19. fundur framtíðarnefndar Reykjanesbæjar, fjarfundur haldinn þann 21. apríl 2021 kl. 15:00
Viðstaddir: Kolbrún Jóna Pétursdóttir formaður, Andri Örn Víðisson, Styrmir Gauti Fjeldsted, Súsanna Björg Fróðadóttir, Ríkharður Ibsen, Halldóra G. Jónsdóttir aðstoðarmaður bæjarstjóra og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.
1. Stefna og framtíðarsýn Kölku sorpeyðingarstöðvar (2020110564)
Steinþór Þórðarson framkvæmdastjóri Kölku mætti á fundinn og kynnti stefnu og framtíðarsýn Kölku sorpeyðingarstöðvar.
2. Betri Reykjanesbær - hugmyndir (2019100329)
Halldóra G. Jónsdóttir aðstoðarmaður bæjarstjóra fór yfir stöðu mála varðandi hugmyndasöfnun sem fram fór á vefnum Betri Reykjanesbær á tímabilinu 31. mars til 14. apríl 2021. Samtals voru sendar inn 93 hugmyndir og er unnið að því að flokka og meta hugmyndirnar. Rafræn íbúakosning um þær hugmyndir sem taldar verða framkvæmanlegar á árinu fer fram dagana 31. maí til 6. júní nk. Þau verkefni sem verða fyrir valinu verða síðan hönnuð, boðin út og framkvæmd frá vori og fram eftir ári eftir umfangi verkefna.
3. Umhverfis- og loftslagsstefna Reykjanesbæjar - aðgerðaáætlun (2020021391
Framtíðarnefnd telur mikilvægt að mikil vinna verði lögð í aðgerðaáætlun til að fylgja eftir umhverfis- og loftslagsstefnu Reykjanesbæjar sem öll svið bæjarins verða að koma að. Framtíðarnefnd leggur til að ráðinn verði starfsmaður tímabundið í a.m.k. 6 mánuði til að halda utan um vinnu við aðgerðaáætlun og felur aðstoðarmanni bæjarstjóra að vinna málið áfram.
4. Umhverfis- og sjálfbærnimál Reykjanesbæjar (2021010385)
Umhverfismál hafa á undanförnum árum öðlast sífellt meira vægi í samfélaginu og hefur vitund um mikilvægi þeirra aukist samhliða. Í loftslagsmálum stöndum við frammi fyrir stórum áskorunum og munu aðgerðir þeirra sem eru við stjórnvölinn í dag ráða miklu um það hvort okkur takist að snúa ógnvænlegri þróun á hnignun vistkerfa við.
Reykjanesbær hefur ekki látið sitt eftir liggja á síðustu misserum við að kynna sér og hefja undirbúning vinnu við þann viðsnúning sem er nauðsynlegur. Það er greinilegt að víða innan stjórnkerfisins er skilningur og vilji til þátttöku í þessu stóra og mikilvæga verkefni sem hefur m.a. sýnt sig í tengingu heildarstefnu við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og samstarfi um innleiðingu þeirra á Suðurnesjum. Nú hefur einnig metnaðarfull umhverfis- og loftslagsstefna litið dagsins ljós sem á að vera leiðarljós fyrir Reykjanesbæ næstu árin til að leggja sitt af mörkum til að takast á við þennan margþætta vanda. Næsta skref er að setja af stað vinnu við aðgerðaáætlun um hvernig við ætlum að ná þeim markmiðum sem stefnan setur.
Þessi málaflokkur, umhverfismál og sjálfbærni, á bara eftir að stækka með ári hverju og því fyrr sem við náum vel utan um hann því betur mun okkur takast. Í dag á hann ekkert eitt heimili og eru verkefni og ábyrgð mjög dreifð. Umhverfisstefna sveitarfélagsins hefur hingað til verið tengd við aðalskipulag og tekið mið af því en ekki öfugt. Það er mjög jákvætt skref að stefnan fái nú aukið sjálfstæði og nái yfir breiðara svið. Þessi málaflokkur þarf að ná þvert á alla starfsemi Reykjanesbæjar og vinnast í samvinnu við öll svið.
Þegar horft er yfir sviðið má segja að Reykjanesbær hafi verið í fremstu röð meðal sveitarfélaga í þessum mikilvæga málaflokki en betur má ef duga skal. Ef Heimsmarkmiðin eru t.a.m. skoðuð þá eru 65% þeirra háð þátttöku á sveitarstjórnarsviðinu. Til þess að halda áfram á sömu braut og ná yfirsýn og heltast ekki úr lestinni er nauðsynlegt að finna málaflokknum góðan stað innan stjórnkerfis bæjarins.
Fylgigögn:
Gott líf á sjálfbærum Norðurlöndum - bæklingur
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16:40. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 4. maí 2021.