347. fundur

04.11.2021 08:15

347. fundur fræðsluráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Skólavegi 1 þann 4. nóvember 2021 kl. 08:15

Viðstaddir: Valgerður Björk Pálsdóttir formaður, Bjarni Páll Tryggvason, Andri Örn Víðisson, Íris Ósk Kristjánsdóttir.
Friðþjófur Helgi Karlsson fulltrúi skólastjóra grunnskóla, Hanna Lísa Einarsdóttir fulltrúi grunnskólakennara, María Petrína Berg fulltrúi leikskólastjóra, Áslaug Unadóttir fulltrúi leikskólakennara, Thelma Hrund Tryggvadóttir fulltrúi foreldra leikskólabarna.
Helgi Arnarson sviðsstjóri fræðslusviðs, Haraldur Axel Einarsson grunnskólafulltrúi og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.

1. Starfsáætlanir grunnskóla 2021-2022 (2021110040)

Starfsáætlanir grunnskóla Reykjanesbæjar fyrir skólaárið 2021 – 2022 lagðar fram.

Fræðsluráð staðfestir starfsáætlanirnar. Þær verða aðgengilegar á heimasíðum skólanna.

2. Breyting á skóladagatali Akurskóla (2021110043)

Lögð fram tillaga að breytingum á skóladagatali Akurskóla fyrir skólaárið 2021-2022. Starfsdagar færast til vegna námskeiða starfsfólks þannig að starfsdagur 12. janúar færist til 10. janúar, starfsdagur 15. mars færist til 10. mars og starfsdagur 18. maí færist til 16. maí. Skólaráð og starfsfólk hefur samþykkt breytingarnar fyrir sitt leyti.

Fræðsluráð samþykkir breytingarnar.

Fylgigögn:

Breyting á starfsdögum á vorönn - erindi frá Akurskóla

3. Starfsmannahald í grunnskólum (2021110045)

Haraldur Axel Einarsson grunnskólafulltrúi fór yfir fjölda stöðugilda í grunnskólum Reykjanesbæjar skólaárið 2021-2022. Heildarstöðugildi í kennslu í öllum grunnskólum sveitarfélagsins eru 251.

4. Rafrænir endurmenntunardagar (2021110044)

Haraldur Axel Einarsson grunnskólafulltrúi kynnti niðurstöður könnunar um rafræna endurmenntunardaga fræðsluskrifstofu sem haldnir voru dagana 12.-25. ágúst sl.

5. Frístundaakstur – staðan (2020010077)

Hafþór B. Birgisson íþrótta- og tómstundafulltrúi mætti á fundinn og greindi frá stöðu verkefnis um samþættingu skólastarfs og íþrótta- og tómstundastarfs sem fór af stað í ágúst sl. Boðið er upp á akstur í íþróttir og tómstundir frá grunnskólum Reykjanesbæjar fyrir nemendur á frístundaheimilum. Verkefnið hefur farið vel af stað og mikil ánægja meðal notenda þjónustunnar.

6. Staðan í Myllubakkaskóla (2021050174)

Tryggvi Þór Bragason deildarstjóri eignaumsýslu mætti á fundinn og greindi frá stöðu mála varðandi húsnæðismál Myllubakkaskóla.

Fræðsluráð harmar þá stöðu sem komin er upp í Myllubakkaskóla. Ráðið leggur áherslu á að hagsmunir nemenda og starfsmanna verði í forgangi og að allra leiða verði leitað til þess að hefja sem fyrst notkun á þeim hlutum skólans sem nýtilegir eru.

Fræðsluráð telur að tryggja þurfi, samhliða tímabundinni uppskiptingu skólans, að nemendur sem nú þegar njóta samfellds skólastarfs t.d. með því að tónlistarkennsla fari fram á skólatíma eigi áfram kost á því. Eins þarf að taka sérstakt tillit til nemenda sem munu þurfa að fara um lengri veg en áður til að sækja skóla. Upp er að renna myrkasti tími ársins og tryggja þarf að jafn afdrifarík breyting eins og þessi komi ekki niður á öryggi nemenda á leið til og frá skóla.

Fræðsluráð leggur einnig áherslu á að sundrung nemenda víðsvegar um bæinn getur einungis verið tímabundið skammtímaúrræði. Leita þarf allra leiða til þess að sameina skólastarf aftur á einum stað t.d. með því að taka í notkun þá hluta húsnæðis sem hægt er að taka í notkun sem allra fyrst. Óskað er eftir því að tímasett aðgerðaáætlun, sem miði að því að lágmarka þann tíma sem börnum er gert að sækja sitt nám utan skólans eða nærumhverfi hans, liggi fyrir svo fljótt sem verða má.

7. Breyting á skóladagatali Myllubakkaskóla (2021110084)

Lögð fram tillaga að breytingu á skóladagatali Myllubakkaskóla fyrir skólaárið 2021-2022. Óskað er eftir fjölgun starfsdaga í skólanum en vegna fyrirhugaðra framkvæmda í húsnæði skólans þarf að flytja alla starfsemi hans á nýjar starfsstöðvar í bænum. Bætt verði við starfsdögum 15. og 16. nóvember nk. vegna flutninganna.

Fræðsluráð samþykkir breytinguna.

Fylgigögn:

Beiðni um fjölgun starfsdaga - erindi frá Myllubakkaskóla


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10:20. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 16. nóvember 2021.