214. fundur Umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar, haldinn að Tjarnargötu 12 þann 24.8.2018 kl. 08:15.
Viðstaddir: Eysteinn Eyjólfsson, Gunnar Felix Rúnarsson, Helga María Finnbjörnsdóttir, Ríkharður Ibsen, Róbert Jóhann Guðmundsson.
Starfsmenn: Guðlaugur H. Sigurjónsson sviðsstjóri, Gunnar K. Ottósson, skipulagsfulltrúi, Sigmundur Eyþórsson tæknifulltrúi, Dóra Steinunn Jóhannsdóttir ritari.
1. Kosning formanns, varaformanns og ritara (2018080339)
Áður hefur verið kosið um formann og varaformann. Ríkharður Ibsen var kosinn ritari.
2. Samráðs og afgreiðslufundur byggingarfulltrúa nr. 252 (2018020089)
Lagt fram.
3. Erindi um heimild til niðurrifs Framnesvegi 9 (2016010192)
Vatnsnessteinn ehf. sækir um niðurrif á fyrrum Sundhöll Keflavíkur, Framnesvegi 9. Erindi var tekið fyrir á fundi ráðsins 13. mars 2018 en frestað þar sem deiliskipulag lá ekki fyrir. Minjastofnun lét vinna mat á varðveislugildi byggingarinnar að ósk húsafriðunarnefndar. Mat á varðveislugildi greinargerð Gullinsnið ehf. Sundhöll Keflavíkur, mat á varðveislugildi, dagsett 5. júlí 2018. Niðurstaða Minjastofnun Íslands í bréfi dagsettu 14. ágúst 2018 er að „Í ljósi málsatvika og að teknu tilliti til faglegrar niðurstöðu húsafriðunarnefndar á varðveislugildi Sundhallar Keflavíkur telur Minjastofnun Íslands sér ekki fært að eiga frumkvæði að leggja fram tillögu að friðlýsingu hússins við Mennta- og menningarmálaráðherra.“
Nú liggur samþykkt deiliskipulag fyrir og álit Minjastofnunar. Í ljósi fyrirliggjandi gagna samþykkir Umhverfis- og skipulagsráð umsókn um byggingarleyfi um niðurrif.
4. Erindi um íbúðareiningar (2018080093)
Víkurröst ehf. leggur fram erindi með ósk um heimild til að setja niður íbúðaeiningar úr háþekjugámum á lóð félagsins við Víkurbraut 6 til þess að leysa húsnæðisvanda heimilislausra í Reykjanesbæ. Velferðarsvið Reykjanesbæjar hefur ekki skilað inn umsögn.
Erindi frestað.
5. Hafnargata 12 - Breyting á deiliskipulagi (2016010194)
Hólsfjall ehf. óskar eftir heimild og leggur fram tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir Hafnargötu 12 með erindi dagsettu 16.08.2018.
Samþykkt er heimild til að vinna tillögu að deiliskipulagsbreytingu í samvinnu við skipulagsfulltrúa.
6. Tjarnargata 29 - Niðurstaða grenndarkynningar (2018060167)
Grenndarkynningu er lokið. Tvær athugasemdir bárust sem mótmæla staðsetningu bílastæðis vegna þess að það fækkar mögulegum bílastæðum í götunni.
Ein orsök meints skorts á bílastæðum er rekstur bílapartasölu í götunni. Önnur ástæða er staðsetning gróðurkerja á götu. Tekið er undir að fjöldi bílastæða á lóðum er ekki alltaf í samræmi við bílaeign. En bílum sem ekki er pláss fyrir á lóð er lagt við götu. Fjölgun bílastæða á lóðum, sem fækkar bílum við götu, bætir þá ásýnd götunnar. Blómaker verða færð. Rekstur bílapartasölu samræmist ekki skilmálum aðalskipulags um íbúðasvæði. Erindi er samþykkt.
7. Reynidalur 3-13 - Niðurstaða grenndarkynningar (2017030187)
Níu mótmæli bárust þar af mótmælalisti með 8 nöfnum íbúa.
Efnislega er því mótmælt að útlitsbreyting væntanlegar byggingar við það að vera fjölbýli rýri verðgildi nærliggjandi eigna, fjölgun íbúða valdi auknu ónæði vegna fjölgunar íbúa og aukinnar umferðar. Einnig er bílastæðaskorti mótmælt og að breyting sé fordæmisgefandi á neikvæðan hátt.
Sjarmi og útlit: Ekki er hægt að taka undir að fjölbýli séu rýrari í útliti en sérbýli vegna eðlis þeirra. Ágætis dæmi er Reynidalur 1 sem er fjölbýli og er til prýði, en íbúar þar leggja fram þessi mótmæli.
Aukið ónæði vegna fjölgunar nágranna og umferðar. Rúmgott grænt svæði aðskilur byggingar og aukning um 6 íbúðir verður ekki til þess að mikill mannfjöldi valdi ónæði. Reynidalur tengir saman Dalsbraut og Brekadal um Víðidal svo búast má við umferð um götuna annarra en íbúa, svo fjölgun íbúða um 6 hefur hverfandi áhrif.
Í Dalshverfi 2 er samkvæmt skilmálum deiliskipulags 13 raðhús á tveimur hæðum. Níu húsum hefur verið breytt, tvö eru í breytingaferli eða þess óskað en eitt er óbreytt. Almennt er lítil eftirspurn eftir tveggja hæða rað- og parhúsum miðað við framboð samkvæmt samþykktu deiliskipulagi og hefur ákveðin leiðrétting á því átt sér stað undanfarin ár. Fordæmið hefur verið sett.
