341. fundur

12.03.2021 08:15

341. fundur fræðsluráðs Reykjanesbæjar, fjarfundur haldinn þann 12. mars 2021 kl. 08:15

Viðstaddir: Valgerður Björk Pálsdóttir formaður, Bjarni Páll Tryggvason, Jóhanna Björk Sigurbjörnsdóttir, Andri Örn Víðisson, Íris Ósk Kristjánsdóttir.

Bryndís Jóna Magnúsdóttir fulltrúi skólastjóra grunnskóla, Silja Konráðsdóttir fulltrúi grunnskólakennara, Anita Engley Guðbergsdóttir fulltrúi FFGÍR, Hanna Málmfríður Harðardóttir fulltrúi leikskólastjóra, Anna Lydía Helgadóttir fulltrúi leikskólakennara, Hanna María Kristjánsdóttir fulltrúi foreldra leikskólabarna.

Helgi Arnarson sviðsstjóri fræðslusviðs, Haraldur Axel Einarsson grunnskólafulltrúi, Ingibjörg Bryndís Hilmarsdóttir leikskólafulltrúi og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.

1. Staða innritunar í leikskóla (2020100260)

Ingibjörg Bryndís Hilmarsdóttir leikskólafulltrúi gerði grein fyrir stöðu mála varðandi innritun barna sem fædd eru árið 2019 í leikskóla Reykjanesbæjar vor og sumar 2021.

Úthlutun leikskólaplássa hefur gengið vel í Keflavíkurhverfi og eru enn nokkur pláss laus. Í Innri-Njarðvík komast færri að en vilja, þó fólk búi í hverfinu. Mikil fjölgun í hverfinu kallar á að skoða þarf stöðuna með tilliti til næstu tveggja ára.

2. Opnun frístundaheimila frá 9. ágúst 2021 (2021030199)

Haraldur Axel Einarsson grunnskólafulltrúi skýrði frá því að ákveðið hefur verið að opna frístundaheimili grunnskólanna fyrir börn fædd 2015 frá 9. ágúst til skólasetningar. Um leið verður ekki í boði fyrir þann hóp að koma aftur inn á leikskólann sinn eftir að sumarleyfi lýkur. Markmiðin með þessari opnun eru meðal annars að brúa bilið milli leik- og grunnskólagöngu nemenda, að aðlögun nýrra leikskólabarna geti farið fram fyrr en verið hefur og að aðlaga tilvonandi fyrstu bekkinga í grunnskólann sinn.

Farið var af stað með tilraunaverkefni í þremur skólum haustið 2020 og var almenn ánægja foreldra með framkvæmdina. Að fenginni reynslu þessa tilraunaverkefnis var ákveðið að bjóða upp á þessa þjónustu í öllum grunnskólum sveitarfélagsins og koma þannig til móts við þarfir fjölskyldna en einnig til að jafna stöðu íbúa sveitarfélagsins meðal annars með tilliti til baklands sem er hluti af stefnu Reykjanesbæjar, Í krafti fjölbreytileikans og verkefnisins Allir með!

Fylgigögn:

Auglýsing um opnun frístundaheimila í grunnskólum Reykjanesbæjar frá 9. ágúst 2021

3. Framtíðarskipulag velferðarmála – stigskipt þjónusta til farsældar fyrir börn (2020120051)

Helgi Arnarson sviðsstjóri fræðslusviðs fór yfir kynningu á framtíðarskipulagi velferðarmála hjá Reykjanesbæ þar sem áhersla er lögð á stigskipta þjónustu til farsældar fyrir börn, snemmtæka íhlutun og samstarf þeirra aðila sem vinna að málefnum barna og fjölskyldna.

4. Þjónustu- og gæðastefna Reykjanesbæjar - drög til umsagnar (2021020193)

Drög að þjónustu- og gæðastefnu Reykjanesbæjar lögð fram. Bæjarráð óskar eftir umsögn um stefnuna.

Fræðsluráð fagnar stefnunni og telur jákvætt að hafa skýra stefnu og leiðarvísi varðandi þjónustu við íbúa Reykjanesbæjar.

5. Fundargerðir neyðarstjórnar (2021010061)

Fundargerðir lagðar fram.

Með því að smella hér má skoða fundargerðir neyðarstjórnar á vef Reykjanesbæjar

6. Viðbragðsáætlanir skóla og stuðningur við börn (2021030170)

Helgi Arnarson sviðsstjóri fræðslusviðs gerði grein fyrir vinnu við viðbragðsáætlanir skóla Reykjanesbæjar, m.a. vegna náttúruhamfara, sem verið er að leggja lokahönd á. Einnig er búið að vinna viðbragðsáætlanir fyrir tónlistarskóla, íþróttamannvirki og félagsmiðstöð. Þegar áætlanir verða tilbúnar verða settar inn upplýsingar á vef Reykjanesbæjar og á vefi skólanna.

Einnig hafa sálfræðingar á fræðslusviði útbúið hagnýtt efni fyrir foreldra undir yfirskriftinni „Að takast á við óvissutíma“. Tilgangur efnisins er að veita foreldrum hjálpleg ráð sem geta nýst þeim til að styðja við börnin sín á óvissutímum. Efnið er þegar aðgengilegt á íslensku á vef Reykjanesbæjar en hefur nú verið þýtt á pólsku auk þess sem ensk þýðing er í vinnslu og verður hvort tveggja aðgengilegt á vefnum.

Með því að smella hér má skoða frétt um stuðning við börn á óvissutímum á vef Reykjanesbæjar

Fylgigögn:

Að takast á við óvissutíma - hagnýtt efni fyrir foreldra

7. Allir með! (2020010276)

Hilma H. Sigurðardóttir verkefnastjóri fjölmenningarmála mætti á fundinn og kynnti verkefnið og stöðu þess.

Allir með! hefur það meginmarkmið að stuðla að jöfnum tækifærum allra til félagslegrar þátttöku í skipulögðu starfi fyrir börn og barnafjölskyldur með sérstakri áherslu á að ná til barna af erlendum uppruna.

Vakin er athygli á að hægt er að skrifa undir Allir með! sáttmálann á vef Reykjanesbæjar en hann stuðlar að ábyrgð allra samfélagsþegna gagnvart samfélagi þar sem jákvæð samskipti og vellíðan íbúa eru í fyrirrúmi. Einnig er vakin athygli á kynningarmyndböndum sem sýna allt íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarf sem er í boði fyrir börn sem búa í sveitarfélaginu.

Með því að smella hér má skoða frétt um Allir með! sáttmálann og kynningarmyndbönd á vef Reykjanesbæjar

Fræðsluráð lýsir yfir ánægju með verkefnið og þakkar fyrir góða kynningu.

8. Barnvænt sveitarfélag (2020021548)

Hjörtur Magni Sigurðsson, verkefnastjóri barnvæns sveitarfélags í Reykjanesbæ, mætti á fundinn og kynnti verkefnið og stöðu þess.

Unnið er að innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og barnvæns sveitarfélags í Reykjanesbæ. Í því felst að sveitarfélagið gerir barnasáttmálann að rauðum þræði í allri starfsemi sinni og notar hann sem sérstakt gæðastjórnunarverkfæri á öllum sviðum.

Fræðsluráð fagnar því að unnið sé að innleiðingu barnasáttmálans og að stefnt sé að því að Reykjanesbær verði barnvænt sveitarfélag. Ráðið þakkar fyrir góða kynningu.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10:15. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 16. mars 2021.