60. fundur

16.12.2024 11:00

60. fundur menningar- og þjónusturáðs Reykjanesbæjar var haldinn á Hótel Keflavik þann 16. desember 2024, kl. 11:00

Viðstaddir: Trausti Arngrímsson formaður, Birgitta Rún Birgisdóttir, Gunnar Jón Ólafsson, Jóhanna Björk Sigurbjörnsdóttir og Sverrir Bergmann Magnússon.

Að auki sátu fundinn Halldóra Guðrún Jónsdóttir sviðsstjóri menningar- og þjónustusviðs, Guðlaug María Lewis menningarfulltrúi og Íris Eysteinsdóttir ritari.

Eva Stefánsdóttir boðaði forföll og sat Gunnar Jón Ólafsson fundinn í hennar stað.

Elfa Hrund Guttormsdóttir boðaði forföll og sat Jóhanna Björk Sigurbjörnsdóttir fundinn í hennar stað.

1. Mælaborð menningar- og þjónustusviðs 2024 (2024090668)

Halldóra Guðrún Jónsdóttir sviðsstjóri menningar- og þjónustusviðs fór yfir mælaborð sviðsins fyrstu 9 mánuði ársins.

2. Uppfærsla á hönnunarstaðli Reykjanesbæjar (2024020301)

Reykjanesbær hefur unnið með auglýsingastofunni Hvíta húsinu að uppfærslu á markaðsefni og hönnunarstaðli sveitarfélagsins. Vinnan er á lokametrunum og var lögð fram fyrir menningar- og þjónusturáð til kynningar og umræðu.

3. Menningarverðlaun Reykjanesbæjar 2024 (2024090667)

Súlan, menningarverðlaun Reykjanesbæjar, er veitt þeim sem hafa lagt sitt af mörkum til að auðga mannlíf og menningu samfélagsins með fjölbreyttum hætti. Í ár var hún veitt í tuttugasta og áttunda sinn og hlutu hana Steinn Erlingsson söngvari fyrir framlag sitt til sönglífs á Suðurnesjum og DansKompaní, listdansskóli Suðurnesja, fyrir framlag sitt til danslistar á Suðurnesjum og einstakan árangur á innlendum og alþjóðlegum vettvangi. Verðlaunagripurinn er silfursúla eftir listakonuna Elísabetu Ásberg og er hún tilvísun í Súluna sem finna má í merki Reykjanesbæjar.

Menningar- og þjónusturáð óskar verðlaunahöfum innilega til hamingju með viðurkenninguna.

4. Jólahús og jólafyrirtæki Reykjanesbæjar (2024120167)

Menningar- og þjónusturáð fékk það skemmtilega verkefni að útnefna jólahús og jólafyrirtæki Reykjanesbæjar árið 2024 úr fjölmörgum tilnefningum sem bárust frá íbúum í laufléttum jólaleik á aðventunni. Ráðið vill hrósa íbúum fyrir augljósan metnað þegar kemur að jólaskreytingum en skreytingarnar setja svo sannarlega svip sinn á bæinn og gleðja unga sem aldna í mesta skammdeginu. Ráðið færir einnig þakkir öllum þeim sem gáfu sér tíma til að senda inn tilnefningar að skemmtilega skreyttum húsum. Ráðið er sammála um að erfitt hafi reynst að velja aðeins eitt hús en að lokum var það ákveðið að Gónhóll 11 hljóti nafnbótina jólahús Reykjanesbæjar árið 2023 og Bílakjarninn jólafyrirtæki Reykjanesbæjar 2024. Eigendur jólahússins og -fyrirtækisins hljóta verðlaun frá Húsasmiðjunni í Reykjanesbæ sem afhent verða í Aðventugarðinum á Þorláksmessu.

Menningar- og þjónusturáð óskar vinningshöfum til hamingju um leið og það færir Húsasmiðjunni þakkir fyrir sitt framlag við að lýsa upp bæinn á aðventunni.

