377. fundur

13.09.2024 08:15

377. fundur menntaráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 13. september 2024 kl. 08:15

Viðstaddir: Sverrir Bergmann Magnússon formaður, Gígja Sigríður Guðjónsdóttir, Halldór Rósmundur Guðjónsson, Harpa Björg Sævarsdóttir og Sighvatur Jónsson.

Að auki sátu fundinn Lóa Björg Gestsdóttir fulltrúi skólastjóra grunnskóla, Skúli Sigurðsson fulltrúi grunnskólakennara, Anita Engley Guðbergsdóttir fulltrúi FFGÍR, María Petrína Berg fulltrúi leikskólastjóra, Helgi Arnarson sviðsstjóri menntasviðs, Haraldur Axel Einarsson grunnskólafulltrúi, Ingibjörg Bryndís Hilmarsdóttir leikskólafulltrúi og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.

Ólöf Magnea Sverrisdóttir boðaði forföll og sat María Petrína Berg fundinn í hennar stað. Gróa Axelsdóttir boðaði forföll og sat Lóa Björg Gestsdóttir fundinn í hennar stað.

1. Snemmbær stuðningur (2024090291)

a. Kolfinna Njálsdóttir deildarstjóri skólaþjónustu og Einar Trausti Einarsson yfirsálfræðingur mættu á fundinn og fóru m.a. yfir hvernig fjölbreyttum stuðningsþörfum er mætt í skólakerfi Reykjanesbæjar, verklagsreglur og inntöku í sértæk námsúrræði.

b. Einar Trausti Einarsson yfirsálfræðingur kynnti tillögu að átaki varðandi sálfræðilegar athuganir hjá skólaþjónustu menntasviðs.

Menntaráð vísar tillögu að átaki varðandi sálfræðilegar athuganir til fjárhagsáætlunarvinnu.

2. Ávextir í grunnskólum (2024070375)

Á fundi menntaráðs 30. ágúst síðastliðinn kom fram hugmynd um að í öllum skólum Reykjanesbæjar verði tekið upp sama fyrirkomulag og er nú í Stapaskóla en þar er byggt á verkefninu Heillaspor (e. Nurture) en hluti af því er að nemendum stendur til boða að fá ávexti sér að kostnaðarlausu.

Haraldur Axel Einarsson grunnskólafulltrúi fór yfir málið. Menntaráð vísar framkominni tillögu til fjárhagsáætlunarvinnu.

3. Frístund og frístundaakstur (2023100180)

Haraldur Axel Einarsson grunnskólafulltrúi fór yfir fjölda nemenda á frístundaheimilum Reykjanesbæjar og nýtingu frístundaaksturs í upphafi skólaárs 2024-2025.

Á frístundaheimilum Reykjanesbæjar eru nú skráðir 609 nemendur. Fjöldi nemenda sem nýtir frístundaakstur er misjafn eftir dögum og eru flestir skráðir á mánudögum, 217 nemendur, en fæstir á miðvikudögum, 162 nemendur.

Töluverð vinna leggst á forstöðumenn frístundaheimilanna við skipulagningu og framkvæmd á frístundaakstrinum. Því fylgir óneitanlega aukið álag á starfsemina. Menntaráð hrósar forstöðumönnum frístundaheimilanna fyrir hversu vel þeir standa að þessari framkvæmd.

4. Lærdómsferð starfsfólks skrifstofu menntasviðs (2024090279)

Helgi Arnarson sviðsstjóri menntasviðs sagði frá fyrirhugaðri lærdómsferð starfsfólks skrifstofu menntasviðs til Glasgow í Skotlandi sem farin verður 24.-28. september. Þar verða skólar í borginni heimsóttir auk þess sem sóttir verða fyrirlestrar þar sem áhersla verður lögð á eftirfarandi fjögur verkefni:

GIRFEC – Getting it right for Every Child er nálgun sem opinberir aðilar starfa eftir. Stofnanir, þjónustuaðilar, skólar og félagasamtök sem vinna með börnum og ungmennum í Skotlandi tryggja með GIRFEC að börn og ungmenni fái þann stuðning og aðstoð sem þau þurfa.

STEM stendur fyrir vísindi, tækni, verkfræði og stærðfræði. STEM menntun og þjálfun er ætlað að þróa sérfræðiþekkingu og getu á hverju einstöku sviði en einnig að þróa hæfni og færni til að vinna þverfaglega. STEM er talinn vera kjarninn í framtíðarþróun vinnuafls í Skotlandi, hagkerfis og velmegunar Glasgow. Með STEM er stutt við ungt fólk til að verða vísindalega og stafrænt læsir borgarar.

Nurture (Heillaspor) er nálgun þar sem lögð er áhersla á tilfinningalegar þarfir og þroska sem og akademískt nám. Nurture setur tengsl í öndvegi, leggur áherslu á rútínu, skýr mörk og jákvæð tengsl. Umhverfi skóla er lagað að því að efla tilfinningalega færni nemenda og jákvæð tengsl.

CREATE verkefnið snýr að skapandi greinum, lausnamiðaðri hugsun, nýsköpun og hvetjandi námsumhverfi. Tónlist hefur mikinn sess í CREATE og nær verkefnið til allra skólastiga.

5. Stefna um starfsmannaíbúðir á Suðurnesjum - beiðni um umsögn (2024080039)

Umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar óskar eftir umsögn um drög að stefnu um starfsmannaíbúðir á Suðurnesjum, sem er samstarfsverkefni Reykjanesbæjar og Suðurnesjabæjar.

Fulltrúar í menntaráði munu senda athugasemdir til formanns ráðsins sem mun koma þeim áleiðis til umhverfis- og skipulagsráðs.

6. Fjárhagsáætlun menntasviðs 2025 (2024050440)

Helgi Arnarson sviðsstjóri menntasviðs fór yfir ramma menntasviðs fyrir fjárhagsáætlun ársins 2025.

Í ljósi kostnaðar sem áætlaður er í ár vegna langtímaveikinda starfsfólks menntasviðs Reykjanesbæjar vill menntaráð leggja til að skoðaður verði fýsileiki þess að ráða inn starfsmann í mannauðsdeild Reykjanesbæjar sem hefur umsjón með mannauðsmálum menntasviðs. Með þessu er mögulegt að bæta líðan starfsfólks sviðsins og þannig lækka þann kostnað sem hlýst af langtímaveikindum starfsfólks sem stefnir í 200 milljónir á árinu 2024.

7. Mælaborð menntasviðs - 6 mánaða uppgjör (2024080411)

Leiðrétt uppgjör menntasviðs fyrir janúar-júní 2024 lagt fram.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10:22. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 17. september 2024.