251. fundur

11.06.2020 15:00

251. fundur umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar, haldinn að Tjarnargötu 12, 11. júní 2020, kl. 15:00

Viðstaddir: Eysteinn Eyjólfsson formaður, Gunnar Felix Rúnarsson, Helga María Finnbjörnsdóttir, Ríkharður Ibsen, Róbert Jóhann Guðmundsson, Guðlaugur H. Sigurjónsson sviðsstjóri umhverfissviðs, Gunnar K. Ottósson skipulagsfulltrúi, Sveinn Björnsson byggingarfulltrúi, Sigmundur Eyþórsson tæknifulltrúi og Hrefna Höskuldsdóttir ritari.

1. Stakksberg frummatsskýrsla umhverfisáhrifa og umsögn (2019051551)

Skipulagsstofnun hefur sent Reykjanesbæ beiðni um umsögn vegna skýrslunnar Kísilverksmiðja í Helguvík – endurbætur. Mat á umhverfisáhrifum. Frummatsskýrsla. dags. apríl 2020. Óskað var eftir við Skipulagsstofnun framlengingu á umsagnarfresti og hann veittur til 26. júní sl.
Erindið hefur fengið nokkuð ítarlega umfjöllun. Fulltrúar Stakksbergs og skýrsluhöfundar komu á fund ráðsins þann 20. maí s.l. og fóru yfir efni frummatsskýrslunnar. Þann 5. júní var farið yfir Rýni á matsskýrslu fyrir kísilver dags 2. júní, greinargerð sem VSÓ ráðgjöf vann fyrir Reykjanesbæ. Þá voru einnig drög að umsögn lögð fram.

Lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagsráðs. Umsögnin samþykkt.

Umsögn umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar 11. júní 2020

Umhverfis- og skipulagsráð telur að neikvæð umhverfisáhrif fylgi áætluðum breytingum. Þær hafi í för með sér neikvæð sjónræn áhrif, neikvæð áhrif á loftgæði og þeim geti fylgt óþægindi og ónæði fyrir íbúa Reykjanesbæjar, auk þess að hafa mögulega neikvæð áhrif á heilsu þeirra.
Í ljósi forsögunnar er umhverfis- og skipulagsráð ekki sannfært um að áætlaðar mótvægisaðgerðir, sem eiga að auka rekstraröryggi verksmiðjunnar og minnka óþægindi íbúa vegna hennar, reynist fullnægjandi.>
Niðurstaða umhverfis- og skipulagsráðs er að ekki sé nægilega gerð grein fyrir umhverfisáhrifum starfseminnar. Ráðið er ekki sammála niðurstöðum frummatsskýrslunnar varðandi loftgæði, samfélag, atvinnulíf og heilsu og telur mjög ólíklegt að efnahagsleg áhrif framkvæmdarinnar séu það mikil að þau vegi upp á móti neikvæðum áhrifum hennar á þann veg að þau nái að gera heildaráhrif verksmiðjunnar á samfélagið jákvæð.

Nánari athugasemdir við einstök atriði í frummatsskýrslunni:

