51. fundur sjálfbærniráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 22. maí 2024 kl. 17:00
Viðstaddir: Guðný Birna Guðmundsdóttir formaður, Guðni Ívar Guðmundsson, Hafsteinn Hjartarson, Hjörtur Magnús Guðbjartsson og Þóranna Kristín Jónsdóttir.
Að auki sat fundinn Anna Karen Sigurjónsdóttir verkefnastjóri sjálfbærnimála sem ritaði fundargerð.
Silja Kolbrún Skúladóttir fulltrúi ungmennaráðs boðaði forföll.
1. Fundargerðir ráða (2023110092)
Farið var yfir fundargerðir ráða út frá sjálfbærnisjónarmiðum.
Niðurstaðan var að engin mál fundust sem þörfnuðust frekari umræðu.
2. Barna- og ungmennaþing Reykjanesbæjar - tillögur ungmennaráðs (2023110099)
Sjálfbærniráð ásamt umhverfis- og skipulagsráði hittu ungmennaráð á rýnifundi þann 22. maí til að ræða tillögur þeirra sem komu fram á barna- og ungmennaþingi þeirra.
Ráðin tvö hafa þegar ákveðið að fara af stað með þrjár aðgerðir sem tilheyrðu umhverfi og samgöngukafla þingsins en þau eru: Fjölga ruslatunnum við fjölfarnar leiðir og bæta við flokkunartunnum á opnum svæðum, fjölga þeim tækifærum sem ungmenni gætu sagt skoðun sína á umhverfismálum og að bæta lýsingu á Öllavelli. Lagt er upp með að þessi verkefni fari af stað í sumar.
Sjálfbærniráð mun einnig rýna í aðgerðir ungmenna til að meta hvað sé hægt að fara af stað með í ár og hvers eigi að horfa til í fjárhagsáætlun fyrir næsta ár.
Sjálfbærniráð skorar á nefndir og ráð Reykjanesbæjar að fjalla um aðgerðir í kjölfar kynningar á niðurstöðum barna- og ungmennaþings sem eiga við þeirra málefni.
Fylgigögn:
Barna- og ungmennaþing Reykjanesbæjar 2023 - niðurstöður og tillögur
3. Aðlögunaraðgerðir vegna loftslagsbreytinga (2022110136)
Anna Karen Sigurjónsdóttir sjálfbærnifulltrúi sagði frá vinnustofu sem haldin var um styrkumsókn til LIFE-IceNap vegna innleiðingar aðlögunaráætlunar Íslands vegna loftslagsbreytinga.
Formaður sjálfbærniráðs mætti á vinnustofu um styrkumsókn til LIFE-ICENAP vegna innleiðingar aðlögunaráætlunar Íslands vegna loftslagsbreytinga hjá Veðurstofunni þann 16. maí síðastliðinn. Tilgangur fundarins var að fara yfir atriði og tillögur og draga upp meginatriði sem lögð verður áhersla á fyrir styrkinn.
Á vinnustofunni komu fram þrjú meginþemu – umhverfi, öryggi og velsæld en auk þess aukaþemu eins og sjálfbærni og miðlun.
Veðurstofan, Samband íslenskra sveitarfélaga og ráðuneyti umhverfis-, orku- og loftslagsmála tóku að sér að vinna efnið áfram og móta vinnupakka fyrir umsóknina. Þau munu miðla til hinna þegar komin verður nánari útlistun á efninu.
Næsta vinnustofa er áætluð þann 30. maí næstkomandi frá 9-12 sem fjallar um fjármál. Farið verður yfir gerð fjárhagsáætlunar fyrir aðgerðir innan ICENAP ásamt rekstraráherslum og uppgjöri. Sjálfbærniráð er hvatt til að mæta ef áhugi er fyrir því til að kynna sér verkefnið og vinnustofuna. Fundurinn verður haldinn hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga en einnig er hægt að skrá sig á fundinn á Teams.
Fylgigögn:
Aðlögunaráætlun 2025-2029 vegna loftslagsbreytinga
4. Kosningar og fyrirkomulag (2024010180)
Sjálfbærniráð hefur gefið út fyrstu kosningaskýrslu ráðsins sem fjallaði um forseta- og alþingiskosningar. Fyrirhugað er að gefa út aðra skýrslu sem fjallar um sveitarstjórnarkosningar en einnig skýrslu sem fjallar um kosningaþátttöku íbúa Reykjanesbæjar.
Til að fara af stað með það mál fór fram ígrunduð umræða í ráðinu varðandi næstu skref. Sjálfbærniráð er enn að bíða eftir gögnum frá Hagstofunni um kosningaþátttöku. Ákveðið var að fara af stað með könnun meðal íbúa varðandi þeirra afstöðu til kosninga. Einnig verður leitað til rannsóknarfyrirtækja um upplýsingar um verð og aðferðir við frekari könnun á afstöðu íbúa til kosninga.
Settar voru fram tillögur sem nánar verður unnið að fram að næsta fundi.
5. Lýðræðisstefna Reykjanesbæjar (2023030124)
Sjálfbærniráð hefur á fundum sínum rætt lýðræðisstefnu og aðkomu íbúa til bæjarins í einhverju formi, hvort sem það sé í gegnum opinberan vettvang, formleg hverfaráð eða eftir öðrum leiðum. Til að koma verkefninu af stað fór fram ígrunduð umræða í ráðinu um næstu skref til að taka málið áfram. Mikill vilji er til þess að fá íbúa úr hverfi innan sveitarfélagsins inn á næsta fund til samráðs. Settar voru fram tillögur sem nánar verður unnið að fram að næsta fundi.
6. Reykjaneshöfn - áætlun um meðferð og flokkun úrgangs (2023110128)
Drög að skýrslu lögð fram sem samþykkt verður á næsta fundi ráðsins.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl.18:31. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 4. júní 2024.