47. fundur sjálfbærniráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 15. janúar 2024, kl. 08:15
Viðstödd: Guðný Birna Guðmundsdóttir formaður, Aneta Grabowska, Guðni Ívar Guðmundsson, Hjörtur Magnús Guðbjartsson, Þóranna Kristín Jónsdóttir.
Að auki sátu fundinn Anna Karen Sigurjónsdóttir sjálfbærnifulltrúi, Silja Kolbrún Skúladóttir fulltrúi ungmennaráðs og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.
1. Sjálfbærni og heimsmarkmiðin - verkefni og tillögur frá ráðum (2021010385)
Sjálfbærniráð Reykjanesbæjar hefur undanfarna mánuði farið yfir fundargerðir annarra ráða Reykjanesbæjar til að leita eftir verkefnum á hinum sviðunum sem gætu átt erindi til sjálfbærniráðs til frekari umsagnar. Sjálfbærniráði er falið, líkt og kemur fram í erindisbréfi þess, að:
„Vinna að innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun innan sveitarfélagsins.“
„Vera vettvangur umræðna um ýmis þróunarverkefni sem styðja við sjálfbæra þróun á sviðum og í ráðum og nefndum Reykjanesbæjar.“
Atvinnu- og hafnarráð Reykjanesbæjar hefur þegar sent ráðinu verkefni sem snýr að gerð áætlunar um meðferð og flokkun úrgangs og þökkum við fyrir það.
Sjálfbærniráð vill því beina því formlega til hinna ráða Reykjanesbæjar að senda inn erindi og/eða áætlanir eða verkefni sem sjálfbærniráð getur komið að og tryggt þar með markmið um sjálfbæra þróun og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.
Þóranna Kristín Jónsdóttir fulltrúi B-lista lagði fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi B-lista samþykkir ekki bókunina þar sem hér hefur verið snúið við því verklagi sem lagt var upp með innan ráðsins, að hennar mati án nægilegrar umræðu innan þess.
Fulltrúi vill vekja athygli á því að fyrirhugað hafi verið að ræða hlutverk og tilgang ráðsins en þeim dagskrárlið hafi verið frestað. Hlutverk og tilgangur hafi áhrif á hvers konar verkefni eigi heima inni á borði ráðsins og þar með m.a. hvers konar verklag sé best til þess fallið að koma þeim verkefnum á dagskrá.
Fulltrúi B-lista harmar jafnframt að misskilningur hafi orðið innan stjórnsýslunnar varðandi tilgang og fyrirkomulag umfjöllunar ráðsins um fundargerðir ráða en ekki síður að þeir aðilar sem athugasemdir hafa haft við málið hafi ekki nálgast fulltrúa í ráðinu til að óska eftir frekari upplýsingum og ræða málin. Fulltrúi telur liggja beinast við að ræða málið á næsta fundi, í framhaldi af umræðu um hlutverk og tilgang ráðsins, og nýta tækifærið til þess að leiðrétta þennan misskilning með greinargóðri umræðu innan ráðsins og bókun sem skýrir tilgang og fyrirkomulag til hlítar.
Samþykkt með þremur atkvæðum B- og D-lista að halda áfram með áður ákveðið verklag við yfirferð á fundargerðum kjörinna ráða sveitarfélagsins. Fulltrúar S-lista greiða atkvæði á móti.
2. Reykjaneshöfn - áætlun um meðferð og flokkun úrgangs (2023110128)
Sjálfbærniráð fór yfir málið og mun vinna áfram milli funda og leggja fram uppfærða áætlun á fundi ráðsins í mars.
Þóranna Kristín Jónsdóttir fulltrúi B-lista lagði fram eftirfarandi bókun:
Í samræmi við bókun í fyrsta dagskrárlið telur fulltrúi að nauðsynlegt sé að það liggi skýrt og endanlega fyrir hvaða mál eiga heima inni á borði ráðsins áður en málið er tekið fyrir. Í samræmi við það óskar fulltrúi eftir að ákvörðun um frekari aðkomu að málinu verði frestað til næsta fundar.
Samþykkt með þremur atkvæðum að málinu verði ekki frestað, Aneta Grabowska sat hjá.
3. Kosningar og fyrirkomulag (2024010180)
Jóna Hrefna Bergsteinsdóttir formaður yfirkjörstjórnar mætti á fundinn og kynnti fyrirkomulag kosninga hjá Reykjanesbæ. Mikið áhyggjuefni er hve kosningaþátttaka hefur minnkað í sveitarfélaginu og þarf að finna leiðir til að auka hana. Sjálfbærniráð óskar eftir að fá greiningu Hagstofu Íslands á kosningaþátttöku í síðustu tveimur sveitarstjórnar-, alþingis- og forsetakosningum í Reykjanesbæ. Sjálfbærniráð mun áfram halda utan um verkefnið með kjörstjórn og öðrum hagaðilum.
Sjálfbærniráð þakkar Jónu Hrefnu fyrir kynninguna og boðar hana á næsta fund ráðsins.
4. Fjórða iðnbyltingin (2023050187)
Unnið er að því að fá tilboð í greiningarvinnu og ráðgjöf varðandi stefnumótun Reykjanesbæjar í málefnum fjórðu iðnbyltingarinnar.
Þóranna Kristín Jónsdóttir fulltrúi B-lista lagði fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi B-lista leggur áherslu á mikilvægi málsins og óskar eftir að það verði sett á dagskrá næsta fundar ráðsins.
5. 30 ára afmæli Reykjanesbæjar 11. júní 2024 - afmælissjóður (2024010135)
Reykjanesbær er 30 ára í ár og því ber að fagna. Í tilefni afmælisársins hefur verið stofnaður afmælissjóður sem allir geta sótt um styrk úr vegna verkefna og viðburða sem tengjast afmælishátíðinni. Hvetur sjálfbærniráð íbúa til að sækja um styrki á vef Reykjanesbæjar. Umsóknarfrestur er til 1. febrúar 2024.
Fylgigögn:
Frétt um afmælissjóðinn á vef Reykjanesbæjar
Rafræn umsókn um styrk úr afmælissjóði Reykjanesbæjar
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10:16. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 23. janúar 2024.