394. fundur

13.01.2021 14:00

394. fundur velferðarráðs Reykjanesbæjar, fjarfundur haldinn þann 13. janúar 2021 kl. 14:00

Viðstaddir: Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir formaður, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Hrafn Ásgeirsson, Jasmina Vajzovic Crnac, Jónína Sigríður Birgisdóttir, Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs, Sigríður Daníelsdóttir forstöðumaður fjölskyldumála, Hilma Hólmfríður Sigurðardóttir verkefnastjóri fjölmenningarmála og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.

1. Mótvægisaðgerðir vegna COVID-19 - tillögur Velferðarvaktarinnar (2020120303)

Velferðarvaktin hefur lagt fram tillögur til stjórnvalda, bæði ríkis og sveitarfélaga, um áherslur í mótvægisaðgerðum vegna COVID-19 faraldursins. Bæjarráð óskar eftir umsögn velferðarráðs um tillögurnar.

Sviðsstjóra velferðarsviðs er falið að taka saman upplýsingar um þau verkefni sem unnið er að í sveitarfélaginu og tengjast tillögum Velferðarvaktarinnar fyrir næsta fund ráðsins.

Fylgigögn:

Tillögur Velferðarvaktarinnar til ríkis og sveitarfélaga í mótvægisaðgerðum vegna COVID-19

2. Tilraunaverkefni um sérstakan húsnæðisstuðning (2020120329)

Lögð fram lokaskýrsla Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um tilraunaverkefni um sérstakan húsnæðisstuðning ásamt erindi frá stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga um afstöðu sveitarstjórna og stjórnenda í velferðarþjónustu varðandi eitt opinbert stuðningskerfi við leigjendur. Bæjarráð óskar eftir umsögn frá velferðarráði.

Velferðarráð telur tillöguna jákvætt skref í því að einfalda húsnæðisstuðning til þeirra sem eiga rétt á honum og til að hafa betri yfirsýn yfir kerfið í heild. Mikilvægt er að tekin verði afstaða til kostnaðarskiptingar á milli ríkis og sveitarfélaga.

Fylgigögn:

Lokaskýrsla um tilraunaverkefni um sérstakan húsnæðisstuðning - erindi frá stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga
Tilraunaverkefni um sérstakan húsnæðisstuðning - lokaskýrsla Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar

3. Þjónusta við umsækjendur um alþjóðlega vernd (2020100128)

Iðunn Ingólfsdóttir verkefnastjóri mætti á fundinn.

Velferðarráð telur að skoða þurfi málaflokkinn heildrænt og leggur því fram eftirfarandi bókun í 5 liðum:

"1. Áhrif á innviði þjónustuveitenda við umsækjendur um alþjóðlega vernd má skipta í tvennt. Annars vegar á innviði Reykjanesbæjar og hins vegar á innviði ríkisins þar sem Útlendingastofnun rekur nú úrræði á Lindarbraut.

a. Reykjanesbær: Ljóst er að umsækjendur um alþjóðlega vernd þurfa fjölþættan stuðning og vel skipulagða þjónustu meðan á málsmeðferð þeirra stendur en einnig eftir að leyfi hefur verið veitt. Með samningi um yfirtöku á Lindarbraut mun fylgja fjármagn sem miðað við fullnýtingu rýma mun gera sveitarfélaginu kleift að ráða í þrjú stöðugildi til að sinna hópnum. Athuga þarf þó að hópurinn telur alla jafna um 100 manns og því er erfitt að sjá að slík mönnun sé nægileg. Mat sérfræðinga sveitarfélagsins í málaflokknum er að húsnæðið samræmist ekki hugmyndafræði Reykjanesbæjar um lágmarksaðbúnað og því þarf að setja nokkurt fjármagn í að koma því í það form. Ekki er gert ráð fyrir því í samningi sveitarfélagsins við Útlendingastofnun. Talsvert álag hefur einnig verið á sjúkraflutninga bæði vegna útkalla á Lindarbraut og einnig vegna flutninga í Sóttvarnarhús. Auk þess samræmist úrræðið á Lindarbraut ekki hugmyndafræði Reykjanesbæjar um dreifingu íbúa sem nýta sér sértækan félagslegan stuðning með hliðsjón af aðlögun um blöndun í hverfi sveitarfélagsins. Því veldur úrræðið auknu álagi á eitt hverfi sveitarfélagsins sem er í uppbyggingu og fagleg samantekt starfsmanna sveitarfélagsins hefur sýnt að það sé ekki fýsilegur kostur.

