48. fundur

28.02.2024 08:15

48. fundur sjálfbærniráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 28. febrúar 2024 kl. 08:15

Viðstödd: Guðný Birna Guðmundsdóttir formaður, Aneta Grabowska, Guðni Ívar Guðmundsson, Hjörtur Magnús Guðbjartsson, Þóranna Kristín Jónsdóttir.

Að auki sátu fundinn Anna Karen Sigurjónsdóttir sjálfbærnifulltrúi og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.

Silja Kolbrún Skúladóttir fulltrúi ungmennaráðs boðaði forföll.

1. Fundargerðir ráða (2023110092)

Farið var yfir fundargerðir ráða út frá sjálfbærnisjónarmiðum.

Engar athugasemdir komu frá fulltrúum sjálfbærniráðs.

2. Barna- og ungmennaþing Reykjanesbæjar 19. október 2023 - niðurstöður (2023110099)

Ólafur Bergur Ólafsson umsjónarmaður ungmennaráðs mætti á fundinn og kynnti niðurstöður Barna- og ungmennaþings Reykjanesbæjar sem haldið var 19. október 2023.

Sjálfbærniráð þakkar Ólafi Bergi Ólafssyni umsjónarmanni ungmennaráðs kærlega fyrir frábæra kynningu um barna- og ungmennaþing Reykjanesbæjar. Sjálfbærniráð mun rýna í tillögurnar milli funda og kanna hvaða atriði eiga heima hjá ráðinu til frekari skoðunar og framkvæmdar. Sjálfbærniráð vill einnig koma fram þökkum til ungmennaráðs fyrir framúrskarandi vinnu við þingið og tillögur til bæjarstjórnar og ráða Reykjanesbæjar.

Fylgigögn:

Niðurstöður Barna- og ungmennaþings Reykjanesbæjar 2023

3. Jafnréttisáætlun Reykjanesbæjar 2023-2027 - drög til umsagnar (2022080621)

Sjálfbærniráð tók saman athugasemdir varðandi jafnréttisáætlun Reykjanesbæjar 2023-2027. Ráðið lýsir yfir ánægju með áætlunina. Athugasemdum verður komið áleiðis til skjaladeildar en bæjarráð leitaði til ráða bæjarins eftir umsögnum.

Þóranna Kristín Jónsdóttir fulltrúi B-lista lagði fram eftirfarandi bókun:

„Fulltrúi B-lista vill vekja athygli á að í sumum tilfellum kalla verkefni sveitarfélagsins á virka þátttöku íbúa þar sem nauðsynlegt er að vera á staðnum. Tímasetning þeirra á hefðbundnum vinnutíma kann að vera illa til þess fallin að íbúar geti tekið þátt, s.s. atvinnu sinnar vegna. Almennur vilji er til að auka lýðræðisþátttöku og íbúalýðræði. Áhersla Reykjanesbæjar er að fundarhöld skuli vera innan vinnutíma. Þarna stangast á aðstæður fyrir aukna þátttöku íbúa og áherslur sveitarfélagsins. Mikilvægt er að finna lausn sem gerir íbúum mögulegt að taka þátt en að það lágmarki jafnframt vinnu starfsfólks Reykjanesbæjar utan vinnutíma. Fulltrúi leggur til að fjallað verði um málið af bæjarráði og lausn fundin á málinu.“

Þóranna Kristín Jónsdóttir.

4. Vefstefna Reykjanesbæjar 2024-2027 - drög til umsagnar (2023060380)

Menningar- og þjónusturáð leitaði til ráða bæjarins eftir umsögnum um vefstefnu Reykjanesbæjar 2024-2027.

Sjálfbærniráð lýsir yfir ánægju með vel unna vefstefnu og aðgerðaáætlun. Ráðið tók saman athugasemdir sem verður komið áleiðis til skjaladeildar.

5. Kosningar og fyrirkomulag (2024010180)

Jóna Hrefna Bergsteinsdóttir formaður yfirkjörstjórnar mætti á fundinn.

a. Kynning á gögnum úr síðustu kosningum í Reykjanesbæ

Anna Karen Sigurjónsdóttir sjálfbærnifulltrúi kynnti upplýsingar sem hún tók saman um kosningaþátttöku í síðustu forseta-, alþingis- og sveitarstjórnarkosningum ásamt frekari greiningum.

b. Sérvinnsla frá Hagstofunni

Sjálfbærniráð vill greina kosningarnar enn frekar og mun óska eftir fjárheimild frá bæjarráði til að fá fram sérvinnslu frá Hagstofunni varðandi Reykjanesbæ.

Sjálfbærniráð mun vinna málið áfram milli funda og mun vinna að handbók kosninga fyrir Reykjanesbæ auk þess sem ráðið mun greina kosningaþátttöku og möguleika til úrbóta.

Fylgigögn:

Kosningar og kosningaþátttaka - samantekt

6. Fjórða iðnbyltingin (2023050187)

Beðið er eftir frekari gögnum og verður málið á dagskrá næsta fundar.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10:10. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 5. mars 2024.