Almennt
Staðhæft er að breytingar vegna úrbóta falli að gildandi deiliskipulagi. Framkvæmdin sem heild fellur ekki að gildandi deiliskipulagi. (sjá bls. í ii í samantekt frummatsskýrslu)
Áhrif á loftgæði er talin nokkuð neikvæð en þó afturkræf í frummatsskýrslunni og þannig á mörkum þess að vera jákvæð. Umhverfis- og skipulagsráð telur að áhrifin, sem skv. frummatsskýrslunni eru m.a. vegna útblásturs 400 þús. tonna árlega af CO2 m.v. kísilverið í fullum afköstum, séu bæði staðbundin og hafi áhrif á heimsvísu. Þau séu ekki afturkræf og ættu því að teljast talsvert eða verulega neikvæð.
Umfjöllun um loftdreifilíkan þarf að vera ítarlegri varðandi það hver áhrif styrkbreytinga einstakra efnisþátta í losuninni hefði á loftgæði. Ítarlegar þarf að fjalla um útblástur annan en þann sem fer um stromp frá ofnhúsi. (Sjá minnisblað VSÓ frá 2. júní samantekt bls. 3)
Í ljósi reynslunnar af rekstri verksmiðjunnar og vandamála með loftgæði er mjög mikilvægt að fá nánari lýsingu á hvernig standa eigi að lofthreinsun, hvaða tækni eigi að beita og hvernig það samræmist BAT skilyrðum (bestu aðgengilegu tækni) sem varða loftgæði, sérstaklega nýjar BAT kröfur um styrk ryks frá hreinsunarbúnaði. (Sjá minnisblað VSÓ frá 2. júní samantekt bls. 3)
Í umfjöllun um loftdreifilíkan er á nokkrum stöðum fjallað um áhrif innan þynningarsvæðis álvers í Helguvík. Þar sem þynningarsvæðið hefur almennt enga merkingu fyrir starfsemi kísilversins væri æskilegt að fá umfjöllun um hvort mögulegar breytingar á því hafi áhrif á niðurstöður og túlkun á niðurstöðum. (Sjá minnisblað VSÓ frá 2. júní, samantekt bls. 3)
Hvað varðar stefnu Reykjanesbæjar varðandi iðnaðaruppbyggingu í Helguvík þá skal það áréttað að í Aðalskipulagi Reykjanesbæjar samþykktu árið 2017 er ekki gert ráð fyrir frekari starfsemi í Helguvík sem losi flúor og brennisteinsdíoxíð. Þá er minnt á áskorun meirihluta bæjarfulltrúa Reykjanesbæjar – sjö bæjarfulltrúa af ellefu – á 558. fundi Bæjarstjórnar Reykjanesbæjar þann 22. janúar 2019 til framkvæmdaaðila og eigenda kísilverkefna í Helguvík þess efnis að þeir falli frá uppbyggingu og rekstri kísilmálmverksmiðja í Helguvík og hvatningu til þeirra um að taka frekar þátt í annarri atvinnuuppbyggingu í sátt við fólkið í sveitarfélaginu og umhverfið. (Sjá bls. x í samantekt frummatsskýrslu)
Hvað varðar hljóðvist og umhverfisáhrif hávaða frá starfseminni þá er ekkert fjallað um hávaða sem orðið getur vegna skorsteinanna tveggja sem fyrirhugað er að reisa. En ætla má að hávaði fylgi útblæstri úr þeim og að þeim fylgi veðurhvinur. (Sjá bls. 106-108 í frummatsskýrslu)

Heilsa
Óumdeilt er að íbúar urðu fyrir talsverðum óþægindum og veikindum vegna mengunar sem barst frá verksmiðjunni á rekstrartíma. Það var gæfa að enginn hlaut sannarlega varanlegan skaða af enda rekstrartími stuttur. Ekki hefur tekist að greina hvaða efni það voru sem ollu þessum óþægindum o.þ.l. voru þessi efni aldrei mæld. Kenningar eru um að það hafi verið VOC efni sem engin viðmið eru til um. (Sjá bls. v í samantekt og bls. 67 í frummatsskýrslu)
Áhrif á heilsu íbúa eru metin óveruleg í frummatsskýrslunni (sjá bls. ix í samantekt frummatsskýrslu). Til að þessi fullyrðing standist þarf að vinna lýðheilsumat (Health Impact Assessment) eins og Embætti landlæknis telur æskilegt að gert verði í tengslum við fyrirhugaðar endurbætur á kísilverksmiðjunni. Skipulagsstofnun tekur undir með Embætti landlæknis um nauðsyn þess að meta áhrif á heilsu. Þó svo að ekki sé krafist sérstaks lýðheilsumats hér á landi, þá telur Skipulagsstofnun ljóst að efnislega er mat á áhrifum framkvæmda á heilsu hluti af umhverfismati sem gert er samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum og þeirri tilskipun ESB sem lögin fela í sér innleiðingu á. (Endurbætur á kísilverksmiðju í Helguvík, Reykjanesbæ - Ákvörðun um matsáætlun – 12. apríl 2019, bls. 6)
Skv. frummatsskýrslunni er meginuppistaða í útblæstri CO2 en ekki er fjallað um það í loftdreifilíkani en þar sem um töluvert magn er að ræða sem myndast við bruna á 520.000 tonnum árlega af kolum og viðarflísum (bls. 47) er eðlilegt að sýnt sé fram á að það ógni ekki heilsu eða hafi önnur staðbundin áhrif (heildarlosun fólksbílaflota Íslendinga er um 600.000 tonn árlega samkvæmt FÍB).
Áhrif loftmengunar frá Keflavíkurflugvelli í samhengi við útblástur frá verksmiðju Stakksbergs leggjast ólíklega saman vegna ríkjandi vindátta eins og kemur fram í 1. viðauka greinargerð Vatnaskila um loftdreifingu en eins og sjá má á vindrósum á bls. 27 eru vindáttir í stefnu frá flugvellinum í átt að byggð fátíðar. Í frummatsskýrslunni er ekki vísað í rannsóknir á mengun vegna Keflavíkurflugvallar.
Í fylgiskjali V4 eru talin upp 12 kísilver víðsvegar um Noreg en engar rannsóknir hafa verið gerðar á áhrifum þeirra á heilsufar íbúa sem búa þó í 300m til 3km fjarlægð frá verksmiðjunum. Vitnað er í þrjár almennar rannsóknir á loftmengun frá árunum 1986-1991 um einhver atriði byggðar á rannsóknum frá 1979. (sjá bls. 6 í frummatsskýrslu)
Vísað er til þess í frummatsskýrslu að áætluð mengun verði undir heilsufarsviðmiðum en ekki eru tilgreind mörk óþæginda íbúa vegna lyktar eða annarra áhrifa sem eru ekki síður mikilvæg. Þá er um reiknuð gildi að ræða í skýrslunni en ekki stuðst við mælingar.

