284. fundur umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar, fjarfundur haldinn 7. janúar 2022, kl. 08:15
Viðstaddir: Eysteinn Eyjólfsson formaður, Gunnar Felix Rúnarsson, Helga María Finnbjörnsdóttir, Ríkharður Ibsen, Róbert J. Guðmundsson, Guðlaugur H. Sigurjónsson sviðsstjóri umhverfissviðs, Gunnar K. Ottósson skipulagsfulltrúi, Sveinn Björnsson byggingarfulltrúi, Maríanna Hvanndal Einarsdóttir tæknifulltrúi, Brynja Þóra Valtýsdóttir, Sigurður Þór Arason og Íris Andrea Guðmundsdóttir ritari.
1. Aðgerðaráætlun vegna Umhverfis- og loftslagsstefnu Reykjanesbæjar (2020021391)
Anna Karen Sigurjónsdóttir mætti á fundinn og kynnti aðgerðaráætlun vegna Umhverfis- og loftlagsstefnu Reykjanesbæjar.
Lagt fram.
2. Sjávargata 33 - niðurstaða grenndarkynningar (2020010328)
TCI fasteignafélag ehf. óskar eftir fjölgun íbúða að Sjávargötu 33 í samræmi við uppdrætti Glóru dags. 26. október 2021. Í húsinu eru 6 íbúðir en verði 17. Bílastæði verði 20 þar af 7 á lóð. Stofnuð verði lóð austan við Sjávargötu 29 undir 13 bílastæði og sorpgerði. Andmæli bárust vegna ásýndar bílastæða frá Hafnarbakka 10 og umferðarmála.
Ásýnd bílastæða við Sjávargötu er sambærileg við ásýnd bílastæða Hafnarbakka 10 og Sjávargata verður ekki gerð að botnlanga, enda standa fá hús við götuna, sem kallar á lítinn gegnumakstur. Samkvæmt uppfærðum lóðagögnum komast bílastæði við Sjávargötu ekki fyrir innan lóðar. Erindi frestað.
Fylgigögn:
Sjávargata 33 - niðurstaða grenndarkynningar
3. Flugvellir 20 - fyrirspurn (2021120275)
Flugvellir 18 ehf. óska eftir lóðarstækkun um 10 m til norðurs með erindi dags. 13. desember 2021.
Lóðin hefur þegar verið stækkuð um 10 m til norðurs, heildarlóðarstækkun um 20 m að Aðalgötu, samræmist ekki ásýnd og yfirbragði hverfisins. Erindi hafnað.
Fylgigögn:
Fyrirspurn - Flugvellir 20
4. Iðavellir 1 – stækkun (2022010098)
Skólamatur ehf. óskar eftir auknum byggingaheimildum í samræmi við uppdrátt Riss verkfræðistofu dags. 30. desember 2021. Óskað er heimildar til að byggja tveggja hæða húsnæði austur af núverandi húsi. Gert verði ráð fyrir vinnslurými á neðri hæð en skrifstofu- og starfsmannarými á efri hæð.
Samþykkt að senda í grenndarkynningu skv. 44. grein skipulagslaga málsgrein 2.
Fylgigögn:
Iðavellir 1 - umsókn um viðbyggingu
5. Grófin 10a - niðurstaða grenndarkynningar (2021060418)
Sverrir Sverrisson hf. óskar heimildar til að reisa skemmu innan byggingarreits Grófar 10a. Tillagan var grenndarkynnt, andmæli bárust sem fjallað var um á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 5. nóvember 2021. Erindi var frestað. Breytt tillaga er lögð fram þar sem gert er ráð fyrir að girt verði á lóðamörkum Grófar 10a og 8 með hliði við kvöð um aðkomu.
Tekið hefur verið tillit til athugasemda, erindi samþykkt.
Fylgigögn:
Grófin 10a
6. Akurbraut 15 - bygging á bílskúr (2021110578)
Óskað er heimildar til að fjarlægja núverandi bílgeymslu og byggja nýja í samræmi við uppdrætti Beims ehf. dags. nóvember 2021.
Samþykkt með fyrirvara um grenndarkynningu án athugasemda skv. 44. grein skipulagslaga málsgrein 2.
Umhverfis- og skipulagsráð heimilar að stytta tímabil grenndarkynningar ef þeir sem hagsmuna eiga að gæta, skv. 44. grein skipulagslaga málsgrein 3. hafa lýst skriflega yfir með áritun sinni á kynningargögn áður en fjórar vikur eru liðnar að þeir geri ekki athugasemdir við skipulagstillöguna eða hina leyfisskyldu framkvæmd.
Fylgigögn:
Akurbraut 15 - bygging á bílskúr
7. Brekadalur 10 – stækkun (2021110332)
Óskað er heimildar til að bæta við kjallara undir húsið við Brekadal 10 með erindi dags. 3. janúar 2022. Breytingin hefur ekki áhrif á ásýnd eða yfirbragð, en húsið stækkar um 40m2 umfram hámarks nýtingu lóðar.
