421. fundur velferðarráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 16. maí 2023 kl. 14:00
Viðstaddir: Sigurrós Antonsdóttir formaður, Andri Fannar Freysson, Birna Ósk Óskarsdóttir, Eyjólfur Gíslason, Rannveig Erla Guðlaugsdóttir.
Að auki sátu fundinn Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs, Hildigunnur Eir Kristjánsdóttir fulltrúi ungmennaráðs og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.
1. Erindisbréf velferðarráðs – drög til umsagnar (2023050182)
Forsetanefnd óskar eftir umsögn um drög að uppfærðu erindisbréfi velferðarráðs.
Velferðarráð felur Heru Ósk Einarsdóttur sviðsstjóra velferðarsviðs að skrifa umsögn í samræmi við framkomnar athugasemdir og senda til forsetanefndar.
2. Mannauðsstefna Reykjanesbæjar 2023 – drög til umsagnar (2023040237)
Bæjarráð óskar eftir umsögn um drög að mannauðsstefnu Reykjanesbæjar 2023.
Velferðarráð lýsir ánægju með vel unna mannauðsstefnu og leggur áherslu á mikilvægi þess að henni verði framfylgt.
3. Gistináttagjald í neyðarathvörfum Reykjavíkurborgar - samkomulag (2019050523)
Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs gerði grein fyrir málinu. Velferðarráð Reykjavíkurborgar samþykkti að hækka þyrfti gistináttagjald í neyðarskýlum fyrir einstaklinga sem þar gista og eiga lögheimili utan Reykjavíkur. Hækkunin er gerð til að gjaldið endurspegli raunkostnað við rekstur allra neyðarskýlanna. Hefur velferðarsvið Reykjavíkurborgar sent Reykjanesbæ samkomulag til undirritunar þar að lútandi.
Velferðarráð samþykkir samkomulagið að svo stöddu en vill ítreka bókun sína um stöðu heimilislausra sem gerð var þann 15. febrúar á þessu ári:
„Velferðarráð Reykjanesbæjar leggur til að farið verði í þarfagreiningu á stöðu heimilislausra. Byggja þarf fleiri smáhýsi og fara í markvisst starf með nýja stefnu í þjónustu við einstaklinga með miklar þjónustuþarfir. Þjónusta þarf einstaklinga sem byggja á skaðaminnkandi nálgun og húsnæði meðfram því með notendur í forgangi. Markmiðið með skaðaminnkandi úrræði á að byggja á valdeflingu, virðingu og þörfum notenda hverju sinni.“
Vegna þessarar hækkunar er brýn þörf fyrir fleiri smáhýsi og úrræði fyrir notendur sem eiga ekki í önnur hús að venda.
Velferðarráð felur starfsfólki ráðgjafar- og virkniteymis að gera þarfagreiningu á stöðu heimilislausra og leggja fram á næsta fundi ráðsins.
4. Fjölsmiðjan á Suðurnesjum - ársskýrsla og ársreikningur 2022 (2023040295)
Ársskýrsla og ársreikningur Fjölsmiðjunnar á Suðurnesjum vegna ársins 2022 lögð fram.
Velferðarráð þakkar starfsfólki Fjölsmiðjunnar á Suðurnesjum fyrir gott starf. Nauðsynlegt er að hafa úrræði fyrir ungt fólk á aldrinum 16-24 ára til að finna sitt áhugasvið, hvetja þau í frekara nám og virkni og auka lífsgæði. Tryggja þarf áframhaldandi rekstrargrundvöll og húsnæði fyrir starfsemina.
Fylgigögn:
Ársreikningur Fjölsmiðjunnar á Suðurnesjum 2022
Ársskýrsla Fjölsmiðjunnar á Suðurnesjum 2022
5. Barnvænt sveitarfélag – UNICEF Akademían (2020021548)
Samkvæmt aðgerðaáætlun Reykjanesbæjar vegna innleiðingar Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna skulu starfsfólk og kjörnir fulltrúar sveitarfélagsins hafa lokið þeim námskeiðum UNICEF akademíunnar sem lágmarkskrafa er gerð um vorið 2023. Forsenda þess að verkefnið og innleiðingin nái fram að ganga er að öll sem starfa með börnum en ekki síst þau sem taka ákvarðanir sem varða málefni barna fái fræðslu um sáttmálann. Þau sem ekki hafa horft á tilskilin námskeið og sent verkefnastjóra upplýsingar þess efnis eru hvött til að ljúka þeim hið fyrsta.
6. Mælaborð og tölulegar upplýsingar (2023030016)
Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs kynnti mælaborð velferðarsviðs fyrir fyrsta árshluta 2023 og lagði fram tölulegar upplýsingar vegna fjárhagsaðstoðar og sérstaks húsnæðisstuðnings í apríl 2023.
Fjárhagsaðstoð
Í apríl 2023 fengu 360 einstaklingar greidda fjárhagsaðstoð frá Reykjanesbæ. Fjárhagsaðstoðin var veitt til 88 heimila sem á bjó samtals 201 barn. Alls voru greiddar 52.664.729 kr. í fjárhagsaðstoð eða að meðaltali um 146.291 kr. pr. einstakling. Sveitarfélagið fær endurgreiðslu frá ríkinu fyrir u.þ.b. tveimur þriðju hluta þessarar upphæðar samkvæmt 15. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga.
Í sama mánuði 2022 fengu 193 einstaklingar greidda fjárhagsaðstoð frá Reykjanesbæ. Fjárhagsaðstoðin var veitt til 38 heimila sem á bjuggu samtals 94 börn. Alls voru greiddar 28.038.356 kr. í fjárhagsaðstoð eða að meðaltali kr. 145.276 kr. pr. einstakling.
Sérstakur húsnæðisstuðningur
Í apríl 2023 fengu 299 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélagsins. Samtals voru greiddar 6.366.160 kr.
Í sama mánuði 2022 fengu 299 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélagsins, samtals 4.400.668 kr.
Velferðarráð hefur miklar áhyggjur af þeim fjölda barna sem eru á bak við tölur um fjárhagsaðstoð og telur brýnt að lögð verði áhersla á úrræði fyrir barnafjölskyldur.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16:32. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 6. júní 2023.