382. fundur

14.02.2025 08:15

382. fundur menntaráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 14. febrúar 2025 kl. 08:15

Viðstaddir: Sverrir Bergmann Magnússon formaður, Halldór Rósmundur Guðjónsson, Harpa Björg Sævarsdóttir, Helga Jóhanna Oddsdóttir og Sighvatur Jónsson.

Að auki sátu fundinn Unnar Stefán Sigurðsson fulltrúi skólastjóra grunnskóla, Skúli Sigurðsson fulltrúi grunnskólakennara, Anita Engley Guðbergsdóttir fulltrúi FFGÍR, Ólöf Magnea Sverrisdóttir fulltrúi leikskólastjóra, Jóhanna Helgadóttir fulltrúi leikskólakennara, Vilborg Pétursdóttir fulltrúi foreldra leikskólabarna, Helgi Arnarson sviðsstjóri menntasviðs, Haraldur Axel Einarsson grunnskólafulltrúi, Ingibjörg Bryndís Hilmarsdóttir leikskólafulltrúi og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.

Gígja Sigríður Guðjónsdóttir boðaði forföll og sat Helga Jóhanna Oddsdóttir fundinn í hennar stað.
Gróa Axelsdóttir boðaði forföll og sat Unnar Stefán Sigurðsson fundinn í hennar stað.

1. Beiðni um framkvæmdir (2024040176)

a. Akurskóli – betri nýting húsnæðis

Sigurbjörg Róbertsdóttir skólastjóri Akurskóla mætti á fundinn og kynnti hugmyndir um að nýta betur þá fermetra sem fyrir eru í skólanum og fjarlægja kennslustofur af bílastæðinu.

b. Háaleitisskóli – viðbygging

Unnar Stefán Sigurðsson skólastjóri Háaleitisskóla kynnti hugmynd um að selja núverandi frístundahúsnæði Háaleitisskóla að Breiðbraut 645 til að fjármagna framkvæmdir við stækkun á skólanum, en með því verður frístundastarfsemin undir sama þaki og skólinn.

c. Skógarás – stækkun húsnæðis

Helgi Arnarson sviðsstjóri menntasviðs kynnti tillögu Skóla ehf., sem reka leikskólann Skógarás, um að leikskólinn verði stækkaður um 380 m² og færist úr því að vera fjögurra deilda í sex deilda leikskóla með pláss fyrir 120-130 börn. Stækkunin er í samræmi við fyrri hugmyndir um að leikskólinn yrði upphaflega byggður sem fimm til sex deilda leikskóli.

Menntaráð Reykjanesbæjar hefur farið yfir tillögur um breytingar og viðbyggingar í skólastarfi bæjarins og lítur jákvæðum augum á þær. Í Akurskóla er lögð fram áætlun um að nýta fermetra skólans betur til að sameina starfsemina undir einu þaki og fjarlægja bráðabirgðakennslustofur af bílastæði skólans. Þessi breyting eykur umferðaröryggi, bætir aðstöðu fyrir frístundastarf, kennara og sérkennslu og felur í sér hagkvæma lausn til framtíðar.

Jafnframt hefur menntaráð fjallað um tillögu um 60 fermetra viðbyggingu við Háaleitisskóla sem gerir kleift að sameina alla starfsemi skólans í einu húsnæði. Með þessari viðbyggingu verður bæði frístundastarf og sérkennsluúrræði fyrir nemendur með sérþarfir bætt, en jafnframt er gert ráð fyrir að fjármagna framkvæmdina með sölu á eign í eigu sveitarfélagsins.

Þá hefur menntaráð einnig farið yfir tillögu um viðbyggingu við leikskólann Skógarás, sem felur í sér 380 fermetra stækkun úr fjögurra deilda leikskóla í sex deilda. Tillagan er í takt við vaxandi þörf fyrir leikskólapláss í Ásbrúarhverfi og styður við stefnu sveitarfélagsins um lækkun innritunaraldurs í leikskóla. Með stækkun leikskólans skapast betri aðstaða fyrir börn, starfsfólk og listkennslu, auk þess sem breytingin er hagkvæm lausn í samræmi við skipulag hverfisins.

