216. fundur umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 28. september 2018 kl. 08:15.
Viðstaddir: Eysteinn Eyjólfsson, Gunnar Felix Rúnarsson, Helga María Finnbjörnsdóttir, Grétar Guðlaugsson og Róbert Jóhann Guðmundsson.
Starfsmenn: Guðlaugur H. Sigurjónsson, sviðsstjóri, Gunnar K. Ottósson, skipulagsfulltrúi, Sveinn Björnsson, byggingarfulltrúi, Sigmundur Eyþórsson, tæknifulltrúi og Dóra Steinunn Jóhannsdóttir, ritari.
1. Aðalskipulagsbreyting IB20/OP-22 Njarðarbraut, Hafnargata og Víkurbraut (2017090121)
Skipulagsstofnun gerði athugasemdir við málsmeðferð og framsetningu með bréfi dagsettu 13.07.2018 og taka þarf breytingartillöguna fyrir að nýju sbr. 1. mgr. 32. gr. skipulagslaga. Lögð eru fram lagfærð skipulagsgögn: Uppdráttur dagsettur 04.09.2018, umsögn heilbrigðiseftirlits dagsett 27.08.2018, og umsögn skipulagsfulltrúa dagsett 25.09.2018.
Samþykkt að senda breytingartillöguna til afgreiðslu Skipulagsstofnunar.
2. Víkurbraut 21-23 - Deiliskipulagsbreyting (2017090121)
JeEs arkitektar ehf. fyrir hönd Bryggjubyggðar ehf. leggja fram tillögu að breyttu deiliskipulagi dagsetta 13.06.2018. Erindi var frestað þar sem breyting á aðalskipulagi var ekki afgreidd.
Frestað.
3. Fitjabraut 4 - Fyrirspurn um viðbótarbyggingu á lóð (2018090339)
Ólafur Thordersen leggur fram fyrirspurn dagsetta 23. ágúst 2018 um breytingu á byggingareit og á áður samþykktri byggingu. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs dags. 13.08.2018 var samþykkt stækkun á lóð.
Samþykkt með fyrirvara um grenndarkynningu án athugasemda. Sækja þarf um byggingarleyfi verði erindi samþykkt.
4. Hafnargata 42 - Uppskipting á lóð (2018090340)
Jón Gunnar Jónsson sækir um að skipta upp lóð að Hafnargötu 42.
Frestað. Óskað er eftir nánari gögnum.
5. Urðarás 13 - Breyting á deiliskipulagi (2018090341)
Doddson sf. óskar heimildar til að breyta skilmálum deiliskipulags fyrir þennan reit úr tveggja hæða húsi í eina hæð. Klöpp liggur hátt á þessu svæði og landhalli lítill. Náttúrulegir klettar og holt er við aðliggjandi lóðir.
Samþykkt að senda í grenndarkynningu.
6. Hlíðahverfi ÍB28 og ÍB29 - Óveruleg breyting á aðalskipulagi (2015100139)
Óskað er heimildar til að gera óverulega breytingu á aðalskipulagi samkvæmt uppdrætti KRark ehf. dagsettum 24.09.2018. Íbúðasvæði ÍB28 og ÍB29 verði sameinuð og húshæðir verði 1-5 en ekki 1-4 hæðir. Svæðin liggja samsíða en eru aðskilin af Þjóðbraut en verða þróuð sem eitt hverfi. Breytingin hefur ekki áhrif á landnotkun, einstaka aðila eða stórt svæði.
Breytingartillagan er send til endanlegrar afgreiðslu skipulagsstofnunar, sbr. 2. mgr. 32. gr. skipulagslaga.
7. Tjarnarbraut 2 og 4 - Ósk um breytingu á deiliskipulagi (2017100067)
KRark ehf. leggja aftur inn fyrirspurn vegna fjölgunar íbúða við Tjarnabraut 2 og 4. Óskað er eftir að breyta hámarksfjölda íbúða að Tjarnabraut 2 úr 15 í 19, bílastæði verði 37 á lóð eða hlutfallið 1.94 stæði á íbúð. Óskað er eftir að breyta hámarksfjölda íbúða að Tjarnabraut 4 úr 11 í 16 íbúðir með 28 stæðum á lóð eða hlutfallið 1.75 stæði á íbúð.
