópa að húsunum eykst en næsta vetur geta þeir komið í hús frá kl. 08:30 á morgnana.

Fulltrúar stofnana í Duus safnahúsum leggja til breytingu á ensku heiti Duus safnahúsa úr Duus Museum í Duus Museum Hub. Ástæðan er sú að fyrrnefnda heitið hefur valdið misskilningi hjá erlendum gestum sem telja að um sjálfstætt safn sé að ræða en ekki sýningarhús fyrir söfn bæjarins. Nýja heitið gefur til kynna að þar sé miðstöð safna í Reykjanesbæ. Menningar- og þjónusturáð styður þessa breytingu á ensku heiti hússins.

12. Aðalfundur Landskerfis bókasafna hf. 7. maí 2024 (2024040442)

Fundargerð aðalfundar Landskerfis bókasafna frá 7. maí sl. lögð fram til kynningar.

Fylgigögn:

Fundargerð aðalfundar Landskerfis bókasafna 7. maí 2024

13. Atvinnustefna Reykjanesbæjar – drög til umsagnar (2023020501)

Atvinnu- og hafnarráð óskar eftir umsögnum um drög að atvinnustefnu Reykjanesbæjar 2024-2034.

Menningar- og þjónusturáð felur Trausta Arngrímssyni formanni að koma athugasemdum ráðsins til atvinnu- og hafnaráðs.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10.10. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 21. maí 2024.