189. fundur umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 11.10.2016 kl. 17:00.
Viðstaddir: Eysteinn Eyjólfsson formaður, Magnea Guðmundsdóttir, Jóhann Snorri Sigurbergsson, Guðni Jósep Einarsson og Arnar Ingi Tryggvason
Gestir: Guðlaugur H. Sigurjónsson, Sveinn Númi Vilhjálmsson, Einar Júlíusson, Sigmundur Eyþórsson og Dóra Steinunn Jóhannsdóttir ritari.
1. Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa nr. 224 (2016010191)
Lagt fram.
2. Gjaldskrá byggingafulltrúa (2016090070)
Vísað til bæjarráðs.
3. Endurskoðun Aðalskipulags, heimild til auglýsingar (2015020120)
Stýrihópur vegna endurskoðunar aðalskipulags leggur fram gögn til samþykktar sem í framhaldi þarf að senda til athugunar Skipulagsstofnunar skv. 3. mgr. Heimild til auglýsingar skv. 31.gr kemur í framhaldi af afgreiðslu Skipulagsstofnunar.
Uppdrættir, greinargerð og umhverfisskýrsla samþykkt til auglýsingar og sendist til athugunar Skipulagsstofnunar að lokinni samþykkt bæjarstjórnar.
4. Flugvellir deiliskipulag (2015120057)
Deiliskipulagið var auglýst frá 18. ágúst með athugasemdafresti til 29. september 2016. Athugasemdir bárust frá einum húseiganda við Iðavelli. (sjá meðfylgjandi bréf)
Drög að svörum við athugasemdum við deiliskipulagstillögu Flugvalla vegna Iðavalla 5b.
1) Það er rangt sem segir í athugasemdum að rekja megi þá afstöðu sveitarfélagsins að breyta lóðamörkum Iðavalla 5b og Flugvalla 6, þannig að þau verði 10 m frá vesturgafli hússins að Iðavöllum 5b, til ákvörðunar byggingarfulltrúa frá mars 2016 um að stækka lóð Flugvalla 6. Hið rétta er að ákvörðun byggingarfulltrúa var í samræmi við þá ákvörðun sveitarfélagsins að færa vesturmörk lóða við Iðavelli um 6,85 metra til vesturs í fyrirhuguðu deiliskipulagi og fella þannig samsvarandi spildu í eigu bæjarfélagsins, sem áður var milli lóða á svæðinu, undir lóðirnar við Iðavelli. Þessi ákvörðun hafði þar að auki komið til framkvæmda hvað lóðina að Flugvöllum 6 varaðar þegar á árinu 2008, sbr. þinglýsta yfirlýsingu um stækkun lóðar dags. 21. júlí 2008, sem hér með fylgir. Byggingarfulltrúi breytir ekki lóðarmörkum en getur mælt út ný lóðarmörk á grundvelli fyrirliggjandi ákvörðunar sveitarstjórnar.
2) Yfirlýsing um breytt lóðarmörk milli Iðavalla 5b og Flugvalla 6 frá 2008 hefur ekki lengur neina þýðingu og hefur ekki haft lengi. Um var að ræða samkomulag þáverandi lóðarhafa Flugvalla 6 og annars tveggja lóðarhafa Iðavalla 5b, sem framkvæmdastjóri Umhverfis- og skipulagssviðs áritaði um samþykki f.h. Reykjanesbæjar. Samkomulagið varð hins vegar aldrei bindandi þar sem á skorti samþykki meðeiganda að Iðavöllum 5b auk þess sem breyting lóðarmarka var háð samþykki bæjarstjórnar, sbr. 1. mgr. 30. gr. þágildandi skipulag- og byggingarlaga nr. 73/1997, enda lá ekki fyrir samþykkt um heimild skipulagsfulltrúa eða skipulagnefndar til fullnaðarafgreiðslu slíkra mála. Þar sem aldrei var gengið frá breytingunni var umræddu samkomulagi (yfirlýsingu) ekki þinglýst. Aðilum samkomulagsins mátti vera ljóst að ekki hefði verið gengið frá því með fullnægjandi hætti og bar eiganda Iðavalla 5.b að gera reka að því að málinu yrði lokið ef hann vildi tryggja réttindi sín til frambúðar. Eftir að umrætt samkomulag var gert hafa báðar eignirnar verið seldar og þá vísað til þinglýstra lóðarleigusamninga þar sem lóð Iðavalla 5b er sögð vera 2.310 m² en hún verður eftir þá stækkun sem deiliskipulagið gerir ráð fyrir 66 x 40 m, eða 2640 m². Sérstaka þýðingu hefur að fasteignin Flugvellir 6 var seld