b. Ríkið: Stofnanir á Suðurnesjum fá almennt lægra fjármagn en aðrar sambærilegar stofnanir. Álag er á löggæslu og heilbrigðiskerfið samhliða auknum fjölda umsækjenda um alþjóðlega vernd sem þurfa bæði líkamlega og sálræna aðstoð og hafa ekki greiðan aðgang að slíkum stuðningi þar sem þjónusta starfsmanna Útlendingastofnunar á Lindarbraut er takmörkuð með einungis einn starfsmann í dagvinnu auk öryggisvarðar á sólarhringsvakt. Veruleg bið er nú þegar eftir tíma hjá sálfræðingum á svæðinu og geðlæknir er ekki starfandi í sveitarfélaginu nema að takmörkuðu leyti og umsetinn þegar viðvera hans er. Ekkert aukalegt fjármagn fylgir málaflokknum til að auka við þjónustu hjá þessum stofnunum. Heilbrigðisstofnun Suðurnesja fær ákveðið fjármagn á ári í túlkaþjónustu en ef farið er umfram það fjármagn greiðist það af stofnuninni sjálfri. Eins og staðan er á svæðinu er um fjórðungur íbúa af erlendum uppruna og því er það fjármagn nýtt til að þjónusta stóran hóp utan umsækjenda um alþjóðlega vernd á degi hverjum.

2. Mikilvægi þess að stjórnvöld setji sér stefnu í málaflokknum

Óljóst er hver stefna stjórnvalda er um það hvernig dreifingu á búsetu umsækjenda um alþjóðlega vernd er háttað meðan á málsmeðferð stendur. Hver er framtíðarsýnin sér í lagi ef aukning verður ár frá ári? Einungis þrjú sveitarfélög á Íslandi taka á móti umsækjendum um alþjóðlega vernd (Reykjanesbær, Reykjavík og Hafnarfjörður). Er ekki markmiðið að fleiri sveitarfélög taki þátt í þessu samfélagslega verkefni? Ótækt er að ábyrgðin liggi á þremur sveitarfélögum á meðan önnur sveitarfélög virðast geta neitað að veita umrædda þjónustu. Reykjanesbær hefur hvatt til þess m.a. á fundi með allsherjar- og menntamálanefnd að reglugerð verði lögð fram þess efnis að sveitarfélögum verði skylt að aðstoða ríkið við móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd. Lagt hefur verið til að einföld reikniregla verði þar til hliðsjónar þar sem sveitarfélög taki á móti 3-4 einstaklingum á hverja 1000 íbúa eða með sambærilegum hætti og gert er á Norðurlöndunum.

Velferðarráð Reykjanesbæjar ítrekar kröfu sveitarfélagsins um að mótuð verði formleg stefna af hálfu ríkisins í málaflokknum. Auk þess verði sveitarfélögum gert skylt að taka þátt í þessu samfélagsverkefni.

3. Hugmyndafræði

Reykjanesbær hefur aðhyllst þá hugmyndafræði að taka á móti fjölskyldum og að útvega þeim búsetu á mismunandi stöðum í sveitarfélaginu til að tryggja blöndun og samlögun í samfélagið. Okkar afstaða hefur alfarið verið gegn því að umsækjendum um alþjóðlega vernd sé safnað saman á einn stað sem getur leitt af sér neikvætt viðhorf og umræðu í samfélaginu sem veldur einstaklingunum oft enn meiri vanlíðan. Sérstakar áhyggjur hafa verið uppi varðandi það að ef umsækjendum fjölgar að þá muni Útlendingastofnun leigja fleiri húsnæði á sama stað í sveitarfélaginu sem er óásættanlegt. Engu að síður hefur stofnunin gefið það út að þar sé hagstæðasta leiguverðið og því möguleiki á að tekið verði annað 100 manna húsnæði á leigu ef þurfa þykir. Við teljum ekki við hæfi að margir umsækjendur um alþjóðlega vernd sem koma hingað í neyð með ólíkan félagslegan bakgrunn búi í sama húsnæði og hvað þá að vera látnir deila herbergi.

4. Ásbrú

Í þessum lið bendir velferðarráð á samantekt sem unnin var af starfsmönnum sveitarfélagsins fyrir fund ráðsins 13. janúar 2021 þar sem tekin eru saman samfélagsleg áhrif af úrræði Útlendingastofnunar á Ásbrú með hliðsjón af skýrslu Nordregio sem gefin var út í september 2020. Skýrslunni var ætlað að skoða tækifæri íbúa til félagslegrar þátttöku (inclusion) og hvernig unnið er að því út frá stefnumótun og skipulagsmálum. Í samantektinni segir;

„Samfélög sem einkennast af félagslegri blöndun eru í betra jafnvægi en önnur samfélög og þar er alla jafna meira umburðarlyndi fyrir fjölbreytileika mannlífsins. Of mikil einsleitni skapar oft þröngsýni og ef einsleitnin í samfélaginu er mikil getur það orðið til þess að félagslegir erfiðleikar erfast á milli kynslóða.”

Í samantektinni segir einnig;

“Búsetuúrræði Útlendingastofnunar fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd á Ásbrú er slæmur kostur fyrir þá sem þar búa sem og fyrir Ásbrú, í þeirri mynd sem búsetuúrræðið er.”

