49. fundur sjálfbærniráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 27. mars 2024, kl. 10:30
Viðstödd: Guðný Birna Guðmundsdóttir formaður, Guðni Ívar Guðmundsson, Hafsteinn Hjartarson, Hjörtur Magnús Guðbjartsson og Þóranna Kristín Jónsdóttir.
Að auki sátu fundinn Anna Karen Sigurjónsdóttir verkefnastjóri sjálfbærnimála, Silja Kolbrún Skúladóttir fulltrúi ungmennaráðs og Íris Eysteinsdóttir ritari.
Aneta Grabowska boðaði forföll. Hafsteinn Hjartarson sat fundinn í hennar stað.
1. Fundargerðir ráða (2023110092)
Farið var yfir fundargerðir ráða út frá sjálfbærnisjónarmiðum. Engar tillögur komu frá fulltrúum sjálfbærniráðs.
2. Lýðræðisstefna Reykjanesbæjar (2023030124)
Gunnar Kristinn Ottósson skipulagsfulltrúi og Margrét Lilja Margeirsdóttir verkefnastjóri skipulagsmála mættu á fundinn. Sjálfbærniráð hefur fjallað í nokkurn tíma um fyrirhugaða lýðræðisstefnu Reykjanesbæjar og fengið til sín gesti og upplýsingar frá öðrum sveitarfélögum. Sjálfbærniráð þakkar góðum gestum fyrir komuna á fundinn og upplýsingar um íbúalýðræði. Sjálfbærniráð mun vinna áfram í málinu og vinna með lykilspurningar varðandi tilurð og markmið hverfaráða auk íbúalýðræðis.
3. Barna- og ungmennaþing Reykjanesbæjar - tillögur ungmennaráðs (2023110099)
Anna Karen Sigurjónsdóttir verkefnastjóri sjálfbærnimála hefur tekið saman drög að verkefnum og lagt til að tekið yrði strax fyrir þrjú verkefni sem hægt er að ráðast í á næstu vikum og mánuðum.
Verkefnin sem voru valin eru eftirfarandi:
• Fjölga útiflokkunartunnum á skólalóðum, í skrúðgörðum og við Fjörheima.
• Fjölga tækifærum til að ungmenni geti sagt sína skoðun á umhverfismálum.
• Bæta lýsingu í ungmennagarðinum og á Öllavelli.
Sjálfbærniráð mun fylgja verkefnunum eftir með fulltrúa ungmenna í ráðinu Silju Kolbrúnu Skúladóttur í þéttu samstarfi við Ólaf Berg Ólafsson, umsjónarmanni ungmennaráðs.
Sjálfbærniráð mun auk þess halda áfram að rýna í verkefnin og koma með verkefni sem hægt er að fara af stað með seinna á árinu og á næsta ári með tilliti til fjárhagsáætlunar.
Sjálfbærniráð vísar tillögunum til umhverfis- og skipulagsráðs til frekari skoðunar.
Þóranna Kristín Jónsdóttir (B) lagði fram samantekt og athugasemdir um tillögurnar.
Fylgigögn:
Hér má sjá samantekt Þórönnu um tillögurnar
4. Reykjaneshöfn - áætlun um meðferð og flokkun úrgangs (2023110128)
Reykjaneshöfn lagði fyrir áætlun um meðferð og flokkun úrgangs í byrjun árs. Nú hafa ráðsmenn haft tíma til að rýna skýrsluna og koma með athugasemdir. Fulltrúar ráðsins hafa frest til 10. apríl fyrir athugasemdir. Lagt er upp með að skýrslan verði lögð fram til samþykktar á næsta fundi ráðsins þann 24. apríl næstkomandi.
5. Kosningar og fyrirkomulag (2024010180)
Sjálfbærniráð leggur hér fram drög að fyrri kosningahandbók Reykjanesbæjar sem fjallar um forseta- og alþingiskosningar. Drögin voru unnin af formanni og borin undir formann yfirkjörstjórnar. Handbókin er sett upp þannig að verkefnin tengd kosningunum eru listuð upp, sett er upp tímaáætlun um hvenær verkefnin þurfa að fara af stað og tilgreint er ábyrgðarfólk innan kjörstjórnar um hvert verkefni.
Lagt er til að nefndarfólk sjálfbærniráðs fái tvær vikur til að skila inn athugasemdum um handbókina, þar til 10. apríl næstkomandi. Formaður mun í kjölfarið fara yfir athugasemdir og vinna áfram að þeirri vinnu að klára handbókina í samvinnu við formann yfirkjörstjórnar og starfsmann ráðsins. Lagt er upp með að skýrslan verði lögð fram til samþykktar á næsta fundi ráðsins 24. apríl nk.
Anna Karen Sigurjónsdóttir verkefnastjóri sjálfbærnimála fór yfir fyrstu upplýsingar um kosningaþátttöku frá Hagstofu Íslands. Að þessu sinni komu inn gögn um kjörsókn eftir bakgrunni og aldri í sveitastjórnarkosningunum árið 2022. Frekari upplýsingar verða rýndar á næsta fundi ráðsins.
6. Fjórða iðnbyltingin (2023050187)
Lagt fram tilboð í vinnu við kortlagningu á fjórðu iðnbyltingunni.
Sjálfbærniráð mun vinna málið áfram á milli funda.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 12.30. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 2. apríl 2024.