nauðungarsölu 17. september 2014 og féll við það í síðasta lagi niður tilkall eiganda Iðavalla 5.b til umræddrar 5 metra spildu úr lóð Flugvalla 6, sbr. 5. mgr. 129. gr.l. nr. 91/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. sbr. einnig 2. mgr. 56. gr. laga um nauðungarsölu nr. 90/1991. Gildir þá einu þótt mörk lóðanna hafi verið girt með öðrum hætti enda þurfti ekki að felast í því annar og meiri réttur en til tímabundinna afnota meðan um þau var samkomulag beggja lóarhafa. Fól sú afmörkun lóðanna sem byggingarfulltrúi gerði í mars 2016 aðeins í sér staðfestingu á rétti lóðarhafa Flugvalla 6 og var hún gerð að hans ósk. Af framangreindum ástæðum er jafnframt ljóst að ekki var í raun um neina breytingu á réttum lóðarmörkum að ræða sem hefði getað farið í bága við ályktun umhverfis- og skipulagsráðs frá 8. desember 2015, enda var lóðin eins og hún var afmörkuð 23. 3. 2016 nákvæmlega sú sama og hún var samkvæmt áður nefndir þinglýstri yfirlýsingu dags. 21. júlí 2008. Það er því einnig rangt sem skilja má af fyrirliggjandi athugasemdum að breyting á lóð Flugvalla 6 hafi verið skráð í fasteignaskrá í mars 2016, hið rétta er að lóðin hefur verið skráð 6.426 m² allar götur frá árinu 2008 þegar hún var afmörkuð eins og hún er nú. Staðfesting byggingarfulltrúa varðandi margnefnd lóðarmörk hinn 23. 11. 2015 hefur takmarkaða þýðingu þar sem ekki verður séð að leitað hafi verið afstöðu lóðarhafa Flugvalla 6 áður en hún var látin í té, þrátt fyrir augljósa hagsmuni hans og aðild að ákvörðun um mörk lóðanna.
3) Hafi eitthvað skort á að við töku ákvarðana um breytt mörk nefndra lóða hafi verið gætt ákvæða stjórnsýslulaga er því hafnað að það hafi nokkra þýðingu um gildi þess skipulags sem um ræðir. Ákvarðanir í skipulaginu um mörk lóða eru studdar málefnalegum rökum og standa þær óháð því hvort með þeim hafi verið raskað meintum rétti einstakra lóarhafa, enda er þeim þá tryggður réttur til skaðabóta þegar skipulagið kemur til framkvæmda, sbr. bóta- og eignarnámsákvæðin í 50. og 51. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Skipulagsákvarðanir eru stjórnvaldsfyrirmæli en ekki stjórnvaldsákvarðanir og fer um gerð og undirbúning deiliskipulags að ákvæðum skipulagslaga en ekki stjórnsýslulaga. Hefur ekki verið sýnt fram á að ekki hafi verið farið að réttum lögum við gerð þeirrar deiliskipulagstillögu sem hér um ræðir.
4) Deiliskipulagstillagan er í samræmi við gildandi aðalskipulag. Um er að ræða annars vegar svæði fyrir verslun og þjónustu og hins vegar þegar byggt athafnasvæði, áður iðnaðarsvæði. Umræða í athugasemdum um landnotkun einstakra lóða, svo sem fyrir bílaleigur, á ekki við þar sem notkun einstakra lóða er ekki bundin í skipulagi heldur er hún ákvörðuð með almennum hætti. Eru engin áform uppi um að leyfa á svæðinu aðra starfsemi en þá sem fellur að skilgreindri landnotkun, en grunnur að henni er lagður í aðalskipulagi.
5) Ekki er gerð sú krafa að í deiliskipulagi séu sett tímamörk um það hvenær einstök atriði þess skuli koma til framkvæmda. Athugasemd sem lýtur að því að upplýst sé um það hvenær akstursleið um Iðavelli verði lokað er því ekki réttmæt. Lokunin felur í sér breytingu til hagsbóta fyrir lóðarhafa við Iðavelli en þeir verða að una núverandi ástandi þar til skilyrði hafa skapast til umæddrar lokunar, sem háð er öðrum framkvæmdum.
Samkvæmt framansögðu er ekkert í fyrirliggjandi athugasemdum sem þykir gefa tilefni til breytinga á tillögu að deiliskipulagi Flugvalla og lóða vestan Iðavalla.
