432. fundur

08.05.2024 13:00

432. fundur velferðarráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 8. maí 2024 kl. 13:00

Viðstaddir: Sigurrós Antonsdóttir formaður, Andri Fannar Freysson, Birna Ósk Óskarsdóttir, Eyjólfur Gíslason og Margrét Þórarinsdóttir.

Að auki sátu fundinn Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs, Hilma H. Sigurðardóttir teymisstjóri ráðgjafar- og virkniteymis, Halldóra Mjöll Ingiþórsdóttir fulltrúi ungmennaráðs og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.

1. Stuðningsþjónusta - breytingar á vinnufyrirkomulagi (2024050046)

Margrét Arnbjörg Valsdóttir, teymisstjóri stuðnings- og öldrunarþjónustu og Guðlaug Anna Jónsdóttir deildarstjóri stuðningsþjónustu mættu á fundinn og fóru yfir tillögur að breytingum á vinnufyrirkomulagi í stuðningsþjónustu Reykjanesbæjar.

2. Sameining dagdvala (2024050055)

Margrét Arnbjörg Valsdóttir, teymisstjóri stuðnings- og öldrunarþjónustu og Kristín M. Hreinsdóttir deildarstjóri dagdvala mættu á fundinn og kynntu hugmyndir um sameiningu dagdvala Reykjanesbæjar.

3. Málefni heimilislausra - smáhús (2023070008)

Gunnar Kristinn Ottósson skipulagsfulltrúi, Hreinn Ágúst Kristinsson deildarstjóri eignaumsýslu og Ásdís Rán Kristjánsdóttir, verkefnastjóri í velferðarþjónustu mættu á fundinn. Kynntar voru tillögur að hönnun og farið yfir undirbúning að grenndarkynningu vegna fyrirhugaðra smáhúsa fyrir íbúa sem glíma við fjölþættan vanda.

Velferðarráð samþykkir hönnun húsanna og að farið verði í grenndarkynningu vegna fyrstu fjögurra húsanna.

4. Þróun og nýsköpun í málefnum fatlaðs fólks – þátttaka í starfshóp (2024050064)

Félags-og vinnumarkaðsráðherra hefur skipað Ólaf Garðar Rósinkarsson, verkefnastjóra í málefnum fatlaðra á velferðarsviði Reykjanesbæjar, sem fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga í starfshóp sem er falið að vinna að þróun og nýsköpun í þjónustu við fatlað fólk til þess að auka gæði og hagkvæmni í þjónustu. Starfshópurinn skal taka mið af þeim aðgerðum sem tilgreindar eru í tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks árin 2024-2026 og þeim tillögum sem fram koma í skýrslu starfshóps um kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlað fólk.

5. Fundargerð Samtakahópsins 16. apríl 2024 (2024030167)

Fundargerðin lögð fram.

Velferðarráð lýsir yfir áhyggjum af áfengisnotkun á íþróttaviðburðum og veltir fyrir sér hvort tilefni sé til að skoða hvernig aðgengi ungmenna að áfengi er.

Fylgigögn:

Fundargerð Samtakahópsins 16. apríl 2024

6. Mælaborð og tölulegar upplýsingar (2024020127)

Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs lagði fram tölulegar upplýsingar vegna fjárhagsaðstoðar og sérstaks húsnæðisstuðnings í apríl 2024.

Fjárhagsaðstoð

Í apríl 2024 fengu 185 einstaklingar greidda fjárhagsaðstoð frá Reykjanesbæ. Alls voru greiddar 26.903.645 kr. í fjárhagsaðstoð eða að meðaltali um 145.425 kr. á hvern einstakling.

Í sama mánuði 2023 fengu 360 einstaklingar greidda fjárhagsaðstoð frá Reykjanesbæ. Alls voru greiddar 52.664.229 kr. í fjárhagsaðstoð eða að meðaltali 140.734 kr. á hvern einstakling.

Sérstakur húsnæðisstuðningur

Í apríl 2024 fengu 313 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélagsins. Samtals voru greiddar 6.780.612 kr.

Í sama mánuði 2023 fengu 300 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélagsins, samtals 6.379.412 kr.

Áfrýjunarnefnd

Í apríl 2024 voru haldnir 2 fundir í áfrýjunarnefnd og 11 erindi lögð fyrir nefndina.

7 erindi voru samþykkt og 4 erindum var synjað.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15:08. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 21. maí 2024.