408. fundur velferðarráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 9. mars 2022 kl. 14:00
Viðstaddir: Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir formaður, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Hrafn Ásgeirsson, Jasmina Vajzovic Crnac og Jónína Sigríður Birgisdóttir.
Að auki sátu fundinn Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.
1. Barnvænt sveitarfélag - hagsmunamat barna (2020021548)
Hjörtur Magni Sigurðsson, verkefnastjóri barnvæns sveitarfélags, mætti á fundinn og kynnti tillögu um að tekið verði upp barnvænt hagsmunamat út frá réttindum og velferð barna hjá öllum sviðum, ráðum, nefndum og stofnunum Reykjanesbæjar. Tillagan er tilkomin vegna þátttöku sveitarfélagsins í verkefninu Barnvæn sveitarfélög sem felur í sér innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
Velferðarráð felur starfsmönnum að skoða áhrif þess að innleiða tillöguna innan velferðarsviðs og skila ábendingum fyrir næsta fund ráðsins.
Fylgigögn:
Mat á áhrifum ákvarðana sveitarfélaga á börn - erindi frá Umboðsmanni barna
2. Atvinnuleitendur með skerta starfsgetu (2022021101)
Lagt fram erindi sem Vinnumálastofnun sendi til Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum um málefni atvinnuleitenda með skerta starfsgetu. Óskað er eftir aukinni samvinnu varðandi atvinnuþátttöku þessa hóps með það fyrir augum að veita atvinnuleitendum með skerta starfsgetu aukin tækifæri til atvinnuþátttöku á Suðurnesjum. Stjórn Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum sendi erindið áfram til aðildarsveitarfélaga með hvatningu um að skoða hvort þau geti aukið samvinnu við Vinnumálastofnun vegna atvinnuleitenda með skerta starfsgetu. Bæjarráð Reykjanesbæjar vísaði málinu til frekari skoðunar í velferðarráði.
Velferðarráð leggur til að skipaður verði starfshópur til að skoða hvort Reykjanesbær geti aukið samvinnu við Vinnumálastofnun vegna atvinnuleitenda með skerta starfsgetu.
Fylgigögn:
Beiðni um aukna samvinnu vegna atvinnuleitenda með skerta starfsgetu - erindi frá Vinnumálastofnun
3. Samræmd móttaka flóttafólks og menntun barna (2022020555)
Ásta Kristín Guðmundsdóttir, teymisstjóri alþjóðlegrar verndar og Hilma H. Sigurðardóttir verkefnastjóri fjölmenningarmála mættu á fundinn og fóru yfir stöðu mála varðandi samræmda móttöku flóttafólks, en í undirbúningi er endurskoðun þjónustusamnings Reykjanesbæjar og fleiri sveitarfélaga við félagsmálaráðuneytið um móttöku, aðstoð og þjónustu við flóttafólk.
Einnig lá fyrir fundinum erindi frá sviðsstjórum fræðslu- og velferðarmála Akureyrarbæjar, Hafnarfjarðar, Reykjavíkurborgar, Reykjanesbæjar og sveitarfélagsins Árborgar þar sem óskað er eftir að við gerð nýs samnings um samræmda móttöku flóttafólks verði samið um sérstakar greiðslur vegna skólaþjónustu, frístunda-, félags- og tómstundaþátttöku barna með flóttabakgrunn svo að sveitarfélögunum verði gert kleift að stuðla að farsælli aðlögun og inngildingu barna að íslensku menntakerfi og samfélagi. Á fundi sínum þann 17. febrúar sl. tók bæjarráð Reykjanesbæjar heilshugar undir erindi bréfsins.
Töluverð aukning hefur orðið á fjölda flóttafólks í þjónustu hjá Reykjanesbæ umfram forsendur þjónustusamningsins við félagsmálaráðuneytið auk þess sem fyrirsjáanlegt er að töluverður fjöldi flóttafólks komi frá Úkraínu á næstunni, en samkvæmt reiknireglu samningsins greiðir ríkið fyrir þjónustu miðað við fjölda flóttafólks í þjónustu. Gert var ráð fyrir tveimur stöðugildum hjá Reykjanesbæ til að þjónusta þennan hóp en ljóst er að það dugir ekki til. Því er óskað eftir heimild til að ráða tímabundið í stöðugildi til að sinna þjónustunni í samræmi við reiknireglu samningsins.
Velferðarráð telur mikilvægt að við endurskoðun þjónustusamnings við félagsmálaráðuneytið um móttöku, aðstoð og þjónustu við flóttafólk verði sett hámark á fjölda flóttafólks sem Reykjanesbær þjónustar samkvæmt samningnum þannig að ekki verði reynt um of á innviði samfélagsins. Einnig tekur ráðið undir erindi frá sviðsstjórum fræðslu- og velferðarmála þeirra sveitarfélaga sem eru aðilar að samningnum um að samið verði um sérstakar greiðslur vegna skólaþjónustu, frístunda-, félags- og tómstundaþátttöku barna með flóttabakgrunn.
