27. fundur framtíðarnefndar Reykjanesbæjar, fjarfundur haldinn þann 19. janúar 2022 kl. 15:00
Viðstaddir: Kolbrún Jóna Pétursdóttir formaður, Andri Örn Víðisson, Styrmir Gauti Fjeldsted, Súsanna Björg Fróðadóttir, Ríkharður Ibsen, Halldóra G. Jónsdóttir aðstoðarmaður bæjarstjóra og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.
1. Aðgerðaáætlun í umhverfis- og loftslagsmálum (2020021391)
Anna Karen Sigurjónsdóttir sjálfbærnifulltrúi mætti á fundinn og fór yfir uppfærð drög að aðgerðaáætlun Reykjanesbæjar í umhverfis- og loftslagsmálum fyrir árið 2022.
Framtíðarnefnd samþykkir aðgerðaáætlunina fyrir sitt leyti og telur brýnt að LED-væðingu í sveitarfélaginu verði flýtt. LED-lýsing býður upp á mun betri stýringu, betri endingu, langtum minni viðhaldsþörf, vinnusparnað og orkusparnað upp á um 70%. Talið er að rekstrarkostnaður muni lækka um helming og fjárfestingin borgi sig upp á 5-6 árum.
Skilyrt verði að einungis grænir orkukostir komi til greina þegar kemur að næsta útboði almenningssamgangna í Reykjanesbæ í samræmi við stefnu sveitarfélagsins. Skýr markmið og aðgerðir auðvelda öllum aðilum undirbúning fyrir breyttar áherslur þegar samningar verða lausir.
2. Matarsóun - Hringrásarkerfið (2021010385)
Anna Karen Sigurjónsdóttir sjálfbærnifulltrúi mætti á fundinn og kynnti svokallaðan frískáp en það er hugtak sem sameinar orðin „frítt“ og „ísskápur“. Hugmyndin er að þangað geti fólk farið með matvæli sem það ætlar sér ekki að nýta. Með þessu er verið að stuðla að hringrásarhagkerfi og minnka matarsóun. Nú þegar eru tveir slíkir skápar starfræktir á landinu, einn í Reykjavík og annar á Höfn í Hornafirði, en mörg hundruð frískápar eru starfræktir um allan heim og eru þekktir undir heitinu freedge.
3. Betri Reykjanesbær - skautasvell og þrautabraut (2019100329)
Halldóra G. Jónsdóttir aðstoðarmaður bæjarstjóra sagði frá gangi mála varðandi skautasvell í skrúðgarði og þrautabraut við Kamb, en hvort tveggja eru verkefni tengd hugmyndum sem fengu brautargengi í hugmyndasöfnun á vefnum Betri Reykjanesbær.
Aðventusvellið var formlega opnað í skrúðgarðinum þann 18. desember s.l. og hefur það notið mikilla vinsælda, en yfir 1300 manns skautuðu á svellinu yfir hátíðarnar. Svellið verður áfram opið a.m.k. út febrúar. Gert er ráð fyrir að opið verði fimmtudaga til sunnudags en jafnframt verði tekið mið af veðri. Allar upplýsingar um svellið má nálgast á vefsíðunni adventusvellid.is og þá má fylgjast með tilkynningum og öðrum upplýsingum á facebooksíðunni Aðventusvellið.
Búið er að panta þrautabraut og er gert ráð fyrir að hún verði sett upp við Kamb í Innri-Njarðvík í sumar.
Með því að smella hér má skoða vef aðventusvellsins
Með því að smella hér má skoða facebooksíðu aðventusvellsins
4. Suðurnes til framtíðar - samfélagsgreining (2021030491)
Hilma H. Sigurðardóttir verkefnastjóri fjölmenningarmála mætti á fundinn og kynnti niðurstöður samfélagsgreiningar á Suðurnesjum. Greiningin var unnin af Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands fyrir starfshóp um samfélagsgreiningar á Suðurnesjum í tengslum við aðgerðaáætlun ríkisins um eflingu þjónustu á Suðurnesjum. Markmið hennar var að rannsaka lífsgæði, viðhorf og líðan íbúa á Suðurnesjum í þeim tilgangi að gera aðgerðir og ákvarðanatöku skilvirka og mælanlega og auka rannsóknir sem sveitarfélög og ríki geta byggt á við stefnumótun fyrir svæðið í heild og einstaka málaflokka.
Samfélagsgreining á Suðurnesjum: Lífsgæði, líðan og virkni íbúa - niðurstöður
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16:58. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 1. febrúar 2022.