340. fundur

12.02.2021 08:15

340. fundur fræðsluráðs Reykjanesbæjar, fjarfundur haldinn þann 12. febrúar 2021 kl. 08:15

Viðstaddir: Valgerður Björk Pálsdóttir formaður, Bjarni Páll Tryggvason, Jóhanna Björk Sigurbjörnsdóttir, Andri Örn Víðisson, Íris Ósk Kristjánsdóttir.
Bryndís Jóna Magnúsdóttir fulltrúi skólastjóra grunnskóla, Silja Konráðsdóttir fulltrúi grunnskólakennara, Anita Engley Guðbergsdóttir fulltrúi FFGÍR, Hanna Málmfríður Harðardóttir fulltrúi leikskólastjóra, Anna Lydía Helgadóttir fulltrúi leikskólakennara, Hanna María Kristjánsdóttir fulltrúi foreldra leikskólabarna.
Helgi Arnarson sviðsstjóri fræðslusviðs, Haraldur Axel Einarsson grunnskólafulltrúi, Ingibjörg Bryndís Hilmarsdóttir leikskólafulltrúi og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.

1. Starfsemi Tónlistarskóla Reykjanesbæjar (2021020197)

Haraldur Árni Haraldsson, skólastjóri Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, mætti á fundinn og kynnti starfsemi skólans á yfirstandandi skólaári.

Nemendafjöldi í vetur er 414, í forskóla er samtals 441 nemandi, alls 855. Á biðlista eftir tónlistarnámi eru 170. Kennarar eru 41 og föst stöðugildi kennara og annarra starfsmanna eru 33,75. Snemma á vorönn þurfti að fara í fjarkennslu vegna COVID-19 og þrátt fyrir ýmsar áskoranir tók ótrúlega stuttan tíma fyrir kennara og nemendur að ná tökum á því. Haldnir voru streymistónleikar og einnig voru skólaslit í streymi. Hætta varð við nokkra viðburði bæði sl. vor og nú í vetur. Landsmóti íslenskra skólalúðrasveita var frestað en til stóð að Tónlistarskóli Reykjanesbæjar héldi mótið sl. vor. Í haust var hægt að kenna hljóðfæra- og söngtíma í staðkennslu og einnig gat tónlistarkennsla farið fram í grunnskólunum en tónfræðikennsla var í fjarkennslu. Tónleikar voru í streymi og einnig teknir upp þannig að foreldrar fengu upptökur af sínum börnum. Það hversu góða aðstöðu skólinn býr við, góður mannauður og frábært samstarf við starfsmenn Hljómahallar hefur verið mikils virði í þessu starfi.

Fræðsluráð þakkar fyrir góða kynningu.

2. Samræmd könnunarpróf – aðgerðir Reykjanesbæjar (2020120052)

Helgi Arnarson sviðsstjóri fræðslusviðs fór yfir áherslur og verkefni sem miða að því að ná fram bættum námsárangri allra nemenda í grunnskólum Reykjanesbæjar.

Stöðugt er unnið að því að bæta námsárangur allra nemenda í grunnskólum Reykjanesbæjar ásamt því að stuðla að góðri líðan þeirra. Fimm umfangsmikil umbótaverkefni eru nú hafin eða í undirbúningi sem hafa þann tilgang að bæta námsárangur nemenda.

Fylgigögn:

Bættur námsárangur - yfirlit yfir áherslur og verkefni

3. Menningarstefna Reykjanesbæjar – beiðni um umsögn (2019051729)

Menningar- og atvinnuráð óskar eftir umsögn um drög að menningarstefnu Reykjanesbæjar 2020-2025.

Fræðsluráð þakkar fyrir kynningu á menningarstefnu Reykjanesbæjar 2020-2025. Ráðið tekur undir mikilvægi þess að menningarstofnanir bæjarins leggi áherslu á safnfræðslu. Fræðsluráð hvetur stjórnendur bæði menningarstofnana sem og grunn- og leikskóla til að styrkja tengingar barna og ungmenna eins og kostur er við sögu og menningu Reykjanesbæjar.

4. Umhverfis- og loftslagsstefna Reykjanesbæjar - beiðni um umsögn (2020021391)

Umhverfis- og skipulagsráð og framtíðarnefnd óska eftir umsögn um drög að umhverfis- og loftslagsstefnu Reykjanesbæjar.

Fræðsluráð fagnar drögum að umhverfis- og loftslagsstefnu Reykjanesbæjar. Ráðið vill benda umhverfis- og skipulagsráði og framtíðarnefnd á tækifæri til að tengja betur menntaþáttinn í stefnunni við starfsemi grunn- og leikskóla bæjarins. Til að mynda hafa margir skólar unnið að umhverfisverkefnum líkt og grænfánanum undanfarin ár. Með frekari innleiðingu verkefna í líkingu við t.d. grænfánann í tengslum við útikennslusvæði næst fram markvissari stefnuáhersla og mælanlegri undirmarkmið.

Eitt af stefnumarkmiðum umhverfis- og loftslagsstefnu Reykjanesbæjar er að minnka losun gróðurhúsalofttegunda og vinna í átt að kolefnishlutleysi. Í kaflanum Hringrásarhagkerfið - græn innkaup, ábyrg neysla og úrgangur er ekkert snert á matarinnkaupum sveitarfélagsins. Stór hluti losunar gróðurhúsalofttegunda vegna matvælaframleiðslu er vegna kjötframleiðslu, matarsóunar og flutnings á mat. Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur gefið það út að búfénaður í landbúnaði, sem samanstendur af nautgriparækt, svínarækt, sauðfjárrækt og kjúklingarækt, beri ábyrgð á 18 prósentum af allri losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum eða meira en samanlagðri losun allra vélknúinna ökutækja á jörðinni. Því er mælt með að Reykjanesbær setji sér skýr markmið varðandi aukið framboð plöntufæðis í stofnunum sveitarfélagsins. Einnig væri gott, þegar grunnmat á losun gróðurhúsalofttegunda í starfsemi bæjarins verður framkvæmt, að kolefnisfótspor máltíða sem boðið er upp á í stofnunum bæjarins sé einnig haft með í reikningsdæminu.

5. Umsókn um leyfi til daggæslu barna í heimahúsum (2021010547)

Ingibjörg Bryndís Hilmarsdóttir leikskólafulltrúi lagði fram umsókn um starfsleyfi fyrir dagforeldri frá Haraldi Frey Emilssyni. Öll tilskilin gögn eru fyrir hendi.

Starfsleyfið er veitt.

6. Mælaborð fræðslusviðs 2020 (2020040007)

Helgi Arnarson sviðsstjóri fræðslusviðs kynnti mælaborð fræðslusviðs fyrir árið 2020.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10:30. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 16. febrúar 2021.