357. fundur fræðsluráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 9. desember 2022 kl. 08:15
Viðstaddir: Sighvatur Jónsson varaformaður, Gígja Sigríður Guðjónsdóttir, Halldór Rósmundur Guðjónsson, Harpa Björg Sævarsdóttir og Sverrir Bergmann Magnússon.
Guðný Birna Guðmundsdóttir formaður boðaði forföll og sat Sverrir Bergmann Magnússon fundinn í hennar stað.
Að auki sátu fundinn Helga Hildur Snorradóttir fulltrúi skólastjóra grunnskóla, Skúli Sigurðsson fulltrúi grunnskólakennara, Anita Engley Guðbergsdóttir fulltrúi FFGÍR, María Petrína Berg fulltrúi leikskólastjóra, Áslaug Unadóttir fulltrúi leikskólakennara, Herdís Ósk Unnarsdóttir fulltrúi foreldra leikskólabarna, Helgi Arnarson sviðsstjóri fræðslusviðs, Haraldur Axel Einarsson grunnskólafulltrúi, Ingibjörg Bryndís Hilmarsdóttir leikskólafulltrúi og Íris Andrea Guðmundsdóttir ritari.
1. Móttaka barna með fjölbreyttan menningar- og tungumálabakgrunn í Háaleitisskóla (2022120110)
Friðþjófur Helgi Karlsson skólastjóri Háaleitisskóla mætti á fundinn og kynnti fyrirkomulag á móttöku barna með fjölbreyttan menningar- og tungumálabakgrunn í skólanum.
Fræðsluráð þakkar Friðþjófi fyrir áhugaverða kynningu á því hvernig tekist er á við krefjandi aðstæður í Háaleitisskóla þar sem fjölgun nemenda hefur verið mikil. Undanfarin tvö ár hefur nemendum fjölgað úr 292 í 400. Nýheimar voru settir á laggirnar sem sérstakt móttökuúrræði haustið 2021 að frumkvæði skólans og með traustum stuðningi fræðsluskrifstofu.
Friðþjófur nefndi að farið væri að þrengja að skólastarfinu vegna mikillar fjölgunar nemenda. Vísaði hann þar til beiðni sveitarfélagsins um stuðning frá mennta- og barnamálaráðuneytinu til uppbyggingar sérhæfðrar kennsluaðstöðu fyrir Nýheima.
Fræðsluráð styður það sem fram kom á 298. fundi barnaverndarnefndar Reykjanesbæjar þann 28. okt. sl. að stofnaður verði starfshópur sem hefur það að markmiði að styðja betur við börn og foreldra sem tala ekki íslensku sem móðurmál og geta ekki tjáð sig í skóla og samfélaginu.
2. Húsnæði Holtaskóla (2022120120)
Tryggvi Þór Bragason deildarstjóri eignaumsýslu og Gissur Hans Þórðarson frá OMR mættu á fundinn og kynntu, ásamt Helgu Hildi Snorradóttur skólastjóra Holtaskóla, stöðu mála varðandi rakaskemmdir í Holtaskóla.
Fræðsluráð þakkar Tryggva Þór, Gissuri og Helgu Hildi fyrir kynningu á ástandi vegna rakaskemmda í Holtaskóla. Unnið hefur verið hratt að lausn mála frá því að niðurstöður sýna leiddu í ljós myglu á nokkrum stöðum í skólanum. Fræðsluráð þakkar öllum starfsmönnum hjá Reykjanesbæ sem hafa komið að málinu og ítrekar það sem fram kom í máli Tryggva Þórs deildarstjóra eignaumsýslu að mjög mikilvægt er að bregðast hratt við ábendingum um hugsanlegar rakaskemmdir í skólum og leikskólum bæjarins sem geta haft áhrif á heilsu starfsfólks og nemenda.
Skúli Sigurðsson fulltrúi grunnskólakennara lagði fram eftirfarandi bókun:
"Mikilvægt er að Reykjanesbær tryggi heilnæmt vinnuumhverfi strax. Einnig þarf að tryggja að tilkynningar hafi borist Sjúkratryggingum um atvinnusjúkdóm. Starfsmenn geta átt rétt til bóta verði þeir fyrir tjóni í þeim tilvikum sem vinnuveitendur hafa ekki brugðist við grun um slæm loftgæði, rakaskemmdir og/eða myglu. Sumir kennarar í Holtaskóla eru ósáttir við að vera í sama rými eða við hliðina á svæðum sem verið er að vinna í. Veikindi virðast aukast við þær aðstæður. Enn er verið að kenna í heilsuspillandi húsnæði, aðeins hefur verið brugðist við á slæmu stöðunum. Óskað er eftir upplýsingum um hversu margir kennarar hafa farið í tímabundið eða ótímabundið veikindaleyfi vegna heilsuspillandi vinnuumhverfis. Óskað er eftir þessum upplýsingum á næsta fundi fræðsluráðs."
