433. fundur

13.06.2024 13:00

433. fundur velferðarráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 13. júní 2024 kl. 13:00

Viðstaddir: Sigurrós Antonsdóttir formaður, Andri Fannar Freysson, Birna Ósk Óskarsdóttir, Eyjólfur Gíslason og Margrét Þórarinsdóttir.

Að auki sátu fundinn Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs, Hilma H. Sigurðardóttir teymisstjóri ráðgjafar- og virkniteymis, Halldóra Mjöll Ingiþórsdóttir fulltrúi ungmennaráðs og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.

1. Velferðarmiðstöð Suðurnesja (2023060104)

Sigurrós Antonsdóttir formaður velferðarráðs kynnti stöðu verkefnisins Öruggari Suðurnes. Fyrsti samráðsfundur um svæðisbundið samráð um varnir gegn ofbeldi og öðrum afbrotum á Suðurnesjum var haldinn í Duus Safnahúsi í Reykjanesbæ mánudaginn 27. nóvember 2023. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum, Grindavíkurbær, Reykjanesbær, Suðurnesjabær, Sveitarfélagið Vogar, Fjölbrautaskóli Suðurnesja, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, Heilsugæslan Höfða, Keilir, Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum og Sýslumaðurinn á Suðurnesjum stóðu að fundinum og undirrituðu í lok hans samstarfsyfirlýsingu um verkefnið Öruggari Suðurnes sem felst í því að hefja og formfesta svæðisbundið samráð um varnir gegn ofbeldi og öðrum afbrotum á Suðurnesjum með sameiginlegum markmiðum og aðgerðum, þ.m.t. miðstöð fyrir þolendur ofbeldis. Miðstöðin verður staðsett á Heilsugæslunni Höfða í Reykjanesbæ og hefur fengið heitið Suðurhlíð. Stofnfundur Suðurhlíðar var haldinn 22. maí síðastliðinn þar sem skipuð var stjórn auk þess sem lögð var fram fjárhagsáætlun, markmið, stofnsamþykkt og áætlun um rekstur. Gert er ráð fyrir að starfsemin geti hafist á haustmánuðum 2024.

Fylgigögn:

Samkomulag um svæðisbundið samráð um varnir gegn ofbeldi og öðrum afbrotum á Suðurnesjum

2. Innleiðing farsældar barna hjá Reykjanesbæ (2023050248)

Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs gerði grein fyrir verkefninu. Samkvæmt lögum nr. 86/2021 um samræmda þjónustu í þágu farsældar barna er fjallað um innleiðingu svæðisbundinna farsældarráða um allt land. Öll sveitarfélög á Suðurnesjum hafa samþykkt að taka þátt í svæðisbundnu farsældarráði í gegnum landshlutasamtökin, Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum. Góð reynsla er komin á vaxandi samstarf opinberra aðila á Suðurnesjum á síðustu misserum og árum. Samkomulag sveitarfélaganna á Suðurnesjum um sameiginlegt svæðisbundið farsældarráð er mikilvægur liður í að stuðla að svæðisbundnu samtali og áætlanagerð í þágu farsældar barna, forgangsröðun verkefna í þágu farsældar barna og áætlanagerð til að ná þeim markmiðum sem sett eru.

3. Hvítbók í málefnum innflytjenda - umsagnarmál í samráðsgátt (2024010258)

Reykjanesbæ hefur borist til umsagnar drög að hvítbók í málefnum innflytjenda, Samfélag okkar allra: Framtíð og stefna Íslands í málefnum innflytjenda – drög að stefnu til ársins 2038.

Lögð fram umsögn sviðsstjóra velferðarsviðs fyrir hönd Reykjanesbæjar.

Reykjanesbær fagnar sérstaklega markmiðum hvítbókar um árangursríka og fjölbreytta upplýsingaþjónustu til nýrra íbúa og inngildandi nálgunar í þeim efnum. Sveitarfélögin á Suðurnesjum og starfandi ríkisstofnanir á því landsvæði hafa í sameiningu sett sér markmið um að þjálfa starfsfólk þjónustustofnana og sveitarfélaga til þess að þjónusta og upplýsa íbúa, óháð aðstæðum þeirra eða uppruna, um þjónustu og afþreyingu á svæðinu undir formerkjum Velferðarnets Suðurnesja sem hefur unnið verkefnið Velkomin til Suðurnesja, sem aðgengilegt er á vefsíðunni Suðurnes.is.

Með því að smella hér má skoða umsagnarmálið í samráðsgátt

4. Öldungaráð Reykjanesbæjar - breytingar á skipan fulltrúa (2022060216)

Lagt fram erindi frá Félagi eldri borgara á Suðurnesjum um breytingar á skipan fulltrúa í öldungaráði Reykjanesbæjar.

Eyjólfur Eysteinsson fer út sem aðalmaður, Ingibjörg Magnúsdóttir kemur inn í hans stað.
Ingibjörg Magnúsdóttir fer út sem varamaður, Kristján B. Gíslason kemur inn í hennar stað.

5. Fundargerð Samtakahópsins 22. maí 2024 (2024030167)

Fundargerðin lögð fram.

Fylgigögn:

Fundargerð Samtakahópsins 22. maí 2024

6. Fundargerð öldungaráðs Reykjanesbæjar 29. maí 2024 (2024030456)

Fundargerðin lögð fram.

Fylgigögn:

Fundargerð 18. fundar öldungaráðs 29. maí 2024

7. Ársskýrsla velferðarsviðs 2023 (2024030388)

Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs lagði fram ársskýrslu sviðsins fyrir árið 2023.

8. Mælaborð og tölulegar upplýsingar (2024020127)

Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs lagði fram mælaborð fyrir fyrsta ársfjórðung og tölulegar upplýsingar vegna fjárhagsaðstoðar og sérstaks húsnæðisstuðnings í maí 2024.

Fjárhagsaðstoð

Í maí 2024 fengu 195 einstaklingar greidda fjárhagsaðstoð frá Reykjanesbæ. Alls voru greiddar 34.825.193 kr. í fjárhagsaðstoð eða að meðaltali um 178.590 kr. á hvern einstakling. Fjöldi barna á framfæri foreldra/forráðamanna á fjárhagsaðstoð var 77.

Í sama mánuði 2023 fengu 364 einstaklingar greidda fjárhagsaðstoð frá Reykjanesbæ. Alls voru greiddar 52.230.788 kr. í fjárhagsaðstoð eða að meðaltali kr. 143.491 á hvern einstakling. Fjöldi barna á framfæri foreldra/forráðamanna á fjárhagsaðstoð var 146.

Sérstakur húsnæðisstuðningur

Í maí 2024 fengu 297 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélagsins. Samtals voru greiddar 6.250.874 kr.

Í sama mánuði 2023 fengu 299 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélagsins, samtals 6.273.146 kr.

Áfrýjunarnefnd

Í maí 2024 var haldinn 1 fundur í áfrýjunarnefnd og 4 erindi lögð fyrir nefndina. 2 erindi voru samþykkt og 2 erindum var synjað.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15:16. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarráðs 20. júní 2024.