381. fundur

13.11.2019 14:00

381. fundur velferðarráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 13. nóvember 2019 kl. 14:00

Viðstaddir: Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir formaður, Hrafn Ásgeirsson, Jasmina Crnac, Jónína Sigríður Birgisdóttir, Elfa Hrund Guttormsdóttir, Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.

1. Reglur um notendastýrða persónulega aðstoð - NPA (2019070239)

Ellý Alda Þorsteinsdóttir, ráðgjafi og Sigríður Daníelsdóttir, forstöðumaður fjölskyldumála mættu á fundinn. Þær, ásamt Heru Ósk Einarsdóttur, sviðsstjóra velferðarsviðs, kynntu drög að reglum um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) ásamt greinargerð um ábyrgð og hlutverk teymis vegna úthlutunar á þjónustu við fatlað fólk í formi samninga um NPA, margháttaðrar stuðningsþjónustu og beingreiðslusamninga og verkferli vegna undirbúnings samninga um NPA.

Velferðarráð samþykkir reglurnar og vísar þeim til afgreiðslu bæjarráðs.

2. Búsetuúrræði fyrir fatlað fólk að Stapavöllum 16 - 22 (2019050509)

Sigríður Daníelsdóttir, forstöðumaður fjölskyldumála mætti á fundinn.

Íbúðalánasjóður hefur samþykkt umsókn Brynju – Hússjóðs Öryrkjabandalags Íslands um stofnframlag vegna byggingar 7 íbúða við Stapavelli 16 – 22. Bæjarstjórn Reykjanesbær hafði áður samþykkt stofnframlag af hálfu sveitarfélagsins.

Hera Ósk Einarsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs, skýrði frá því að lokið hefur verið við deiliskipulagningu svæðisins og að vinnu við nánari þarfagreiningu verði lokið á næstunni. Gert er ráð fyrir að íbúðirnar verði teknar í notkun á árinu 2021.

Velferðarráð fagnar nýju búsetuúrræði.

3. Pólsk menningarhátíð 2019 (2019080728)

Velferðarráð lýsir yfir ánægju með pólsku menningarhátíðina sem haldin var á Nesvöllum laugardaginn 9. nóvember sl. Hátíðin var vel sótt og virk þátttaka íbúa af pólskum uppruna var greinileg sem birtist m.a. í fjölbreyttri pólskri matargerð og atriðum sem voru á dagskrá hátíðarinnar. Sérstakar þakkir eru færðar Hilmu Hólmfríði, verkefnastjóra fjölmenningar og þeim sem lögðu hönd á plóg við að gera hátíðina að veruleika.

4. Mælaborð og tölulegar upplýsingar (2019050519)

Hera Ósk Einarsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs, lagði fram mælaborð og tölulegar upplýsingar.

Fjárhagsaðstoð

Í september 2019 voru 87 einstaklingar sem fengu greiddan framfærslustyrk frá Reykjanesbæ, alls voru greiddar kr. 11.886.766,-. Í sama mánuði 2018 voru 78 einstaklingar sem fengu greitt.

Í október 2019 voru 94 einstaklingar sem fengu greiddan framfærslustyrk frá Reykjanesbæ, alls voru greiddar kr. 12.407.718,-. Í sama mánuði 2018 voru 83 einstaklingar sem fengu greitt.

Sérstakur húsnæðisstuðningur

Í september fengu alls 187 heimili greiddan sérstakan húsnæðisstuðning, samtals kr. 2.408.713,-. Í sama mánuði 2018 fengu alls 170 heimili greiddan sérstakan húsnæðisstuðning.

Í október fengu alls 195 heimili greiddan sérstakan húsnæðisstuðning, samtals kr. 2.475.140,-. Í sama mánuði 2018 fengu 169 heimili greiddan sérstakan húsnæðisstuðning.

Áfrýjunarnefnd

Í september voru 26 mál lögð fyrir áfrýjunarnefnd. 18 erindi voru samþykkt, 3 erindum synjað, eitt erindi samþykkt að hluta og 4 erindum frestað.

Í október voru 22 mál lögð fyrir áfrýjunarnefnd. 12 erindi voru samþykkt, 6 erindum synjað og 4 erindum frestað.

5. Fundargerð öldungaráðs Reykjanesbæjar 10. október 2019 (2019100037)

Fundargerðin lögð fram.

Fylgigögn:

Fundargerð öldungaráðs Reykjanesbæjar 10. október 2019

6. Fundargerðir samtakahópsins 22. október og 5. nóvember 2019 (2019050292)

Fundargerðirnar lagðar fram.

Fylgigögn:

Fundargerð samtakahópsins 22. október 2019
Ungt fólk 5. til 7. bekkur - Reykjanesbær - niðurstöður könnunar
Endurskin - auglýsing
Fundargerð samtakahópsins 5. nóvember 2019
Unicef réttindaskóli - kynning


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15:50. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 19. nóvember 2019.