11. fundur öldungaráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Nesvöllum þann 24. febrúar 2022 kl. 13:00
Viðstaddir: Þórdís Elín Kristinsdóttir, formaður, Díana Hilmarsdóttir og Rúnar V. Arnarson, fulltrúar Reykjanesbæjar, Loftur Hlöðver Jónsson og Hrafnhildur Gunnarsdóttir, fulltrúar Félags eldri borgara á Suðurnesjum, Ása Eyjólfsdóttir, forstöðumaður stuðnings- og öldrunarþjónustu og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir, ritari.
Eyjólfur Eysteinsson, fulltrúi Félags eldri borgara á Suðurnesjum og Margrét Blöndal, fulltrúi Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja boðuðu forföll.
1. Fjölþætt heilsuefling 65+ (2022021106)
Dr. Janus Guðlaugsson og Anna Sigríður Jóhannesdóttir frá Janusi heilsueflingu mættu á fundinn og kynntu verkefnið Fjölþætt heilsuefling 65+ sem er ætlað að gera þátttakendur hæfari til að takast á við breytingar sem fylgja hækkandi aldri. Reykjanesbær hefur veitt fjármagni til verkefnisins síðustu ár en nú hefur sú fjárveiting verið lækkuð umtalsvert og lítur út fyrir að verkefninu muni ljúka í sveitarfélaginu í september 2023.
Öldungaráð telur verkefnið gríðarlega mikilvægt og hefur áhyggjur af því að því ljúki þar sem það hefur sýnt sig og sannað að verkefnið er að skila miklum árangri fyrir þátttakendur líkamlega, andlega og félagslega. Ráðið ítrekar mikilvægi þess að verkefnið fái áfram hljómgrunn og að það verði gert ráð fyrir því í fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar hjá nýrri bæjarstjórn 2022-2026. Samkvæmt Hagstofunni mun fjöldi Íslendinga 70 ára og eldri tvöfaldast næstu 30 árin sem þýðir að 25% Íslendinga verða á þeim aldri árið 2050. Mikilvægt er að ríkið komi að þessari uppbyggingu þar sem það er gríðarlegur fjárhagslegur ávinningur fyrir heilbrigðiskerfið sem og einstaklinginn sjálfan.
Fylgigögn:
Fjölþætt heilsuefling 65+ - kynning
Fjölþætt heilsuefling 65+ - niðurstöður tveggja ára heilsuefling
Þjálfun og þjónusta hjá Janusi heilsueflingu
2. Aðgengismál (2022021135)
Guðlaug María Lewis menningarfulltrúi mætti á fundinn og kynnti hugmynd að uppsetningu á lyftu í Bryggjuhúsi Duus safnahúsa sem mun stórbæta aðgengi að sýningum á efri hæðum hússins.
Ása Eyjólfsdóttir, forstöðumaður stuðnings- og öldrunarþjónustu sagði frá fyrirhuguðum framkvæmdum á anddyri þjónustumiðstöðvarinnar að Nesvöllum sem munu bæta aðgengi þar.
Öldungaráð lýsir yfir ánægju með verkefnin sem munu bæta aðgengi eldri borgara sem og annarra að þessum stofnunum.
3. Heilsuvernd aldraðra (2021050023)
Íris Dröfn Björnsdóttir frá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja mætti á fundinn og kynnti heilsuvernd eldra fólks, 65 ára og eldri, sem hefur verið í þróun á stofnuninni. Þjónustunni er ætlað að auðvelda aðgengi að heilbrigðisþjónustu, styðja eldra fólk til að efla og viðhalda andlegu, líkamlegu og félagslegu heilbrigði og finna úrræði sem stuðla að því að fólk geti búið heima sem lengst.
Öldungaráð fagnar frumkvæði Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja að heilsuvernd eldra fólks og telur mikilvægt að þjónustan fái að þróast og eflast áfram.
Fylgigögn:
Heilsuvernd eldra fólks - bæklingur
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15:17.