Umhverfis- og skipulagsráð telur að breytingin á deiliskipulagi varði ekki hagsmuni annarra en sveitafélagsins og umsækjanda og samþykkir því breytinguna skv. 44. grein skipulagslaga málsgrein 3.
Fylgigögn:
Brekadalur 10 - stækkun
8. Hafnarbraut 12 - umsókn um stöðuleyfi (2021120477)
Gröfuþjónustan ehf. sækir um stöðuleyfi fyrir tvo 40ft gáma sem tjaldað er á milli yfir stálboga. Erindi vegna sömu framkvæmdar var hafnað eftir grenndarkynningu á fundi umhverfis- og skipulagsráðs dags. 3. desember 2021
Umhverfis- og skipulagsráð er ekki leyfisveitandi stöðuleyfis. Erindi vísað frá.
Fylgigögn:
Hafnarbraut 12 - umsókn um stöðuleyfi
9. Breyting á deiliskipulagi Grindavíkurbæjar 2018-2032 – skipulagslýsing (2021060053)
Grindavíkurbær óska eftir umsögn við deiliskipulagstillögu á iðnaðar- og orkuvinnslusvæði á Reykjanesi. Með skipulagstillögunni er gildandi deiliskipulag á iðnaðar- og orkuvinnslusvæðinu fellt úr gildi og skipulagssvæðinu skipt upp um sveitarfélagsmörk Grindavíkurbæjar og Reykjanesbæjar, í tvö deiliskipulagssvæði:
Deiliskipulag orkuvinnslu og iðnaðar á Reykjanesi í Grindavíkurbæ og deiliskipulag orkuvinnslu og iðnaðar á Reykjanesi í Reykjanesbæ. Tillaga að deiliskipulagi hefur það að leiðarljósi að fá betri yfirsýn yfir orkuvinnslusvæðið, uppfæra skilmála og marka stefnu um umgjörð jarðhitanýtingar. Jafnframt er með deiliskipulaginu markaður rammi um uppbyggingu atvinnustarfsemi sem nýtt geti afgangsstrauma frá Reykjanesvirkjun til fjölbreyttrar framleiðslu – innan Auðlindagarðsins
Reykjanesbær gerir ekki athugasemd við deiliskipulagstillöguna.
Fylgigögn:
Deiliskipulag Grindavíkurbæjar
10. Þróunarreitur Grófinni - drög (2021090502)
Skipulagstillögur fyrir þróunarreit að Grófinni 2 í Reykjanesbæ lagðar fram.
11. Erindi landeigenda vegna efnistöku við Sandvík (2019060056)
Landeigendur að Kalmanstjörn og Junkaragerði í Reykjanesbæ með bréfi dags. 17. desember 2021 gera athugasemdir við breytingu á aðalskipulagi varðandi það að fellt er út efnistökusvæði E4 við Sandvík. Óskað er eftir fundi með sveitarfélaginu áður en lengra er haldið með skipulagsvinnuna.
Erindi vísað til stýrihóps um endurskoðun aðalskipulags.
Fylgigögn:
Erindi landeigenda vegna efnistöku við Sandvík
12. Rafræn skilti (2019090067)
Leiðbeiningar um afgreiðslu á umsóknum fyrir rafræn tilkynninga- og auglýsingaskilti í Reykjanesbæ. Reglurnar voru samþykktar á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 18. desember 2019 og koma nú til endurskoðunar í ljósi reynslunnar.
Lagt fram.
Fylgigögn:
Rafræn skilti
13. Dalshverfi 3. áfangi - úthlutunarskilmálar (2019050472)
Lagðir eru fram úthlutunarskilmálar 3. áfanga Dalshverfis norður-hluta.
Heimild er veitt til að auglýsa lóðirnar.
14. Urðarás 1 - umsókn um lóð (2021120437)
Brian L. Thomas sækir um lóðina Urðarás 1.
Lóðaúthlutun samþykkt.
Fylgigögn:
Umsókn um lóð
15. Fitjabraut 5-7 - afhendingarskilmálar (2019120011)
Umhverfis- og skipulagsráð samþykkti með fyrirvara lóðaúthlutun Fitjabrautar 5-7 til Smáragarðs í samræmi við bókun dags. 6. nóvember 2020. Samþykki Reykjaneshafnar fyrir lóðaúthlutun liggur fyrir. Afhendingarskilmálar framlagðir.
Umhverfis- og skipulagsráð samþykkir afhendingarskilmála. Erindi samþykkt.
16. Árskýrsla umhverfissviðs (2021120264)
Sviðstjóri fer yfir Ársskýrslu umhverfissviðs.
Lagt fram.
Umhverfis- og skipulagsráð þakkar starfsmönnum sviðsins mikið og gott starf við fjölbreytt og krefjandi verkefni.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10:10. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 18. janúar 2022.