342. fundur fræðsluráðs Reykjanesbæjar, fjarfundur 16. apríl 2021 kl. 08:15
Viðstaddir: Valgerður Björk Pálsdóttir formaður, Bjarni Páll Tryggvason, Jóhanna Björk Sigurbjörnsdóttir, Andri Örn Víðisson, Íris Ósk Kristjánsdóttir.
Bryndís Jóna Magnúsdóttir fulltrúi skólastjóra grunnskóla, Silja Konráðsdóttir fulltrúi grunnskólakennara, Anita Engley Guðbergsdóttir fulltrúi FFGÍR, Anna Lydía Helgadóttir fulltrúi leikskólakennara.
Helgi Arnarson sviðsstjóri fræðslusviðs, Haraldur Axel Einarsson grunnskólafulltrúi, Ingibjörg Bryndís Hilmarsdóttir leikskólafulltrúi og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.
1. Leikskóli í Hlíðahverfi (2021040124)
Ingibjörg Bryndís Hilmarsdóttir leikskólafulltrúi gerði grein fyrir málinu.
Fræðsluráð þakkar fyrir kynninguna. Ráðið tekur undir mikilvægi þess að hafist verði handa við að byggja nýjan leikskóla í Hlíðahverfi sem fyrst samhliða áframhaldandi uppbyggingu leikskólaeiningar við Stapaskóla. Í ljósi spár um fjölgun einstaklinga á leikskólaaldri óskar ráðið eftir því að fræðsluskrifstofa vinni að heildstæðri áætlun um uppbyggingu leikskóla í Reykjanesbæ svo hægt sé að mæta þeim kröfum að börn allt að 12 mánaða verði tekin inn í leikskóla í Reykjanesbæ.
2. Starfsáætlun fræðslusviðs 2021 (2021020397)
Helgi Arnarson sviðsstjóri fræðslusviðs fór yfir helstu áherslur í starfsáætlun fræðsluskrifstofu fyrir árið 2021.
Fylgigögn:
Starfsáætlun fræðsluskrifstofu Reykjanesbæjar 2021
3. Skóladagatöl grunnskóla Reykjanesbæjar 2021-2022 (2021040125)
Haraldur Axel Einarsson grunnskólafulltrúi lagði fram skóladagatöl allra grunnskóla.
Fræðsluráð staðfestir skóladagatölin.
4. Menntastefna Reykjanesbæjar (2020010070)
Halldóra G. Jónsdóttir aðstoðarmaður bæjarstjóra mætti á fundinn og kynnti stöðu mála varðandi endurskoðun menntastefnu Reykjanesbæjar.
Núgildandi menntastefna var samþykkt árið 2016 og hefur nýst sem leiðarljós fyrir skólasamfélagið í Reykjanesbæ undanfarin ár. Í lok árs 2019 setti Reykjanesbær fram nýja heildarstefnu fyrir bæinn sem er fléttuð við innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Í ljósi örra breytinga á samfélaginu og nýrrar grunnstefnu Reykjanesbæjar er tímabært að endurskoða núgildandi menntastefnu og meta hvort gera þurfi breytingar til að aðlagast nýjum veruleika og áherslum.
Fylgigögn:
Vinna við nýja menntastefnu Reykjanesbæjar - kynning
5. Nýsköpunar- og þróunarsjóður fræðslusviðs (2021040126)
Haraldur Axel Einarsson grunnskólafulltrúi gerði grein fyrir markmiðum og áherslum nýsköpunar- og þróunarsjóðs fræðslusviðs.
Auglýst hefur verið eftir umsóknum vegna úthlutunar úr sjóðnum. Umsóknarfrestur rennur út kl. 16:00 í dag og hafa nú þegar borist 17 umsóknir. Markmið með sjóðnum er að stuðla að nýsköpun, framþróun og öflugu innra starfi leik- og grunnskóla í Reykjanesbæ.
Fylgigögn:
Auglýsing vegna styrkveitinga úr nýsköpunar- og þróunarsjóði fræðslusviðs
6. Úthlutun úr Sprotasjóði (2021040127)
Anna Hulda Einarsdóttir kennsluráðgjafi mætti á fundinn og kynnti verkefnið Varúð skólabörn!!! en verkefninu var úthlutað styrk að upphæð 3 milljónum króna úr Sprotasjóði fyrir skólaárið 2021-2022. Verkefnið snýr að því að búa til jákvæða lestrarupplifun fyrir grunnskólabörn. Áhersla verður á virka þátttöku nemenda og þá sérstaklega drengja. Markmiðið er að hlusta á sjónarmið drengja, heyra hvaða leiðir þeir vilja fara varðandi lestur, læra af þeim ásamt því að auka áhuga þeirra með fjölbreyttri nálgun og merkingarbærum verkefnum. Verkefnið er unnið í samstarfi fræðslusviðs Reykjanesbæjar, Ævars Þórs Benediktssonar rithöfundar, grunnskólanna í Reykjanesbæ og Suðurnesjabæ, Bókasafns Reykjanesbæjar og Fjörheima.
Fylgigögn:
Með því að smella hér má skoða frétt um úthlutanir úr Sprotasjóði 2021-2022 á vef sjóðsins
7. Fundargerðir neyðarstjórnar (2021010061)
Fundargerðir lagðar fram.
Fylgigögn:
Með því að smella hér má skoða fundargerðir neyðarstjórnar á vef Reykjanesbæjar
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10:10. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 20. apríl 2021.