379. fundur

11.09.2019 14:00

379. fundur velferðarráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 11. september 2019 kl. 14:00

Viðstaddir: Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir formaður, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Hrafn Ásgeirsson, Jasmina Crnac, Jónína Sigríður Birgisdóttir, Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.

1. Ábyrg saman - samstarfssamningur (2019080487)

Lögð fram greinargerð Maríu Gunnarsdóttur, forstöðumanns barnaverndar Reykjanesbæjar, um samstarfssamning milli velferðarsviðs Reykjanesbæjar og Lögreglustjórans á Suðurnesjum vegna forvarnarverkefnisins Ábyrg saman, en samningurinn var undirritaður 20. ágúst sl. Með verkefninu er unnið út frá heimsmarkmiði 3, Heilsa og vellíðan. Lögð er áhersla á að efla forvarnir og beita snemmtækri nálgun til að mæta áhættuhegðun hjá börnum. Velferðarsvið Reykjanesbæjar og Lögreglustjórinn á Suðurnesjum telja mikilvægt að bregðast strax við vanda barns þegar afskipti lögreglu verða af barni sem stundar áhættuhegðun og koma þannig frekar í veg fyrir endurtekin afskipti.

Velferðarráð fagnar því góða samstarfi sem hefur verið á milli Velferðarsviðs Reykjanesbæjar og Lögreglustjórans á Suðurnesjum í forvarnarmálum. Það samstarf er styrkt enn frekar með þessum samstarfssamningi. Fjölgun tilkynninga frá lögreglu á þessu ári vegna áhættuhegðunar barna er mikið áhyggjuefni og mikilvægt er að bregðast hratt og örugglega við til að sporna við þeirri þróun. Það er von ráðsins að „Ábyrg saman“ muni hafa jákvæð áhrif og draga úr áhættuhegðun barna í sveitarfélaginu.

Fylgigögn:

Ábyrg saman - greinargerð

2. Erindisbréf velferðarráðs (2019090327)

Drög að erindisbréfi velferðarráðs lögð fram.

Velferðarráð samþykkir erindisbréfið og vísar því til afgreiðslu bæjarráðs.

3. Fjárhagsáætlun velferðarsviðs 2020 (2019080696)

Hera Ósk Einarsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs, fór yfir ramma fjárhagsáætlunar velferðarsviðs fyrir árið 2020.

4. Reglur um NPA – staða mála (2019070239)

Sigríður Daníelsdóttir, forstöðumaður fjölskyldumála, mætti á fundinn og greindi frá stöðu mála varðandi vinnu við drög að reglum um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA).

5. Mælaborð velferðarsviðs og tölulegar upplýsingar (2019050519)

Hera Ósk Einarsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs, lagði fram mælaborð og tölulegar upplýsingar.

Fjárhagsaðstoð

Í júlí 2019 fengu 95 einstaklingar greiddan framfærslustyrk frá Reykjanesbæ, alls voru greiddar kr. 11.655.070,-. Í sama mánuði 2018 fengu 74 einstaklingar greiddan framfærslustyrk.

Sérstakur húsnæðisstuðningur

Alls fengu 179 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélagsins í júlí, samtals kr. 2.230.662,-.

Áfrýjunarnefnd

Enginn fundur var í áfrýjunarnefnd í júlí.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16:10. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 17. september 2019.