53. fundur

28.08.2024 08:15

53. fundur sjálfbærniráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 28. ágúst 2024 kl. 08:15

Viðstaddir: Guðný Birna Guðmundsdóttir formaður, Guðni Ívar Guðmundsson, Sverrir Bergmann Magnússon og Þóranna Kristín Jónsdóttir.

Að auki sátu fundinn Anna Karen Sigurjónsdóttir verkefnastjóri sjálfbærnimála og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.

Hjörtur Magnús Guðbjartsson boðaði forföll og sat Sverrir Bergmann Magnússon fundinn í hans stað. Aneta Grabowska boðaði ekki forföll.

1. Reykjaneshöfn - áætlun um meðferð og flokkun úrgangs (2023110128)

Guðný Birna Guðmundsdóttir formaður sjálfbærniráðs lagði fram lokadrög að áætlun um meðferð og flokkun úrgangs. Áætlunin hefur verið unnin í samstarfi hafnarstjóra Reykjanesbæjar, atvinnu- og hafnarráðs og sjálfbærniráðs.

Fyrir fundinum liggja lokadrög að áætluninni fyrir sjálfbærniráð til samþykktar en áætlunin fer síðan til lokayfirlesturs til hafnarstjóra til formlegrar samþykktar.

Í áætluninni liggur fyrir hvernig eigi að fara með flokkun úrgangs og meðferð í samræmi við lög og reglugerðir auk þess sem horft verður til sjálfbærnimarkmiða Sameinuðu þjóðanna.

Sjálfbærniráði þykir mikilvægt að vinna við áætlunina hafi komið fyrir ráðið sem náði að vinna að þessu mikilvæga málefni með Reykjaneshöfn.

2. Kosningar og fyrirkomulag (2024010180)

a. Íbúakönnun um kosningaþátttöku

Sjálfbærniráð tók ákvörðun um að setja fram stutta óvísindalega könnun um kosningaþátttöku íbúa varðandi sveitarstjórnarkosningarnar árið 2022. Könnunin var send út mánudaginn 26. ágúst og verður í birtingu í 10 daga. Könnunin er á þremur tungumálum, íslensku, ensku og pólsku, til að ná til sem flestra íbúa. Niðurstöðurnar verða kynntar á næsta fundi sjálfbærniráðs. Könnunina má finna á heimasíðu og á Facebook síðu Reykjanesbæjar og einnig á Facebook síðunni Reykjanesbær, gerum góðan bæ betri.

Sjálfbærniráð hvetur íbúa og starfsfólk Reykjanesbæjar til að taka þátt með því að svara könnuninni.

Með því að smella hér má taka þátt í könnun um kosningaþátttöku

b. Gögn frá Hagstofunni

Anna Karen Sigurjónsdóttir sjálfbærnifulltrúi kynnti gögn sem bárust frá Hagstofunni varðandi kosningar í Reykjanesbæ. Sjálfbærniráð mun rýna niðurstöðurnar nánar.

3. Heimsókn til sorporkustöðvar í Finnlandi (2024080177)

Talsvert hefur verið rætt um möguleikann á sorporkustöð í Helguvík og möguleikum sem því fylgja. Hægt er að lesa sér nánar til um verkefnið á vefnum Skör ofar – áhættugreining, https://www.samband.is/vidburdir/skor-ofar-ahaettugreining/ þar sem Samband íslenskra sveitarfélaga hefur tekið saman efnið Skör ofar um verkefnið.

Ljóst er að um er að ræða stórt verkefni og til að fræðast betur um starfsemi slíkra stöðva er fyrirhuguð ferð til Finnlands til að skoða slíka stöð. Reykjanesbær hefur ákveðið að senda þrjá fulltrúa í ferðina, Önnu Karen Sigurjónsdóttur sjálfbærnifulltrúa auk formanns sjálfbærniráðs og eins fulltrúa frá minnihluta bæjarstjórnar. Hópurinn mun taka saman skýrslu um heimsóknina og kynna niðurstöður fyrir sjálfbærniráði.

Með því að smella hér má skoða upplýsingar um verkefnið Skör ofar - áhættugreining á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga

4. Lýðræðisstefna Reykjanesbæjar (2023030124)

Þorsteinn Stefánsson og Daníel Ásgeir Ólafsson, íbúar í Innri-Njarðvík, mættu á fundinn.

