52. fundur

26.06.2024 08:15

52. fundur sjálfbærniráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 26. júní 2024 kl. 08:15

Viðstaddir: Guðný Birna Guðmundsdóttir formaður, Guðni Ívar Guðmundsson, Hafsteinn Hjartarson, Jóhanna Björk Sigurbjörnsdóttir og Þóranna Kristín Jónsdóttir.

Að auki sátu fundinn Anna Karen Sigurjónsdóttir verkefnastjóri sjálfbærnimála, Silja Kolbrún Skúladóttir fulltrúi ungmennaráðs og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.

Aneta Grabowska boðaði forföll og sat Hafsteinn Hjartarson fundinn í hennar stað.
Hjörtur Magnús Guðbjartsson boðaði forföll og sat Jóhanna Björk Sigurbjörnsdóttir fundinn í hans stað.

1. Loftslagsstefna höfuðborgarsvæðisins - kynning (2024060309)

Herdís Sigurgrímsdóttir frá VSÓ Ráðgjöf kom sem gestur á fundinn og kynnti vinnu sem fram fór við gerð loftslagsstefnu höfuðborgarsvæðisins. Einnig sat Margrét Lilja Margeirsdóttir verkefnastjóri skipulagsmála fundinn í þessu máli.

Sjálfbærniráð þakkar Herdísi fyrir góða og áhugaverða kynningu. Reykjanesbær hefur verið í samstarfi við Klappir síðan 2019 þar sem Klappir mæla og taka saman heildarmagn losunar frá sveitarfélaginu. Þessar upplýsingar eru mjög mikilvægar til að hægt sé að fylgjast með þróun mengunar, losunar á koltvísýringi og einnig til að rýna stöðuna til framtíðar og þá sérstaklega með hvaða hætti er hægt að ná fram umbótum.

Sjálfbærniráð mun vinna áfram í málinu með umræddar upplýsingar til hliðsjónar með sjónarhorn og leiðir til úrbóta í Reykjanesbæ að leiðarljósi. Reykjanesbær gaf út umhverfis- og loftslagsstefnu árið 2021 en sjálfbærniráð mun vinna að uppfærslu áætlunarinnar auk aðgerðaáætlunar sem gefin verður út í grænni áætlun Reykjanesbæjar.

2. Kosningar og fyrirkomulag (2024010180)

Ólafur Bergur Ólafsson, umsjónarmaður ungmennaráðs Reykjanesbæjar, kom sem gestur á fundinn.

Talsverðar umræður hafa verið tengdar kosningum og fyrirkomulagi þeirra en sjálfbærniráð hefur þegar gefið út handbók um forseta- og þingkosningar. Í vinnslu er næsta skýrsla sem fjallar um kosningaþátttöku. Til að fá fram nánari upplýsingar um fyrirkomulag og þátttöku kosninga hefur sjálfbærniráð beðið um ítarlegri gögn frá Hagstofu Íslands. Auk þess vill ráðið fá nánari upplýsingar frá íbúum um þeirra viðhorf til kosninga.

Til að hefja þá vinnu vildi ráðið meðal annars ræða við umsjónarmann ungmennaráðs til að fá hans sjónarmið á kosningaþáttöku ungs fólks. Sjálfbærniráð mun ræða við fleiri gesti en samhliða því setja af stað óformlega könnun meðal íbúa til að fá fram þeirra skoðun og áhuga tengt kosningum. Stefnt er að því að könnunin fari fljótlega af stað og verður henni dreift á samfélagsmiðlum. Sjálfbærniráð stefnir að vinnustofu með ungmennaráði og öldungaráði í haust.

3. Fundargerðir ráða (2023110092)

Engar tillögur um sjálfbærnimál voru í fundargerðum annarra ráða.

4. Lýðræðisstefna Reykjanesbæjar (2023030124)

Sjálfbærniráð ákvað á síðasta fundi að fá gesti frá Höfnum til að hefja umræðu við íbúa úr mismunandi hverfum bæjarins. Ekki náðist að fá gesti á þennan fund en ráðið mun reyna að fá gesti á næsta fund.

Umræður um fyrirkomulag hverfaráða og hvatningu íbúa til að koma til að ræða sína afstöðu varðandi þeirra hverfi. Sjálfbærniráð mun fjalla áfram um málið í haust.

5. Fjármál sjálfbærniráðs 2024 og undirbúningur fyrir 2025 (2024050440)

Anna Karen Sigurjónsdóttir sjálfbærnifulltrúi ásamt Guðnýju Birnu Guðmundsdóttur formanni ráðsins hafa rýnt fjárhagsáætlun sjálfbærniráðs fyrir árið í ár og það næsta.

Sjálfbærniráð, sem vinnuráð, mun halda áfram að vinna að skýrslugerð í haust þar sem lögð verður áhersla á að gefa út handbók um kosningaþátttöku og hafin verður vinna við gerð grænnar áætlunar Reykjanesbæjar. Í þeirri vinnu verður umhverfis- og loftslagsstefna Reykjanesbæjar aðlöguð ásamt aðgerðaáætlun og fjölda annarra atriða.

Mikilvægt er að miðla upplýsingum til íbúa varðandi sjálfbærni- og umhverfismál og mun sjálfbærniráð koma fram með tillögur að upplýsingagjöf fyrir íbúa Reykjanesbæjar. Sú vinna hefst í haust.

Þegar kemur að sjálfbærni- og umhverfismálum vill sjálfbærniráð nýta fjármagn sitt til eflingar þeirra mála og byrja að horfa til úrgangsmála. Þegar kemur að grenndarstöðvum hefur verið rætt að fjölga þurfi þeim í sveitarfélaginu en auk þess þurfi að bæta aðgengi að þeim með malbikun, lýsingu og myndavélavöktun. Mun sjálfbærniráð ásamt umhverfis- og framkvæmdasviði fara af stað í þá vinnu strax í sumar. Auk þess mun sjálfbærniráð kaupa endurvinnslutunnur sem settar verða á valda staði í sveitarfélaginu.

Drög að fjárhagsáætlun næsta árs kynnt fyrir ráðinu en unnið verður áfram að útfærslu áætlunarinnar í haust.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10:20. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarráðs 27. júní 2024.