378. fundur

11.10.2024 08:15

378. fundur menntaráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 11. október 2024, kl. 08:15

Viðstaddir: Sverrir Bergmann Magnússon formaður, Gígja Sigríður Guðjónsdóttir, Halldór Rósmundur Guðjónsson, Harpa Björg Sævarsdóttir og Sighvatur Jónsson.

Að auki sátu fundinn Rafn Markús Vilbergsson fulltrúi skólastjóra grunnskóla, Skúli Sigurðsson fulltrúi grunnskólakennara, Ólöf Magnea Sverrisdóttir fulltrúi leikskólastjóra, Helgi Arnarson sviðsstjóri menntasviðs, Haraldur Axel Einarsson grunnskólafulltrúi og Íris Eysteinsdóttir ritari.

Gróa Axelsdóttir boðaði forföll og sat Rafn Markús Vilbergsson fundinn í hennar stað.

1. Framtíðaruppbygging íþrótta- og skólasvæðis (2022050239)

Guðlaugur H. Sigurjónsson, sviðsstjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs, mætti á fundinn og kynnti framtíðaruppbyggingu íþrótta- og skólasvæðis við Afreksbraut.

Menntaráð þakkar Guðlaugi fyrir áhugaverða yfirferð um framtíðaruppbyggingu íþrótta- og skólasvæðis Reykjanesbæjar. Stórt og mikilvægt skref verður stigið við að bæta aðstöðu fyrir íþróttastarf með fyrirhuguðum framkvæmdum við Afreksbraut.

Ráðið fagnar um leið því að sveitarfélagið hafi tekið í notkun nýtt íþróttahús við Stapaskóla sem mun auka möguleika nemenda skólans til íþróttaiðkunar ásamt því sem salurinn verður nýtt heimili körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur.

2. Fjárhagsáætlun og fjárfestingaráætlun menntasviðs 2025 (2024050440)

Helgi Arnarson sviðsstjóri menntasviðs fór yfir fjárfestingaráætlun og fjárhagsáætlun sviðsins fyrir árið 2025.

3. Tillögur um bættar starfsaðstæður í leikskólum (2024030084)

Minnisblað varðandi útfærslu á tillögu 1 frá starfshópi um bættar starfsaðstæður í leikskólum Reykjanesbæjar lagt fram. Tillagan sem um ræðir lýtur að samræmingu á skólaleyfum á milli leik- og grunnskóla.

Menntaráð Reykjanesbæjar lýsir yfir ánægju með þær tillögur sem fram hafa verið lagðar um útfærslur á bættum starfsaðstæðum í leikskólum bæjarins sem snýr að samræmingu á skólaleyfum sem nær yfir lokun í dymbilviku og vetrarfríum, ásamt áframhaldandi lokun milli jóla og nýárs, sem hefur reynst vel undanfarin ár. Menntaráð telur að þessi útfærsla muni stuðla að betri starfsskilyrðum og auka stöðugleika í leikskólastarfi.

Þá tekur ráðið undir mikilvægi þess að boðið verði upp á skráningu barna á leikskóla í vetrarfríum og dymbilviku fyrir þá foreldra sem á því þurfa að halda.
Menntaráð samþykkir tillöguna 5-0 og vísar henni til frekari umræðu í bæjarráði.

4. Erindi frá foreldrafélagi Myllubakkaskóla (2024100118)

Erindi frá foreldrafélagi Myllubakkaskóla varðandi ástand skólamála lagt fram.

Menntaráð þakkar foreldrafélagi Myllubakkaskóla fyrir gott erindi og þarfar ábendingar. Ráðið felur Helga Arnarsyni sviðsstjóra menntasviðs að vinna málið áfram. Brýnt er að upplýsa um gang mála við framkvæmdir og tryggja að sveitarfélagið veiti nemendum Myllubakkaskóla nauðsynlega þjónustu.

5. Endurbætur á skólalóðum - erindi frá skólastjórum (2023010276)

Erindi frá skólastjórum grunnskóla í Reykjanesbæ lagt fram. Þar er vakin athygli á mikilvægi verkefnis um endurgerð og uppbyggingu skólalóða í sveitarfélaginu og tryggðir verði nauðsynlegir fjármunir til þess í fjárhagsáætlun ársins 2025.

Menntaráð þakkar skólastjórum fyrir erindið og brýningu á mikilvægi skólalóða. Ráðið felur Helga Arnarsyni sviðsstjóra menntasviðs að vinna málið áfram við fjárhagsáætlunarvinnu.

Fylgigögn:

Erindi inn í menntaráð vegna skólalóða

6. Mannréttindastefna Reykjanesbæjar - drög til umsagnar (2020021548)

Bæjarráð óskar eftir umsögn um drög að mannréttindastefnu Reykjanesbæjar.

Menntaráð þakkar fyrir drög að mannréttindastefnu Reykjanesbæjar. Vel hefur verið staðið að vinnu við gerð metnaðarfullrar stefnu. Ráðið felur Sverri Bergmann Magnússyni formanni menntaráðs að koma umsögnum ráðsins áfram.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10.18. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 15. október 2024.