Sýnt er fram á að fjölgun bílastæða er í samræmi við fjölgun íbúða og er leyst innan lóðar. Fjölgun íbúða hefur takmörkuð áhrif á aukna umferð, en Tjarnabraut sem er hluti lífæðar er hönnuð til að taka við umferð.
Samþykkt með fyrirvara um grenndarkynningu án athugasemda.
8. Einidalur 13 - Fyrirspurn um bílskúr (2017070042)
Rut Þorsteinsdóttir og Chad Keilen sækja um að byggja bílskúr á lóð við götuenda Einidals. Erindið var tekið fyrir á 212. fundi ráðsins en erindi var frestað og óskað nánari gagna.
Aðstæður á lóð og forsaga hefur verið kannað nánar. Heimiluð hafði verið í kjölfar grenndarkynningar viðbygging norðan við húsið og lóðastækkun. Sú heimild stendur en ósk um frekari nýbyggingar og lóðastækkanir er hafnað.
9. Pósthússtræti 5, 7 og 9 - Niðurstaða grenndarkynningar (2018070042)
Mannvit ehf. lagði fram erindi um skipulagsbreytingu sem kemur fram á uppdrætti dagsett 2. júlí 2018 sem tekið var fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsráðs á fundi nr. 212 þann 12. júlí 2018. Erindi var sent í grenndarkynningu sem lauk þann 12. september 2018. 4 athugasemdir bárust þar af ein með 43 undirskriftum íbúa Pósthússtrætis 3 sem vísar til einróma samþykktar stjórnar húsfélagsins á bréfi frá JA lögmönnum dagsett 29.08.2018. Megininntak flestra mótmæla er nálægð húsa, fjöldi íbúða og fjöldi bílastæða.
Frestað. Óskað er eftir frekari gögnum varðandi vindálag.
10. Tillögur að verndarsvæði í byggð (2016090211)
Samkvæmt lögum um verndarsvæði í byggð 2015 nr. 87, 4. gr. skal sveitarstjórn að loknum kosningum meta hvort innan staðarmarka sveitarfélagsins sé byggð sem hafi slíkt gildi hvað varðveislu svipmóts og menningarsögu varðar, ásamt listrænu gildi, að ástæða sé til að útbúa tillögu til ráðherra um að hún verði gerð að verndarsvæði í byggð.
Sveitarstjórn gerir að tillögu þrjú svæði: Patterson flugvöll sem mikilvægar herminjar og kennileiti í sveitarfélaginu. Hins vegar svæði í Innri-Njarðvík, Hákotstangar, Njarðvíkurkirkja, túnin beggja vegna Tjarnargötu og Narfakotstún. Túnin í Innri-Njarðvík eru mörkuð fornum byggðaháttum. Þriðja svæðið er Hafnir, svæðið nýtur hverfisverndar og náttúruverndar að hluta en myndar merka menningarlega heild.
11. Víðidalur 11 - Lóðarumsókn (2018090342)
Unnar Ragnarsson sækir um lóðina Víðidalur 11.
Úthlutun samþykkt.
12. Hafdalur 6-14 - Niðurstaða hlutkestis (2018090172)
Þar sem fleiri en einn sóttu um lóðina var þann 21. september 2018 kl. 13 efnt til hlutkestis í samræmi við úthlutunarreglur Reykjanesbæjar. Þar var Mótasmíði ehf. hlutskarpast og fær úthlutað lóðinni.
Úthlutun samþykkt.
13. Fjárhagsáætlun 2019 - Kynning (2018080110)
Lagt fram til kynningar.
14. Siðareglur kjörinna fulltrúa hjá Reykjanesbæ (2014100049)
Lagt fram til kynningar.
15. Vinnulag og fundargerðir USK-ráðs (2018090343)
Vinnubrögð við fundarboðun verða aðlöguð að því að umhverfis- og skipulagsráð fundar nú tvisvar í mánuði og leitast verður enn frekar við að gera fundargerðir ráðsins greinilegri og meira upplýsandi fyrir bæjarfulltrúa og bæjarbúa.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10:00. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 2. október 2018.