Ásýnd
Fullyrt er að verksmiðjan sjáist ekki frá miðbæ Reykjanesbæjar vegna þess að aðrar byggingar skyggja á hana. Staðreyndin er sú að að verksmiðjan er og verður vel sýnileg úr efri byggðum Keflavíkur, Vatnsnesi og Innri-Njarðvík - m.ö.o. vel sýnileg meirihluta bæjarbúa.
Af Miðnesheiði eru byggingarnar vel sýnilegar þeim fjölmörgu ferðamönnum sem til landsins koma. Þar sem byggingarnar eru einnig vel sýnilegar frá öllum aðflugslínum eru þær sýnilegar þeim ferðamönnum sem fara um flugstöð Leifs Eiríkssonar árlega.
Meint umhverfisvæn framleiðsla
Ekki kemur fram í framleiðslulýsingu hvort framleiðslan henti í framleiðslu sólarhlaða en á bls. 27 í frummatsskýrslu er afurðinni lýst sem „metallurgical grade silicon“, eða hrákísill af 98-99% hreinleika en Solar Grade Silicon krefst 99.9-99.999% hreinleika. Fullyrðing um lágt kolefnisfótspor sem ýtt er undir með vísan í sólarhlöður er því ekki marktæk, vegna þess að frekari hreinsun kallar á stækkun kolefnisspors, sem ekki er tekið tillit til.

Efnahagur
Minnst er á fasteignaverð í frummatsskýrslu. Eftirspurn eftir húsnæði var mikil á rekstrartíma verksmiðjunnar sem tengist húsnæðisskorti í Reykjavík og framboði á atvinnu tengdri flugvellinum, svo fasteignaverð hækkaði, þrátt fyrir brösugan gang á rekstri verksmiðjunnar. Ekki kemur fram greining á fasteignaverði í efri hverfum Keflavíkur og sú mikla eftirspurn sem var á húsnæði árin 2017-18 er ekki varanlegt ástand. Þannig að varlega ætti að fullyrða um samfélagsleg áhrif verði varanleg og að 70-80 störf vegi upp möguleg óþægindi íbúa af rekstri verksmiðjunnar sem eins og fram kemur í skýrslunni er í eðli sínu verulega mengandi.
Umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar tekur fram að hér er einungis um helstu athugasemdir að ræða og áskilur sér rétt til að koma fram með frekari rökstuðning og frekari athugasemdir á síðari stigum.

Fylgigögn:

Frummatsskýrsla Stakksberg
Loftgæði Helguvík

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16.25. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 16. júní 2020.