Sjálfbærniráð hefur viljað, í tengslum við myndun á lýðræðisstefnu Reykjanesbæjar sem er í mótun, eiga samtal við íbúa til að fá fram hugmyndir og vangaveltur um aukið samráð við sveitarfélagið. Sjálfbærniráð bauð íbúum í Innri-Njarðvíkurhverfi að koma sem gestir á fundinn til að ræða fyrirhugaða lýðræðisstefnu og hvernig sú stefna gæti nýst íbúum sem best.

Sjálfbærniráð þakkar gestum kærlega fyrir komuna og þær góðu hugmyndir sem komu þar fram. Sjálfbærniráð mun vinna áfram í málinu í samvinnu við hagaðila.

5. Fjármál sjálfbærniráðs 2024 og undirbúningur fyrir 2025 (2024050440)

a. Fjárhagsóskir sjálfbærniráðs fyrir árið 2025 lagðar fram

Formaður sjálfbærniráðs og sjálfbærnifulltrúi hafa sett fram áherslur um verkefni fyrir fjárhagsáætlun næsta árs en auk þess farið yfir verkefni sem eru möguleg á árinu 2024.

Vinna við fjárhagsáætlun fer af stað í vikunni og mikilvægt að áherslur ráðsins séu skýrar og kostnaðargreindar fyrir þá vinnu.

Sjálfbærniráð samþykkir fjárhagsóskir sjálfbærniráðs fyrir árið 2025 og ítrekar mikilvægi sjálfbærnimála til framtíðar.

b. Græna planið

Reykjavíkurborg hefur gefið út Græna planið sem er heildarstefna sem dregur upp framtíðarsýn borgarinnar til ársins 2030. Planið tengir einnig saman hinar ýmsu stefnur og áætlanir í þá framtíðarsýn.

Í lykilkafla plansins um græna borg eru tekin saman atriði tengd sjálfbærnimarkmiðum líkt og aðlögun að loftslagsbreytingum, hvernig má vinna að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda o.s.frv. Vinnan er mjög góð og til fyrirmyndar og vill sjálfbærniráð stefna að slíkri vinnu fyrir hönd Reykjanesbæjar.

Sjálfbærniráð er sammála um mikilvægi slíkrar stefnu fyrir sveitarfélagið og tengingar við aðrar stefnur líkt og umhverfis- og loftslagsstefnu sveitarfélagsins auk fleiri atriða.

Sjálfbærniráð vísar umræðunni til bæjarráðs til frekari umræðu en vinna við stefnuna mun að mestu leyti eiga sér stað innan ráðsins.

6. Þróun mælaborðs (2023090352)

Sjálfbærniráð vill þróa mælaborð með upplýsingum fyrir íbúa varðandi umhverfis- og loftslagstengd málefni.

Sjálfbærniráð er sammála því að auknar upplýsingar séu yfirleitt betri og í hag íbúa. Í ljósi aukinnar vinnu við að kortleggja úrgangsmál, sjálfbærnimál og önnur mál sem varða umhverfi okkar sveitarfélags, telur sjálfbærniráð réttast að slíkar upplýsingar séu birtar fyrir íbúa á heimasíðu Reykjanesbæjar og/eða til viðbótar við gagnatorgið.

Sjálfbærniráð vísar málinu til frekari umræðu í bæjarráði en vinna við mælaborðið yrði unnin að mestu innan ráðsins.

7. Sjálfbærniuppgjör Klappa fyrir Reykjanesbæ (2021010385)

Sjálfbærniuppgjör Klappa lagt fram. Sjálfbærniráð mun rýna skýrsluna milli funda til að vinna að tækifærum til umbóta séu þau til staðar.

8. Uppbygging gróðurhúsa og borun eftir jarðsjó við Patterson svæðið (2023100048)

Bæjarráð óskar eftir umsögn sjálfbærniráðs varðandi matsskyldufyrirspurn um uppbyggingu gróðurhúsa og borun eftir jarðsjó við Patterson svæðið. Skýrslan kynnt fyrir sjálfbærniráði en meðlimir ráðsins munu senda ábendingar til formanns komi þær fram.

Fylgigögn:

Uppbygging gróðurhúsa og borun eftir jarðsjó við Patterson svæðið - matsskyldufyrirspurn


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10:08. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 3. september 2024.