376. fundur menntaráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 30. ágúst 2024 kl. 08:15
Viðstaddir: Sverrir Bergmann Magnússon formaður, Gígja Sigríður Guðjónsdóttir, Halldór Rósmundur Guðjónsson, Harpa Björg Sævarsdóttir og Sighvatur Jónsson.
Að auki sátu fundinn Gróa Axelsdóttir fulltrúi skólastjóra grunnskóla, Skúli Sigurðsson fulltrúi grunnskólakennara, Ólöf Magnea Sverrisdóttir fulltrúi leikskólastjóra, Jóhanna Helgadóttir fulltrúi leikskólakennara, Helgi Arnarson sviðsstjóri menntasviðs, Haraldur Axel Einarsson grunnskólafulltrúi, Ingibjörg Bryndís Hilmarsdóttir leikskólafulltrúi og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.
1. Erindisbréf menntaráðs (2023050182)
Sverrir Bergmann Magnússon formaður menntaráðs fór yfir erindisbréf ráðsins.
Skúli Sigurðsson fulltrúi grunnskólakennara lagði fram eftirfarandi bókun:
„Gerð er athugasemd við að fulltrúar skólastjóra, grunnskólakennara, FFGÍR, leikskólastjóra, leikskólakennara og foreldra barna í leikskóla séu titlaðir áheyrnarfulltrúar þegar í lögunum stendur:
„Skólastjórar, grunnskólakennarar og foreldrar í sveitarfélagi kjósa hver úr sínum hópi aðal- og varamann til setu á skólanefndarfundum með málfrelsi og tillögurétt.“ 6. gr. laga um grunnskóla, 2008 nr. 91, 12. júní.“
Menntaráð vísar athugasemd fulltrúa grunnskólakennara til forsetanefndar.
Fylgigögn:
Erindisbréf menntaráðs
2. Upphaf skólastarfs (2024080409)
Ingibjörg Bryndís Hilmarsdóttir leikskólafulltrúi og Haraldur Axel Einarsson grunnskólafulltrúi fóru yfir upphaf skólastarfs í leik- og grunnskólum Reykjanesbæjar.
Þann 26. ágúst 2024 voru 1.084 börn í 12 leikskólum í sveitarfélaginu. Þar af eru 47 börn í leikskólanum Drekadal sem hóf störf í byrjun ágúst 2024. Gert er ráð fyrir að fjölgað verði í Drekadal í vetur og 120 börn verði í leikskólanum vorið/sumarið 2025. Starfsemin fer fram í húsnæði Keilis á Ásbrú þar sem leikskólahúsnæðið við Drekadal er ekki tilbúið. Leikskóladeildin Tjarnarlundur sem tilheyrir Tjarnarseli tók til starfa í byrjun ágúst sl. og byrjuðu 18 börn aðlögun þann 12. ágúst. Gert er ráð fyrir 22-24 börnum á blönduðum aldri í Tjarnarlundi. Tjarnarlundur er einnig í Keili á Ásbrú þar sem húsnæðið að Skólavegi 1 er ekki tilbúið. Áformað er að leikskólinn Garðasel flytji um áramót í Asparlaut og þar koma til viðbótar 25-30 pláss. Öll börn fædd 2022 hafa fengið boð um leikskólapláss á þessu hausti. Gera má ráð fyrir að byrjað verði að taka inn börn fædd 2023 upp úr áramótum.
Við upphaf skólastarfs í grunnskólum Reykjanesbæjar skólaárið 2024-2025 eru skráðir 2.803 nemendur. 566 nemendur eru skráðir í frístundaheimili skólanna.
3. Gjaldfrjálsar skólamáltíðir (2024070375)
Reykjanesbær hefur ákveðið að bjóða öllum grunnskólanemendum gjaldfrjálsar skólamáltíðir á skólaárinu.
Við þinglok Alþingis í upphafi sumars var samþykkt frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga sem snýr einkum að gjaldfrjálsum skólamáltíðum í grunnskólum landsins. Lögin kveða á um að við tekjur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga bætist árlegt framlag úr ríkissjóði sem Jöfnunarsjóður úthlutar til þeirra sveitarfélaga sem bjóða öllum nemendum upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir. Framlag ríkisins mun jafngilda 75% af þeirri upphæð sem foreldrar hefðu greitt fyrir skólamáltíðir.
Markmiðið með gjaldfrjálsum skólamáltíðum er að tryggja öllum grunnskólabörnum landsins aðgengi að góðum og hollum hádegisverði óháð fjárhagslegri stöðu foreldra. Þetta stuðlar að auknum jöfnuði og leggur þannig ríkari áherslu á jafnara samfélag fyrir alla.
Menntaráð felur sviðsstjóra menntasviðs að skoða hugmynd um að í öllum skólum Reykjanesbæjar verði tekið upp sama fyrirkomulag og er nú í Stapaskóla. Þar er byggt á verkefninu Atlæti (e. Nurture) þar sem öll börn skólans fá aðgang að ávöxtum án þess að þurfa að greiða fyrir þá. Markmiðið er að auka vellíðan barna og hefur að sögn skólastjóra Stapaskóla gefist vel.
Fylgigögn:
Gjaldfrjálsar skólamáltíðir í grunnskólum Reykjanesbæjar
4. Endurmenntunarráðstefna skrifstofu menntasviðs (2024080404)
Haraldur Axel Einarsson grunnskólafulltrúi sagði frá endurmenntunarráðstefnu skrifstofu menntasviðs sem fram fór þann 13. ágúst 2024 í Hljómahöll. Yfirskrift ráðstefnunnar var „Farsæld og fjölbreytileiki“. Um 350 manns sóttu ráðstefnuna.
