54. fundur sjálfbærniráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 25. september 2024 kl. 08:15
Viðstaddir: Guðný Birna Guðmundsdóttir formaður, Aneta Grabowska, Guðni Ívar Guðmundsson, Hjörtur Magnús Guðbjartsson.
Að auki sátu fundinn Anna Karen Sigurjónsdóttir sjálfbærnifulltrúi, Silja Kolbrún Skúladóttir fulltrúi ungmennaráðs og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.
Þóranna Kristín Jónsdóttir boðaði forföll.
1. Græn stefna Reykjanesbæjar - undirbúningur (2024090580)
Vinna við grænu stefnuna hefst á næsta ári.
2. Upplýsingar um sjálfbærnimál á vef Reykjanesbæjar (2024090584)
Sjálfbærniráð fór yfir ýmsar tölulegar upplýsingar er varða sjálfbærnimál, losun sveitarfélagsins, upplýsingar um sorpflokkun auk fleiri atriða. Rætt var um hvaða upplýsingum þykir gott og gagnlegt fyrir íbúa að geta leitast eftir og hvernig framsetningu þeirra væri best háttað. Verkefnið verður unnið nánar með hagdeild Reykjanesbæjar.
3. Kosningar og fyrirkomulag - niðurstöður úr skoðanakönnun (2024010180)
Sjálfbærniráð sendi könnun á samfélagsmiðla sem fjallaði um kosningaþáttöku íbúa Reykjanesbæjar í síðustu sveitarstjórnarkosningum árið 2022. Könnunin var opin í 10 daga og var á íslensku, ensku og pólsku. Þetta fyrirkomulag var ákveðið til að reyna að fá fram hvernig hlutföllin væru milli íbúa sem kjósa og þeirra sem kjósa ekki ásamt því að reyna að fá fram ástæður fyrir því ef íbúar væru ekki að kjósa.
Niðurstöður leiddu í ljós að alls svöruðu 1.064 einstaklingar könnuninni.
Svarhlutfall milli kynja var nokkuð jafnt. Flest sem svöruðu voru á aldrinum 40-44 ára. Alls búa 53% þeirra sem svöruðu í Keflavík og næst flestir í Innri-Njarðvík eða 24%. Langflestir sem svöruðu könnuninni eða 87% mættu á kjörstað í kosningunum, 4% mættu utan kjörfundar en 9% sögðust ekki hafa kosið.
Sjálfbærniráð mun rýna verkefnið um kosningaþátttöku íbúa nánar og þakkar íbúum kærlega fyrir þátttökuna.
4. Stefna um starfsmannaíbúðir á Suðurnesjum - beiðni um umsögn (2024080039)
Sjálfbærniráð tekur undir mikilvægi þess að stefna sé til staðar í sveitarfélaginu er varðar íbúðir fyrir starfsfólk. Mjög mikil ásókn er í íbúðir af öllum stærðum í sveitarfélaginu og hefur verið undanfarin ár.
Sjálfbærniráð telur mikilvægt að taka náið samtal um framtíð starfsmannaíbúða í sveitarfélaginu og staðsetningu þeirra áður en ráðist er í formlega stefnu um málið. Einnig er mikilvægt að slík stefna samræmist framtíðarsýn sveitarfélagsins.
Mikilvægt er að umhverfis- og skipulagsráð fari heildrænt yfir málið og ef hugmyndin um deilihúsnæði verði valin sem hagkvæmasta lausnin til að leysa húsnæðisvanda starfsfólks, er eðlilegt að greina hversu mikið húsnæði þurfi og skipuleggja þau um allt sveitarfélagið, ekki einungis í eitt hverfi þess.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 9:28. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 1. október 2024.