345. fundur

03.09.2021 08:15

345. fundur fræðsluráðs Reykjanesbæjar, fjarfundur haldinn þann 3. september 2021 kl. 08:15

Viðstaddir: Valgerður Björk Pálsdóttir formaður, Bjarni Páll Tryggvason, Jóhanna Björk Sigurbjörnsdóttir, Andri Örn Víðisson, Íris Ósk Kristjánsdóttir.

Friðþjófur Helgi Karlsson fulltrúi skólastjóra grunnskóla, Hanna Lísa Einarsdóttir fulltrúi grunnskólakennara, Anita Engley Guðbergsdóttir fulltrúi FFGÍR, María Petrína Berg fulltrúi leikskólastjóra, Áslaug Unadóttir fulltrúi leikskólakennara, Thelma Hrund Tryggvadóttir fulltrúi foreldra leikskólabarna.

Helgi Arnarson sviðsstjóri fræðslusviðs, Haraldur Axel Einarsson grunnskólafulltrúi og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.

1. Menntastefna Reykjanesbæjar 2021-2030 (2020010070)

Vinna við endurskoðun menntastefnu Reykjanesbæjar hófst á vormánuðum 2020 með stofnun stýrihóps sem skipaður var fulltrúum skólastjórnenda, leikskólastjóra, leikskólakennara, grunnskólakennara, nemenda, Fjölbrautaskóla Suðurnesja og fræðslusviðs ásamt íþrótta- og tómstundafulltrúa, fræðslustjóra, formanni fræðsluráðs og ritstjóra. Fræðsluráð þakkar stýrihópnum fyrir vel unna og metnaðarfulla menntastefnu.

Drög að menntastefnu Reykjanesbæjar 2021-2030 voru lögð fram á fundi fræðsluráðs í júní sl. Að því loknu voru drögin send kjörnum nefndum og ráðum Reykjanesbæjar til umsagnar og þakkar fræðsluráð fyrir umsagnir sem bárust.

Stefnan hefur hlotið heitið „Með opnum hug og gleði í hjarta“. Hún tekur mið af grunnstefnu Reykjanesbæjar sem ber heitið „Í krafti fjölbreytileikans“ og stefnuáherslu hennar „Börnin mikilvægust“ ásamt Barnasáttmála og Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Menntastefna fyrir Ísland til 2030 er einnig höfð til hliðsjónar sem og gildandi aðalnámskrár leik-, grunn- og framhaldsskóla. Meginmarkmið menntastefnunnar er að skapa öllum börnum og ungmennum í Reykjanesbæ öruggt og hvetjandi umhverfi þannig að þeim líði vel, þau hafi tækifæri til að rækta hæfileika sína og blómstra með opnum hug og gleði í hjarta. Stefnan byggir á þremur leiðarljósum sem eiga að einkenna allt starf með börnum og ungmennum í sveitarfélaginu. Leiðarljósin eru „Börnin mikilvægust“, „Kraftur fjölbreytileikans“ og „Faglegt menntasamfélag“.

Fræðsluráð samþykkir að senda drög að menntastefnu Reykjanesbæjar 2021-2030 til afgreiðslu í bæjarstjórn.

2. Fjárhagsáætlun fræðslusviðs 2022-2025 – helstu áherslur (2021060488)

Helgi Arnarson sviðsstjóri fræðslusviðs kynnti helstu áherslur í vinnu við fjárhagsáætlun fræðslusviðs 2022-2025.

3. Þjónusta talmeinafræðinga (2021080667)

Kolfinna Njálsdóttir deildarstjóri skólaþjónustu mætti á fundinn.

Lagt fram erindi frá nemendum í meistaranámi í talmeinafræði varðandi þjónustu talmeinafræðinga í Reykjanesbæ.

Fræðsluráð þakkar fyrir erindið og tekur undir mikilvægi þess að þjónusta sem þessi sé eins og best verður á kosið. Fræðsluráð hvetur til þess að samningur Sjúkratrygginga Íslands við Félag talmeinafræðinga á Íslandi verði endurskoðaður með það fyrir augum að fella niður hamlandi ákvæði um tveggja ára starfsreynslu. Fræðsluráð felur fræðsluskrifstofu að svara erindinu.

4. Skólaslit – læsisverkefni (2021090010)

Kolfinna Njálsdóttir deildarstjóri skjólaþjónustu mætti á fundinn og kynnti læsisverkefnið Skólaslit, lestrarupplifun sem unnin er í samstarfi höfundarins Ævars Þórs Benediktssonar og grunnskóla Reykjanesbæjar, Suðurnesjabæjar og Voga, Fjörheima, Bókasafns Reykjanesbæjar, velferðarsviðs Reykjanesbæjar og Víkurfrétta. Verkefninu er ætlað að vekja athygli á lestri á nýjan, frumlegan, skapandi og skemmtilegan máta.

Vakin er athygli á vef verkefnisins, skolaslit.is.

Fræðsluráð þakkar fyrir góða kynningu og lýsir ánægju með verkefnið.

Fylgigögn:

Skólaslit - kynning á verkefni
Með því að smella hér má skoða vef verkefnisins Skólaslit

5. Fundargerðir neyðarstjórnar (2021010061)

Fundargerðir lagðar fram.

Fylgigögn:

Með því að smella hér má skoða fundargerðir neyðarstjórnar á vef Reykjanesbæjar


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10:00. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 7. september 2021.