Mótmælt er fjölda bílastæða sem miðast við 1,6 stæði á lóð eða alls 19 stæði. Gert er ráð fyrir í almennum skilmálum að 1,8 stæði fylgi fjölbýli við lífæð, en tvö annars. Vikið hefur verið frá þessu þegar um er að ræða fjölbýli með smáum íbúðum. Réttilega er bent á að ekki koma fram rökstuddar ástæður um verulega eftirgjöf varðandi bílastæðakröfu.
Umhverfis- og skipulagsráð samþykkir erindið um breytingu á deiliskipulagi en setur þó bílastæðakröfu um 1,8 stæði á íbúð eða 21 stæði á lóð.
8. Austurgata 10 - Niðurstaða grenndarkynningar (2018060168)
Grenndarkynningu er lokið. Ein athugasemd barst þar sem lýst er áhyggjum af ónæði vegna umferðar að húsinu fyrir gesti nærliggjandi hótels. Ekki er gerð athugasemd við væntanlegan rekstur.
Íbúar, gestir og rekstraraðilar í miðbæ Reykjanesbæjar mega búast við umferð allan sólarhringinn, sem fer vaxandi með fjölgum íbúa og aukningu ferðamanna. Nokkur skipulagserindi hafa verið samþykkt vegna lóða neðarlega á Hafnargötu og búast má við vaxandi umferð um Ægisgötu, sérstaklega fólksflutningabíla, en umferð þeirra er bönnuð um Hafnargötu neðan gatnamóta við Vatnsnesveg vegna þungatakmarkana.
Umhverfis og skipulagsráð samþykkir erindið, dagsett 16. júní 2018.
9. Lágseyla 3 - Fyrirspurn um lóðarstækkun (2018080346)
Jóhann Búason og Eygló Sigtryggsdóttir óska eftir lóðastækkun um 4m til suðurs. Lóðin liggur að opnu svæði.
Samþykkt að senda í grenndarkynningu.
10. Verndarsvæði í byggð (2016090211)
Samþykkt var í bæjarstjórn 20. september 2017 að framkvæma mat samkvæmt lögum um verndarsvæði í byggð nr. 87/2015.
Greinargerð með tillögu um verndarsvæði er tilbúin og er samþykkt að auglýsa hana samkvæmt 2. gr. reglugerðar nr. 575 um verndarsvæði í byggð.
11. Hólagata 19 - Óveruleg breyting á aðalskipulagi (2017040112)
Ágallar voru á framsetningu og málsmeðferð að mati skipulagsfulltrúa og óskað er eftir að erindið sé tekið fyrir að nýju. Breytingin fellst í að viðskipta og þjónustusvæði er breytt í miðsvæði. Svæðið hefur ekki númer og ekki er gerð grein fyrir því í greinargerð aðalskipulags.
Vísað til heildarendurskoðunar aðalskipulags Reykjanesbæjar.
12. Pósthússtræti 5-9 - Breyting á aðalskipulagi (2018040062)
skipulagsstofnun gerði athugasemdir við málsmeðferð og framsetningu með bréfi dagsettu 09.08.2018 og taka þarf breytingatillöguna fyrir að nýju sbr. 1. mgr. 32. gr. skipulagslaga. Lögð eru fram lagfærð skipulagsgögn: uppdráttur dagsettur 15.08.2018, umsögn Heilbrigðiseftirlits dagsett 16.08.2018 og umsögn skipulagsfulltrúa dagsett 17.08.2018.
Breytingatillagan er send til afgreiðslu skipulagsstofnunar, sbr. 2. mgr. 32. gr. skipulagslaga.
13. Bergás 7 - Lóðarumsókn (2018080348)
Doddson sf. sækir um lóðina Bergás 7.
Úthlutun samþykkt.
14. Bergás 9 - Lóðarumsókn (2018080350)
Þórarinn Guðjón Ólason sækir um Bergás 9.
Úthlutun samþykkt.
15. Urðarás 13 - Lóðarumsókn (2018080349)
Doddson sf. sækir um lóðina Urðarás 13.
Úthlutun samþykkt.
16. Völuás 2 - Lóðarumsókn (2018080334)
Ívar Rafn Þórarinsson sækir um lóðina Völuás 2.
Úthlutun samþykkt.
17. Gónhóll-Melavegur - Lóðarumsókn (2018080351)
Friðrik Ragnarson sækir um lóð á mótum Gónhóls og Melavegs.
Lóðin er ekki laus til úthlutunar. Þarna er grænt svæði í dag og ekki skilgreint sem íbúðalóð, en innan íbúðasvæðis samkvæmt aðalskipulagi. Samkvæmt reglum Reykjanesbæjar um lóðaveitingar þarf að auglýsa allar lóðir þegar þær eru lausar til úthlutunar í fyrsta sinn. Að öðrum kosti skulu lóðir boðnar út. Erindi hafnað.
18. Almenningssamgöngur Reykjanesbæ (2018080300)
Umhverfis- og skipulagsráð leggur til að farið verði í þarfagreiningu á strætóleiðum í Reykjanesbæ, sérstaklega með þarfir barna og unglinga í íþrótta- og tómstundastarfi að leiðarljósi.
19. Mælaborð sviðsstjóra (2017020190)
Sviðsstjóri fór yfir mælaborð júlí 2018.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10:00. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 4. september 2018.