Þar stendur enn fremur;

“Rekstur stofnunarinnar á búsetuúrræði á Ásbrú er ekki í samræmi við velferðarþjónustu á Íslandi þar sem of margir íbúar í viðkvæmri stöðu búa í sama húsnæðinu og hafa mjög takmarkað ferðafrelsi.”

Í minnisblaði sviðsstjóra velferðarsviðs sem unnið var fyrir fund velferðarráðs 13. janúar 2021 kom fram:

„Með því að færa þjónustuna yfir til Reykjanesbæjar með útvíkkun rekstrarsamnings við Útlendingastofnun hefur sveitarfélagið betri yfirsýn yfir aðstæður á Ásbrú og getur mótað starfsemi úrræðisins með markvissari hætti. Þó með þeim skilyrðum að fyrirkomulagi búsetuúrræðisins verði breytt.“

5. Viðbrögð Útlendingastofnunar

Útlendingastofnun hefur óskað þrívegis eftir því að stækka samning Reykjanesbæjar. Stofnunin tók húsnæðið á Lindarbraut á leigu til fimm ára í óþökk sveitarfélagsins. Í kjölfar fundar fulltrúa sveitarfélagsins með allsherjar- og menntamálanefnd kom póstur frá Útlendingastofnun þar sem tilkynnt var að stofnunin muni fara fram á fullnýtingu samnings Reykjanesbæjar og gefið er til kynna að stofnunin muni stjórna flæði einstaklinga sem sveitarfélagið á að taka á móti í þjónustu. Þetta er að okkar áliti þrýstingur til að taka á móti einstaklingum en ekki fjölskyldum eins og við höfum lagt ríka áherslu á undanfarin ár. Einnig kemur fram í áðurnefndum pósti að stofnunin hyggist krefjast endurgreiðslu fyrir þá einstaklinga sem þeir greiddu daggjald fyrir í lengri tíma en 14 daga eftir að leyfi var veitt á árinu 2020. Það ákvæði er leyfilegt í samningnum en stofnunin var upplýst um að vegna áhrifa heimsfaraldurs Covid-19 var málsmeðferð eftir leyfisveitingu mun hægari og flóknari.

Það er óeðlilegt og skýtur skökku við að ríkisstofnun líkt og Útlendingastofnun geti tekið einhliða ákvörðun án samráðs við sveitarfélagið og gert leigusamning til margra ára sem hefur augljóslega áhrif á samfélagið og beitir svo þrýstingi á sveitarfélagið með þessum hætti að taka síðar við þjónustunni.

Niðurstaða:

Í ljósi framangreinds telur velferðarráð sér ekki stætt á að ganga til samninga við Útlendingastofnun um að Reykjanesbær taki yfir þjónustu á Lindarbraut 536 á þeim grundvelli sem stofnunin leggur til."

Bókunin er samþykkt samhljóða.

4. Styrkir vegna áhrifa COVID-19 á þjónustu á velferðarsviði (2021010237)

Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs gerði grein fyrir málinu.

5. Stjórnsýsluúttekt á velferðarsviði (2020021011)

Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs fór yfir stöðu mála.

6. Menningarstefna Reykjanesbæjar – beiðni um umsögn (2019051729)

Menningar- og atvinnuráð óskar eftir umsögn um menningarstefnu Reykjanesbæjar 2020-2025.

Málið verður tekið fyrir á næsta fundi velferðarráðs.

7. Mælaborð og tölulegar upplýsingar (2020021149)

Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs, lagði fram mælaborð og tölulegar upplýsingar.

Fjárhagsaðstoð

Í nóvember 2020 fengu 148 einstaklingar greidda fjárhagsaðstoð frá Reykjanesbæ, alls voru greiddar kr. 25.588.850. Í sama mánuði 2019 fengu 103 einstaklingar greidda fjárhagsaðstoð, alls voru greiddar kr. 12.671.775.

Í desember 2020 fengu 145 einstaklingar greidda fjárhagsaðstoð frá Reykjanesbæ, alls voru greiddar kr. 23.087.639. Í sama mánuði 2019 fengu 129 einstaklingar greidda fjárhagsaðstoð, alls voru greiddar kr. 19.932.826.

Sérstakur húsnæðisstuðningur

Í nóvember 2020 fengu alls 248 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélagsins, samtals kr. 3.288.755. Í sama mánuði 2019 fengu 203 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning, samtals kr. 2.650.654.

Í desember 2020 fengu alls 247 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélagsins, samtals kr. 3.464.589. Í sama mánuði 2019 fengu 216 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélagsins, samtals kr. 2.789.383.

Áfrýjunarnefnd

Í desember voru 33 mál lögð fyrir áfrýjunarnefnd. 19 erindi voru samþykkt, 6 erindum var synjað og 8 erindum frestað.

8. Fundargerðir neyðarstjórnar (2021010061)

Fundargerðir lagðar fram.

Fylgigögn:

Með því að smella hér má skoða fundargerðir neyðarstjórnar á vef Reykjanesbæjar


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17:10. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 19. janúar 2021.