5. Þrettándinn 2025 (2024120168)

Jólin verða kvödd mánudaginn 6. janúar með árlegri þrettándaskemmtun. Dagskrá, með fyrirvara um breytingar, hefst kl. 18:00 með blysför frá Myllubakkaskóla þar sem gengið verður í fylgd álfakóngs, drottningar og hirðar þeirra að hátíðarsvæði við Hafnargötu 12. Þar tekur Grýla á móti mannskapnum, álfar hefja upp raust sína og syngja þrettándasöngva og alls kyns kynjaverur verða á sveimi á svæðinu. Þrettándabrennan verður á sínum stað við Ægisgötu og gestum verður boðið upp á heitt kakó til að ylja sér. Í lok dagskrár verða jólin kvödd að hætti Björgunarsveitarinnar Suðurnes með glæsilegri flugeldasýningu. Karlakór Keflavíkur, Kvennakór Suðurnesja, Leikfélag Keflavíkur, Skátafélagið Heiðabúar, Björgunarsveitin Suðurnes og lúðrasveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar taka þátt í dagskránni.

6. Jólakveðja 2024 (2024120170)

Menningar- og þjónusturáð færir þakkir til allra menningarhópa og styrkhafa úr menningarsjóði Reykjanesbæjar fyrir þeirra framlag til eflingar menningar og mannlífs í Reykjanesbæ á árinu sem er að líða. Einnig þakkar ráðið öllum þeim sem lagt hafa af mörkum til menningarlífs sveitarfélagsins á árinu svo sem á hátíðum og viðburðum bæjarins og einnig nú í aðdraganda jóla með fjölbreyttum jólatónleikum og sýningum. Ráðið horfir björtum augum til áframhaldandi samstarfs á komandi ári og minnir á að opnað verður fyrir styrkumsóknir í menningarsjóð í janúar.

Menningar- og þjónusturáð felur Guðlaugu M. Lewis menningarfulltrúa að undirbúa það verkefni.

7. Listasafn Reykjanesbæjar - gjöf Vilhjálms Bergssonar (2024030443)

Halldóra Guðrún Jónsdóttir sviðsstjóri menningar- og þjónustusviðs sagði frá gjöf Vilhjálms Bergssonar til Listasafns Reykjanesbæjar.

Vilhjálmur Bergsson, listmálari frá Grindavík, hefur ákveðið eftir samráð við fjölskyldu sína að ánafna Listasafni Reykjanesbæjar flestum þeim myndum sem eru nú þegar í varðveislu safnsins í Ramma.
Áður en afhending fer fram mun Baldur B. Vilhjálmsson, velja upp að þrjátíu myndverk samkvæmt samkomulagi við safnstjóra Listasafns Reykjanesbæjar.
Vilhjálmur Bergsson er fæddur 2. október 1937. Foreldrar hans voru Jóhanna Vilhjálmsdóttir og Bergur Bjarnason í Grindavík og þar er hann uppalinn. Vilhjálmur var mjög ungur þegar hann byrjaði að mála, jafnframt gagnfræðaskólanámi stundaði hann nám í Handíða- og myndlistaskólanum í Reykjavík frá 1951-1953. Vilhjálmur lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík vorið 1958, en um haustið fór hann til Kaupmannahafnar þar sem hann dvaldist næstu tvö árin við listnám og síðan stundaði hann nám í París í önnur tvö ár.
Vilhjálmur á að baki tugi sýninga á löngum ferli og er list hans einstök í íslensku samhengi. Um myndlist bróður síns, skrifaði Guðbergur Bergsson:
Málverk Vilhjálms læðast með ísmeygilegum hætti inn í þögn hugans, dvelja þar inni í rökkrinu og renna eða hníga svo líkt og þungur dropi inn í landslag þinnar eigin sálar. Vilhjálmur notar svipaða aðferð og Caravaggio og síðan aðrir dulhyggjumálarar, eins og La Tour og hægt væri að kalla birtu- og skuggaaðferðina.
Listasafn Reykjanesbæjar mun setja upp sýningu með verkum Vilhjálms Bergssonar næsta haust við opnun Ljósanætur.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 12.53. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 7. janúar 2025.