3. Breyting á skóladagatali Holtaskóla (2022040645)
Vegna lagfæringa á húsnæði Holtaskóla er óskað eftir breytingu á skóladagatali þannig að jólafrí nemenda hefjist þann 19. desember. Skólasamfélagið í Holtaskóla hefur verið upplýst um málið.
Fræðsluráð samþykkir breytinguna með vísan til fyrri umræðu um erfitt ástand í Holtaskóla vegna rakaskemmda.
4. Leyfi fyrir daggæslu barna í heimahúsi (2022080446)
Lögð fram umsókn um starfsleyfi fyrir dagforeldri frá Kristínu Lind Magnúsdóttur. Öll tilskilin gögn eru fyrir hendi.
Starfsleyfið er veitt.
5. Starfsáætlun skrifstofu menntasviðs (2022120121)
Helgi Arnarson sviðsstjóri fræðslusviðs kynnti starfsáætlun skrifstofu menntasviðs fyrir árið 2023.
Fræðsluráð þakkar Helga fyrir kynningu á metnaðarfullu starfi menntasviðs fyrir komandi ár. Samkvæmt hugmyndum um skipulagsbreytingar hjá Reykjanesbæ verður heiti fræðslusviðs breytt í menntasvið á nýju ári, þær breytingar hafa þó ekki enn verið samþykktar.
6. Allir með! – breyttar áherslur – sama markmið (2020010276)
Haraldur Axel Einarsson grunnskólafulltrúi sagði frá Allir með! hátíð sem haldin var í Bíósal Duus safnahúsa 7. desember.
Fræðsluráð þakkar Haraldi fyrir góða kynningu á skemmtilegri hátíð.
7. Tíðavörur í grunnskólum (2022110184)
Lagt fram erindi frá ungmennaráði Reykjanesbæjar varðandi ókeypis tíðavörur í grunnskólum sveitarfélagsins. Ungmennaráð fagnar því að hugmyndin hafi verið tekin fyrir í fræðsluráði og óskar eftir að málið verði unnið í samráði við börn.
Fræðsluráð þakkar fyrir faglegar og málefnalegar ábendingar frá ungmennaráði Reykjanesbæjar í tengslum við umfjöllun ráðsins um framkvæmd hugmyndar ungmennaráðs um ókeypis tíðavörur í grunnskólum Reykjanesbæjar. Í minnisblaði ungmennaráðs til fræðsluráðs 22. nóvember 2022 er óskað eftir því að tíðavörur verði fáanlegar á tveimur einstaklingsklósettum eða á fleiri en einum stað í skólum sveitarfélagsins þar sem hægt verði að nálgast vörurnar án aðstoðar starfsmanna. Í minnisblaðinu er einnig bent á mikilvægi þess að tilrauninni verði gefin nægjanlegur tími.
„Tíðavörur verði hafðar á salerni grunnskólans í a.m.k. eitt ár sama hvað kemur upp á. Dæmi eru um í öðrum stofnunum á landsvísu að eftir eitt til tvö atvik þar sem tíðavörum var dreift um alla veggi og stolið að þá var þessari þjónustu hætt. Leghöfum getur ekki verið refsað fyrir hegðunarvanda nokkurra einstaklinga.“
Fræðsluráð óskaði eftir því að sviðsstjóri fræðslusviðs greindi kostnað við verkefnið. Helgi Arnarson fræðslustjóri segir að stjórnendur skóla hafi tekið jákvætt í erindið. Sumir skólar bjóði þetta nú þegar. Gróf kostnaðaráætlun er að heildarkostnaður fyrir alla skóla á ári nemi 250.000 kr. vegna verkefnisins.
Ráðið tekur undir með ungmennaráði að mikilvægt er að unnið verði áfram með nemendum og skólastjórnendum að útfærslu hugmyndarinnar. Þegar næstu skref verða stigin í málinu verður leitað eftir umsögn ungmennaráðs.
Fylgigögn:
Tíðavörur í grunnskólum - erindi frá ungmennaráði Reykjanesbæjar
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10:15. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 20. desember 2022.