Varðandi kvöð um göngu- og lagnaleið sem liggur yfir lóðirnar Iðavelli 5 og Flugvelli 6 á uppdrætti, þá misritaðist í greinargerð þannig að í stað nr. 5 stóð nr. 7 við Iðavelli og hefur það verið leiðrétt í greinargerðinni þannig að kvöðin er á Iðavöllum 5 og Flugvöllum 6, eins og sýnt er á uppdrætti.Í greinargerð hefur einnig verið bætt ákvæðum um lýsingu (ljósafar) á lóðum.
Meðfylgjandi er þinglýst yfirlýsing dags. 21. 7. 2008 ásamt mæliblaði.
Deiliskipulagið samþykkt og sendist Skipulagsstofnun til yfirferðar skv. 42.gr Skipulagslaga
5. Flugvellir 2 og 4 - Lóðarumsókn (2016100077)
Brimborg ehf. sækir um lóðirnar Flugvellir 2 og 4 undir bílaleigu og þjónustu fyrir bíla.
Samþykkt að úthluta lóð Flugvellir 4 með fyrirvara um samþykki skipulags. Úthlutun á lóð Flugvellir 2 er frestað.
6. Endurvinnsla jarðefna - Jarðsvegs tippur Reykjanesbæ ( 2016100079)
Lea ehf. leggur fram tillögu um að yfirtaka rekstur og umráð jarðvegs tipps Reykjanesbæjar að Innri Skor á Stapa og m.a. setja þar upp endurvinnslu jarðefna (sjá meðfylgjandi erindi).
Umhverfis- og skipulagsráð þakkar góðar tillögur en ef og þegar þessi starfssemi verður einkavædd þá mun sveitafélagið bjóða hana út á almennum markaði eins og vera ber hjá opinberum aðila.
7. Afreksbraut - Bílastæði (2016100080)
Stjórn knattspyrnudeildar UMFN fer þess á leit við Reykjanesbæ, að deildin fái til umráða hluta af bílastæðum sem eru við knattspyrnuvöll deildarinnar við Afreksbraut og bjóða þau til útleigu til t.d. bílaleiga (sjá meðfylgjandi mynd).
Umhverfis- og skipulagsráð samþykkir ekki tillöguna þar sem svæðið er ætlað sem skammtímastæði til almennra nota.
8. Hafnargata 12 - Tillaga að fjöleignarhúsi - Hrífufang ehf. (2016010194)
Hrifufang ehf. óskar eftir afstöðu Reykjanesbæjar til að byggja 74 íbúða 3 hæða fjölbýlishús með bílakjallara á lóð þeirra Hafnargötu 12 (sjá meðfylgjandi gögn ).
Þar sem um mikinn fjölda af íbúðum er að ræða þá verður að breyta gildandi deiliskipulagi. Umhverfis- og skipulagsráð heimilar lóðarhafa að gera tillögu að breytingu á gildandi deiluskipulagi á sinn kostnað og leggja fyrir ráðið til frekari umfjöllunar. Ráðið leggst gegn því að ekki verði byggt hærri en þrjár hæðir.
9. Flugvellir 14 og 18 - Lóðarumsókn (2016100083)
OMR verkfræðistofa sækir um lóðirnar Flugvellir 14 og 18.
Samþykkt með fyrirvara um samþykki deiliskipulags.
10. Suðurvellir 9 - Fyrirspurn um raðhús (2016030097)
Handhafar lóðarinnar Suðurvellir 9, F1 ehf. óska eftir leyfi til að byggja 4. Íbúða raðhús á einni hæð á lóðinni skv. meðfylgjandi tillögu gögnum Verkfræðistofu Suðurnesja dags. Okt 2016.
Sendist í grenndarkynningu með þeirri breytingu að aðkoma verði innan lóðar Suðurvalla 9.
11. Mánagrund 0 - Félagsheimili hestamanna - Gistiaðstaða (2016100086)
Bílaleiga Flugleiða spyrst fyrir hvort leyfi fengist til að breyta notkun félagsheimilis í gistiaðstöðu fyrir starfsmenn bílaleigunna
Hafnað þar sem áætlun um breytta notkun félagsheimilisins samræmist ekki skipulagi svæðisins.
12. Starfs- og fjárhagsáætlun 2017 (2016100109)
Sviðsstjóri fór yfir málið.
Fleira ekki gert og fundi slitið. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 18. október 2016.