10. fundur framtíðarnefndar Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 18. júní 2020 kl. 14:00
Viðstaddir: Kolbrún Jóna Pétursdóttir formaður, Andri Örn Víðisson, Styrmir Gauti Fjeldsted, Súsanna Björg Fróðadóttir, Hanna Björg Konráðsdóttir, Halldóra G. Jónsdóttir aðstoðarmaður bæjarstjóra og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.
1. Umhverfisstefna Reykjanesbæjar (2020021391)
Að mati framtíðarnefndar er æskilegt að kalla eftir ráðgjöf sérfræðinga til að stefnan uppfylli kröfur um sjálfbærni og fáist vottuð. Er þá sérstaklega horft til útgáfu grænna skuldabréfa við fjármögnun sem krefst ákveðinnar áhættustýringar til að uppfylla kröfur fjárfesta. Framtíðarnefnd óskar eftir að umhverfisstefnan verði unnin áfram á vettvangi nefndarinnar í samstarfi við umhverfis- og skipulagsráð.
2. Kísilverksmiðja í Helguvík (2019051551)
Skipulagsstofnun hefur sent Reykjanesbæ beiðni um umsögn vegna skýrslunnar Kísilverksmiðja í Helguvík – endurbætur, Mat á umhverfisáhrifum, Frummatsskýrsla dags. í apríl 2020. Óskað var eftir framlengingu á umsagnarfresti og hann veittur til 26. júní.
Framtíðarnefnd tekur heilshugar undir umsögn umhverfis- og skipulagsráðs sem samþykkt var í ráðinu og af bæjarstjórn 16. júní s.l. og vill undirstrika það að nefndin er einnig ósammála niðurstöðum frummatsskýrslunnar varðandi loftgæði, samfélag, atvinnulíf og heilsu og telur mjög ólíklegt að efnahagsleg áhrif framkvæmdarinnar séu það mikil að þau vegi upp á móti neikvæðum áhrifum hennar á þann veg að þau nái að gera heildaráhrif verksmiðjunnar á samfélagið jákvæð. Framtíðarnefnd vill bæta við að til framtíðar mun verksmiðjan hafa áhrif á afar marga þætti sem snúa að íbúum Reykjanesbæjar, íbúum Reykjaness og alls landsins og telur nefndin að mótvægisaðgerðir þær sem fyrirhugaðar eru af eigendum verksmiðjunnar muni ekki duga til að starfsemin verði í sátt við íbúa svæðisins.
Til viðbótar við almennar athugasemdir í umsögn umhverfis- og skipulagsráðs og Reykjanesbæjar vill framtíðarnefnd einnig benda á að vatnsþörf verksmiðjunnar til kælingar er töluverð. Framkvæmdin kallar á djúpborun á svæðinu sem mótvægisaðgerð vegna mikillar vatnsnotkunar verksmiðjunnar. Óvíst er hver áhrif niðurdæling vatns mun hafa á byggðina í kringum Helguvík við sjálfa niðurdælinguna auk áhrifa á grunnvatn.
Fylgigögn:
Kísilverksmiðja í Helguvík - endurbætur, Mat á umhverfisáhrifum, Frummatsskýrsla
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15:00. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarráðs þann 25. júní 2020.