Menntaráð telur þessar tillögur allar styðja við farsælt skólastarf í Reykjanesbæ og leggur áherslu á mikilvægi þess að tryggja góða aðstöðu fyrir nemendur og starfsfólk. Ráðið styður því áframhaldandi vinnu við framgang verkefnanna og hvetur til þess að þau verði útfærð í samræmi við þarfir og stefnu sveitarfélagsins.

Húsnæði grunnskóla Reykjanesbæjar gegnir mikilvægu hlutverki innan hverfanna enda er þar veitt mikilvæg nærþjónusta til viðbótar við lögbundið hlutverk grunnskólanna. Menntaráð leggur áherslu á að ávallt sé tekið sé mið af þörfum allrar starfsemi sem rýmast þarf innan skólahúsnæðisins samkvæmt áherslum Reykjanesbæjar, svo sem sérfræðiþjónustu innan skóla, tónlistarkennslu á skólatíma og þjónustu frístundar.

Menntaráð samþykkir að vísa ofangreindum erindum til stjórnar Eignasjóðs.

2. Starfsáætlun skrifstofu menntasviðs 2025 (2025010427)

Helgi Arnarson sviðsstjóri menntasviðs fór yfir helstu áherslur í starfsáætlun sviðsins fyrir árið 2025.

Menntaráð Reykjanesbæjar þakkar góða kynningu á starfsáætlun menntasviðs fyrir árið 2025, þar sem sett eru fram markmið og aðgerðir sem stuðla að gæðum menntunar í sveitarfélaginu. Í áætluninni er lögð áhersla á skimun og matsferla í lestri og stærðfræði, fræðslu fyrir kennara og foreldra, aukna eftirfylgni með velferð nemenda og þróun fjöltyngiskennslu. Einnig er fjallað um nemenda- og kennarafjölda, ásamt aðgerðum til að bæta starfsumhverfi skóla og leikskóla. Menntaráð leggur áherslu á mikilvægi þess að fylgja áætluninni eftir og tryggja áframhaldandi framfarir í menntamálum í Reykjanesbæ.

3. Nýsköpunar- og þróunarsjóður menntasviðs (2025020234)

Haraldur Axel Einarsson grunnskólafulltrúi kynnti þá áhersluþætti sem eru í forgangi þegar kemur að úthlutun úr nýsköpunar- og þróunarsjóði skrifstofu menntasviðs, en sjóðnum er ætlað að stuðla að nýsköpun, framþróun og öflugu innra starfi leik- og grunnskóla í Reykjanesbæ. Áhersluþættir fyrir skólaárið 2025-2026 eru:

• Inngildandi menntun
• Við og jörðin
• Læsi – lestur, lesskilningur, ritun og tjáning
• Gervigreind í skólastarfi

Auglýst hefur verið eftir umsóknum og er umsóknarfrestur til kl. 16 föstudaginn 21. mars 2025. Skólastjórar, kennarar og aðrir fagaðilar í leik- og grunnskólum Reykjanesbæjar geta sótt um úthlutanir úr sjóðnum.

Menntaráð hvetur skólastjórnendur, kennara og aðra sem starfa að menntamálum í Reykjanesbæ til að nýta þetta tækifæri og sækja um styrk til verkefna sem stuðla að framþróun og bættri menntun fyrir nemendur.

Menntaráð leggur áherslu á að stuðningur við nýsköpun í menntamálum sé lykilatriði í að bæta gæði og aðgengi að menntun í Reykjanesbæ og vonast til að fjölbreytt og metnaðarfull verkefni fái stuðning úr sjóðnum.

Fylgigögn:

Nýsköpunar- og þróunarsjóður skrifstofu menntasviðs - auglýsing 

4. Tónlistarskóli Reykjanesbæjar (2025020241)

Haraldur Árni Haraldsson skólastjóri tónlistarskólans mætti á fundinn og fór yfir upplýsingar um starfsemi skólans og helstu áherslur í starfinu.

5. Kjaraviðræður - staðan (2024030142)

Helgi Arnarson sviðsstjóri menntasviðs gerði grein fyrir stöðu kjaraviðræðna kennara, ríkis og sveitarfélaga.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10:30. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 18. febrúar 2025.