438. fundur velferðarráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 12. desember 2024 kl. 13:00
Viðstaddir: Birna Ósk Óskarsdóttir varaformaður, Ásta Kristín Guðmundsdóttir, Bjarney Rut Jensdóttir, Eyjólfur Gíslason og Linda María Guðmundsdóttir.
Að auki sátu fundinn Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs, Hilma Hólmfríður Sigurðardóttir teymisstjóri virkni- og ráðgjafarteymis, Katrín Alda Ingadóttir fulltrúi ungmennaráðs og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.
Sigurrós Antonsdóttir boðaði forföll og sat Linda María Guðmundsdóttir fundinn í hennar stað. Andri Fannar Freysson boðaði forföll og sat Bjarney Rut Jensdóttir fundinn í hans stað.
1. Þjónusta við umsækjendur um alþjóðlega vernd – samningur (2024100122)
Drög að samningi milli Vinnumálastofnunar og Reykjanesbæjar um þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd lögð fram. Samningurinn mun gilda frá 1. janúar 2025 til 30. maí 2027.
Velferðarráð samþykkir samninginn fyrir sitt leyti með 4 atkvæðum. Eyjólfur Gíslason (D) situr hjá.
2. Samræmd móttaka flóttafólks – samningur (2022020555)
Drög að viðauka við þjónustusamning milli félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins, Vinnumálastofnunar og Reykjanesbæjar um samræmda móttöku flóttafólks lögð fram. Samningurinn er framlengdur til 31. desember 2025.
Velferðarráð samþykkir fyrir sitt leyti viðauka samningsins til eins árs með þeirri breytingu að fjöldi þjónustunotenda verði 200 í stað 250. Samþykkt með 4 atkvæðum, Eyjólfur Gíslason (D) situr hjá.
3. Samráðshópur um málefni fatlaðs fólks (2019120096)
Ólafur Garðar Rósinkarsson, verkefnastjóri í málefnum fatlaðra, mætti á fundinn og kynnti tillögu að samþykkt og skipan í samráðshóp um málefni fatlaðs fólks í Reykjanesbæ samkvæmt 2. mgr. 42. gr. og 8. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 49/1991. Samráðshópurinn verði skipaður þremur kjörnum fulltrúum og þremur fulltrúum fatlaðs fólks. Lagt er til að bæjarstjórn tilnefni þrjá fulltrúa til setu í samráðshópi um málefni fatlaðs fólks og leitað verði til notendaráðs fatlaðra í Reykjanesbæ um að tilnefna þrjá fulltrúa til setu í samráðshópnum.
Velferðarráð fagnar þessu mikilvæga framfaraskrefi í málefnum fatlaðs fólks til að auka áhrif þeirra á skipulag og framkvæmd þjónustu ásamt öðrum hagsmunamálum í sínu sveitarfélagi með stefnumarkandi hætti. Velferðarráð samþykkir fyrir sitt leyti að skipað verði í samráðshóp um málefni fatlaðs fólks.
4. Smáhús – staða verkefnis (2023070008)
Hilma H. Sigurðardóttir, teymisstjóri virkni- og ráðgjafarteymis, fór yfir stöðuna varðandi smáhús og þjónustu fyrir íbúa Reykjanesbæjar með flóknar þjónustuþarfir.
5. Fundargerðir Samtakahópsins 30. október og 13. nóvember 2024 (2024030167)
Fundargerðir Samtakahópsins frá 30. október og 13. nóvember 2024 lagðar fram.
Velferðarráð þakkar Samtakahópnum, félagsmiðstöðinni Fjörheimum og unglingaráði Fjörheima fyrir að halda forvarnardag fyrir öll ungmenni í 9. bekk í grunnskólum Reykjanesbæjar. Áhersla var lögð á líðan og öryggi ungmenna í samfélaginu þar sem áhyggjur af ofbeldi og vopnaburði meðal ungmenna hafa verið í brennidepli. Ráðið telur þetta mikilvægt framtak og hvetur til þess að forvarnadagar verði festir í sessi varðandi þau málefni sem brenna á samfélaginu á hverjum tíma.
Fylgigögn:
Fundargerð Samtakahópsins 30. október 2024
Fundargerð Samtakahópsins 13. nóvember 2024
6. Fundargerð öldungaráðs Reykjanesbæjar 18. nóvember 2024 (2024030456)
Fundargerð öldungaráðs Reykjanesbæjar frá 18. nóvember 2024 lögð fram.
Fylgigögn:
Fundargerð öldungaráðs Reykjanesbæjar 18. nóvember 2024
7. Tölulegar upplýsingar (2024020127)
Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs lagði fram tölulegar upplýsingar vegna fjárhagsaðstoðar og sérstaks húsnæðisstuðnings í nóvember 2024.
Fjárhagsaðstoð
Í nóvember 2024 fengu 180 einstaklingar greidda fjárhagsaðstoð til framfærslu frá Reykjanesbæ. Alls voru greiddar 26.831.283 kr. í fjárhagsaðstoð til framfærslu eða að meðaltali um 149.063 kr. á hvern einstakling. Fjöldi barna á framfæri foreldra/forráðamanna á fjárhagsaðstoð eru 53.
Í sama mánuði 2023 fengu 276 einstaklingar greidda fjárhagsaðstoð til framfærslu frá Reykjanesbæ. Alls voru greiddar 37.051.628 kr. í fjárhagsaðstoð til framfærslu eða að meðaltali kr. 134.245 á hvern einstakling. Fjöldi barna á framfæri foreldra/forráðamanna á fjárhagsaðstoð var 102.
Sérstakur húsnæðisstuðningur
Í nóvember 2024 fengu 267 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélagsins. Samtals voru greiddar 6.737.522 kr.
Í sama mánuði 2023 fengu 330 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélagsins, samtals 6.762.120 kr.
Áfrýjunarnefnd
Í nóvember 2024 var haldinn 1 fundur í áfrýjunarnefnd og 12 erindi lögð fyrir nefndina. 7 erindi voru samþykkt, 1 erindi frestað og 4 erindum var synjað.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15:47. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 17. desember 2024.