435. fundur

12.09.2024 13:00

435. fundur velferðarráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 12. september 2024 kl. 13:00

Viðstaddir: Sigurrós Antonsdóttir formaður, Andri Fannar Freysson, Ásta Kristín Guðmundsdóttir, Birna Ósk Óskarsdóttir og Eyjólfur Gíslason.

Að auki sátu fundinn Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.

1. Málefni heimilislausra - smáhús (2023070008)

Hreinn Ágúst Kristinsson deildarstjóri eignaumsýslu hjá Reykjanesbæ og Hannes Sigurgeirsson frá Kjarnabyggð ehf. tóku á móti fulltrúum í velferðarráði á byggingarstað smáhúsa sem ætlað er að leysa úr brýnum húsnæðisvanda fólks með fjölþættar stuðningsþarfir og sýndu húsin.

Velferðarráð þakkar fyrir móttökurnar og lýsir yfir ánægju með húsin og hversu vel verkinu miðar.

2. Bakvakt barnaverndarþjónustu á Ljósanótt (2024090280)

Skýrsla um starfsemi barnaverndarþjónustu í athvarfi á Ljósanótt 2024 lögð fram.

Velferðarráð þakkar starfsfólki barnaverndarþjónustu fyrir skýrsluna og öllum sem lögðu hönd á plóginn við undirbúning og framkvæmd Ljósanætur fyrir frábært starf.

3. Vistheimili barna (2024090284)

Greinargerð samstarfshóps barnaverndarþjónustu Reykjanesbæjar, Suðurnesjabæjar og sveitarfélagsins Voga, sem skoðaði grundvöll fyrir rekstri sameiginlegs vistheimilis á Suðurnesjum, lögð fram.

Velferðarráð fagnar greinargerðinni og óskar eftir að samstarfshópurinn vinni málið áfram.

4. Mörk félags- og heilbrigðisþjónustu (2023110405)

Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs gerði grein fyrir málinu.

Svar embættis landlæknis við beiðni sviðsstjóra velferðarsviðs um álit varðandi mörk félags- og heilbrigðisþjónustu lagt fram.

Sviðsstjóra velferðarsviðs er falið að vinna áfram í málinu.

5. Fjárhagsáætlun 2025 (2024050440)

Ólafur Garðar Rósinkarsson, verkefnastjóri í málefnum fatlaðra, mætti á fundinn.

Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs fór yfir fjárhagsramma velferðarsviðs og tímaramma fjárhagsáætlunarvinnu vegna ársins 2025.

6. Stefna um starfsmannaíbúðir á Suðurnesjum - beiðni um umsögn (2024080039)

Umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar óskar eftir umsögn um drög að stefnu um starfsmannaíbúðir á Suðurnesjum, sem er samstarfsverkefni Reykjanesbæjar og Suðurnesjabæjar.

Velferðarráð fagnar því að mörkuð verði stefna um starfsmannaíbúðir sem samstarfsverkefni milli Reykjanesbæjar og Suðurnesjabæjar. Mikil fólksfjölgun hefur orðið á Suðurnesjum síðastliðin ár og ekki tekist að byggja upp húsnæði í sama takti. Með stefnunni verður betur hægt að tryggja að fyrirtæki á svæðinu útvegi starfsfólki sínu viðunandi húsnæði í samræmi við þær forsendur sem lagðar eru fram í stefnunni.

7. Mælaborð og tölulegar upplýsingar (2024020127)

Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs lagði fram tölulegar upplýsingar vegna fjárhagsaðstoðar og sérstaks húsnæðisstuðnings í júlí 2024.

Fjárhagsaðstoð

Í júlí 2024 fengu 230 einstaklingar greidda fjárhagsaðstoð til framfærslu frá Reykjanesbæ. Alls voru greiddar 29.036.314 kr. í fjárhagsaðstoð til framfærslu eða að meðaltali um 126.245 kr. á hvern einstakling. Ekki liggja fyrir upplýsingar um fjölda barna á framfæri foreldra/forráðamanna á fjárhagsaðstoð.

Í sama mánuði 2023 fengu 352 einstaklingar greidda fjárhagsaðstoð til framfærslu frá Reykjanesbæ. Alls voru greiddar 46.585.329 kr. í fjárhagsaðstoð til framfærslu eða að meðaltali 132.345 kr. á hvern einstakling. Fjöldi barna á framfæri foreldra/forráðamanna á fjárhagsaðstoð var 151.

Sérstakur húsnæðisstuðningur

Í júlí 2024 fengu 257 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélagsins. Samtals voru greiddar 3.964.856 kr.*

Í sama mánuði 2023 fengu 289 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélagsins, samtals 6.077.747 kr.

*Breytingar á lögum um húsnæðisbætur tóku gildi 1. júní 2024 sem liður í aðgerðum stjórnvalda til stuðnings fjögurra ára kjarasamningum á vinnumarkaði. Breytingar á reglum um sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélagsins til samræmis við breytingar á lögum um húsnæðisbætur voru samþykktar í bæjarstjórn 20. ágúst 2024 og gilda frá 1. júní 2024.

Áfrýjunarnefnd

Í júlí 2024 var haldinn 1 fundur í áfrýjunarnefnd og 4 erindi lögð fyrir nefndina.

Erindin voru samþykkt.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16:06. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 17. september 2024.