Velferðarráð leggur til við bæjarráð að veitt verði heimild til að ráða tímabundið í stöðugildi til að unnt verði að sinna þjónustu í samræmi við þjónustusamning um móttöku, aðstoð og þjónustu við flóttafólk.
4. Umsækjendur um alþjóðlega vernd - viðbragðsáætlun um yfirálag á landamærum (2022030199)
Ásta Kristín Guðmundsdóttir, teymisstjóri alþjóðlegrar verndar og Hilma H. Sigurðardóttir verkefnastjóri fjölmenningarmála sátu fundinn undir þessum lið.
Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs gerði grein fyrir tilkynningu frá ríkislögreglustjóra um að viðbragðsáætlun um yfirálag á landamærum vegna einstaklinga sem sækja um alþjóðlega vernd hafi verið virkjuð á hættustig.
Fylgigögn:
Viðbragðsáætlun vegna yfirálags á landamærum vegna umsókna um alþjóðavernd
5. Reglur um félagslega þjónustu - endurskoðun á reglum um fjárhagsaðstoð (2022010182)
Bjarney Rós Guðmundsdóttir, teymisstjóri ráðgjafar- og virkniteymis, mætti á fundinn og fór, ásamt Heru Ósk Einarsdóttur sviðsstjóra velferðarsviðs, yfir tillögur að breytingum á reglum um fjárhagsaðstoð sveitarfélagsins.
6. Vefurinn www.visitreykjanesbaer.is (2021110285)
Nýr ferða- og upplýsingavefur Reykjanesbæjar, visitreykjanesbaer.is, var opnaður formlega 17. febrúar sl. Vefurinn er opinn vettvangur fyrir íbúa og ferðamenn en þar er hægt að sjá yfirlit yfir alla viðburði og afþreyingu sem boðið er upp á hverju sinni. Fyrirtæki, stofnanir og félög geta auglýst viðburði sína á viðburðadagatali síðunnar og þar með veitt íbúum betri aðgang að því sem er á döfinni í samfélaginu.
Fylgigögn:
Með því að smella hér má skoða vefinn visitreykjanesbaer.is
Leiðbeiningar fyrir innsetningu viðburða í viðburðadagatal á visitreykjanesbaer.is
Instructions for the event calendar form on visitreykjanesbaer.is
7. Stapavellir - Brynja, hússjóður Öryrkjabandalagsins (2019050509)
Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs fór yfir stöðu mála varðandi byggingu íbúða fyrir fatlað fólk að Stapavöllum í Reykjanesbæ, en Brynja, hússjóður Öryrkjabandalagsins fékk stofnframlag frá Íbúðalánasjóði og Reykjanesbæ vegna byggingar íbúðanna.
8. Mælaborð og tölulegar upplýsingar (2022010091)
Bjarney Rós Guðmundsdóttir, teymisstjóri ráðgjafar- og virkniteymis sat fundinn undir þessum lið og kynnti, ásamt Heru Ósk Einarsdóttur sviðsstjóra velferðarsviðs, mælaborð sviðsins og tölulegar upplýsingar vegna fjárhagsaðstoðar og sérstaks húsnæðisstuðnings í febrúar 2022.
Fjárhagsaðstoð
Í febrúar 2022 fengu 166 einstaklingar greidda fjárhagsaðstoð frá Reykjanesbæ, alls voru greiddar kr. 26.128.027. Í sama mánuði 2021 fengu 158 einstaklingar greidda fjárhagsaðstoð, alls voru greiddar kr. 24.770.206. Umsækjendum með samþykkta fjárhagsaðstoð hefur fjölgað um 5 % milli febrúar 2021 og 2022.
Sérstakur húsnæðisstuðningur
Í febrúar 2022 fengu alls 287 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélagsins, samtals kr. 4.224.411. Í sama mánuði 2021 fengu 275 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning, samtals kr. 3.880.356. Umsækjendum með samþykktan sérstakan húsnæðisstuðning fjölgaði um 6.9 % milli febrúar 2021 og 2022.
Áfrýjunarnefnd
Í febrúar 2022 voru 24 erindi lögð fyrir áfrýjunarnefnd. 15 erindi voru samþykkt, 5 erindum var synjað og 4 frestað.
9. Fundargerð öldungaráðs Reykjanesbæjar 24. febrúar 2022 (2022021188)
Fundargerð lögð fram.
Fylgigögn:
Fundargerð 11. fundar öldungaráðs Reykjanesbæjar 24. febrúar 2022
10. Fundargerðir neyðarstjórnar (2022010209)
Fundargerð lögð fram.
Fylgigögn:
Með því að smella hér má skoða fundargerðir neyðarstjórnar á vef Reykjanesbæjar
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17:22. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 15. mars 2022.