Endurmenntunarráðstefnan er liður í því að styðja kennara í því að ígrunda starf sitt, opna augu þeirra fyrir nýjum leiðum og bæta við þekkingu þeirra með það að markmiði að ná sem bestum árangri fyrir nemendur og samfélagið allt. Lögð er áhersla á að kennarar séu ekki einungis í því hlutverki að vera þiggjendur þekkingar og fræðslu heldur virkir þátttakendur í að miðla og deila sinni reynslu og þekkingu í anda menntasamfélagsins.
Ráðstefnunni Farsæld og fjölbreytileiki er einnig ætlað að styðja við menntastefnu Reykjanesbæjar ásamt því að draga fram þær áskoranir sem mæta kennurum í okkar síbreytilega samfélagi og benda á leiðir sem eru vænlegar til þess að mæta þeim áskorunum.
Fylgigögn:
Endurmenntunarráðstefna grunnskólanna
5. Breyting á skóladagatali Holtaskóla (2024020232)
Óskað er eftir breytingu á skóladagatali Holtaskóla fyrir skólaárið 2024-2025 þannig að skertur nemendadagur og tveir starfsdagar færast frá 22.-24. október til 13.-15. nóvember. Skólaráð Holtaskóla hefur samþykkt breytinguna.
Menntaráð staðfestir breytinguna. Uppfært skóladagatal hefur verið birt á heimasíðu skólans með fyrirvara um samþykki menntaráðs.
6. Staða framkvæmda og húsnæðismála í leik- og grunnskólum (2024040176)
Guðlaugur H. Sigurjónsson, sviðsstjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs, mætti á fundinn og fór yfir stöðu framkvæmda í leik- og grunnskólum sveitarfélagsins.
7. Ábyrgð og hlutverk sveitarfélaga vegna bils milli fæðingarorlofs og inntöku barna í leikskóla (2023110229)
Erindi frá Jafnréttisstofu lagt fram. Vakin er athygli á ábyrgð og hlutverki sveitarfélaga til að brúa bilið sem myndast þegar foreldrar hafa fullnýtt fæðingarorlofsrétt sinn og þangað til barn fær dvöl á leikskóla.
Varðandi erindi Jafnréttisstofu vill menntaráð árétta nokkur atriði:
Mikið er lagt upp úr því að leikskólar í Reykjanesbæ nái á kjörtímabilinu að taka inn 18 mánaða börn á leikskóla. Það hefur reynst sveitarfélaginu áskorun undanfarin ár vegna mikils fjölda leikskólabarna sem er tilkominn vegna mikillar fjölgunar bæjarbúa.
Þegar kemur að því að brúa tímabilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla er mikilvægt að sveitarfélög búi yfir öflugum dagforeldrum og/eða ungbarnaleikskólum, það eru úrræði sem sveitarfélög geta boðið upp á. Mikið hefur verið rætt um greiðslur til foreldra á þessu tímabili sem styrk til að vera heima með barni sínu en það hefur í för með sér ýmsa þætti sem þarf að rýna nánar líkt og hvort foreldrið sé heima o.s.frv.
Reykjanesbær er með 27 dagforeldra í sveitarfélaginu sem annast alls um 150 börn. Í nokkrum tilfellum er um að ræða tvo dagforeldra sem samnýta aðstöðu og hefur það fyrirkomulag verið til fyrirmyndar. Til að efla dagforeldra og starf þeirra, býður Reykjanesbær upp á styrki og greiðir auk þess fyrir námskeið dagforeldra.
Varðandi fjölgun leikskóla þá þarf að taka það fram að Reykjanesbær er að byggja þrjá nýja leikskóla sem opna á árinu, tvo leikskóla sem taka 120 börn hvor og einn sem tekur 22-25 börn eða rými fyrir alls 265 börn. Það er liður í að ná aldri barnanna í átt að 18 mánaða markinu sem er markmið bæjarstjórnar fyrir kjörtímabilið 2022-2026. Til að ná niður að ungbarnaaldri eða frá 12 mánaða þyrfti sveitarfélagið að fara í gríðarlega mikla og hraða uppbyggingu leikskóla, en það er fjárfesting sem hleypur á milljörðum.
Að lokum vill menntaráð Reykjanesbæjar taka það fram að jafnrétti er okkur hugleikið alla daga í öllum verkefnum, hvort sem þau snúa að leikskólamálum eða öðrum málum. Þetta málefni ætti að vera í forgangi í allri okkar vinnu, ekki bara til að horfa til við ákveðin verkefni. Jafnrétti og jöfn staða kynjanna, sérstaklega þegar kemur að uppeldi barna og stöðu kynja á vinnumarkaði, er Reykjanesbæ mjög mikilvægt.
Menntaráð fagnar brýningunni frá Jafnréttisstofu og mun nú sem ávallt vinna að jöfnum rétti kynja í öllum málum.
Fylgigögn:
Ábyrgð og hlutverk sveitarfélaga vegna bils milli fæðingarorlofs og inntöku barna í leikskóla - erindi frá Jafnréttisstofu
8. Mælaborð menntasviðs (2024080411)
Helgi Arnarson sviðsstjóri menntasviðs kynnti uppgjör sviðsins fyrir janúar-júní 2024.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10:19. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 3. september 2024.