441. fundur velferðarráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 13. mars 2025 kl. 13:00
Viðstaddir: Sigurrós Antonsdóttir formaður, Andri Fannar Freysson, Ásta Kristín Guðmundsdóttir, Birna Ósk Óskarsdóttir og Eyjólfur Gíslason.
Að auki sátu fundinn Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs, Hilma Hólmfríður Sigurðardóttir teymisstjóri virkni- og ráðgjafarteymis, Katrín Alda Ingadóttir fulltrúi ungmennaráðs og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.
1. Upplýsingar um fjárhagsaðstoð sveitarfélagsins 2024 (2025020181)
Hilma H. Sigurðardóttir, teymisstjóri virkni- og ráðgjafarteymis, lagði fram upplýsingar um fjárhagsaðstoð Reykjanesbæjar, en fyrirspurn um málið kom fram frá fulltrúa D-lista á fundi bæjarstjórnar þann 18. febrúar 2024.
Með skýrara utanumhaldi og markvissu samstarfi við Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og Vinnumálastofnun hefur náðst að vinna með markvissari hætti að því að fylgja eftir málum umsækjenda um fjárhagsaðstoð út frá aðstæðum hvers og eins. Með þessum aðgerðum hefur umsækjendum um fjárhagsaðstoð fækkað verulega á milli ára, en árin 2022 og 2023 voru velferðarsviðinu þungbær og fjölgaði mikið og hratt í hópi þeirra sem fengu fjárhagsaðstoð frá sveitarfélaginu.
2. Félagslegt húsnæði - eignasafn, biðlisti og biðtími eftir úthlutun (2025020341)
Hilma H. Sigurðardóttir, teymisstjóri virkni- og ráðgjafarteymis, fór yfir greiningu á umsóknum um félagslegt leiguhúsnæði hjá velferðarsviði Reykjanesbæjar og úthlutunum íbúða árið 2024.
Velferðarráð hvetur til þess að lögð verði áhersla á að fjölga minni íbúðum í eignasafni Fasteigna Reykjanesbæjar. Með stækkandi sveitarfélagi eykst þörfin fyrir félagslegt leiguhúsnæði og er mikilvægt að sú þróun haldist í hendur. Ráðið telur nauðsynlegt að sveitarfélagið setji sér framtíðarsýn og markmið varðandi félagslegt húsnæði.
3. Stoð- og stuðningsþjónusta - frumkvæðisathugun (2024030016)
Ólafur Garðar Rósinkarsson, verkefnastjóri í málefnum fatlaðra, mætti á fundinn og kynnti niðurstöður frumkvæðisathugunar Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála á stöðu uppfærslu stoð- og stuðningsþjónustureglna sveitarfélaga.
4. Upplýsingar um þjónustu við fatlað fólk - frumkvæðisathugun (2024040021)
Ólafur Garðar Rósinkarsson, verkefnastjóri í málefnum fatlaðra, mætti á fundinn og kynnti niðurstöður frumkvæðisathugunar Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála á upplýsingum um þjónustu við fatlað fólk á vefsíðum sveitarfélaga.
5. Akstursþjónusta fyrir fatlað og eldra fólk - frumkvæðisathugun (2024060173)
Ólafur Garðar Rósinkarsson, verkefnastjóri í málefnum fatlaðra, mætti á fundinn og kynnti niðurstöður frumkvæðisathugunar Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála á akstursþjónustu sveitarfélaga.
6. Ársskýrsla velferðarsviðs 2024 (2025030170)
Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs kynnti ársskýrslu velferðarsviðs fyrir árið 2024.
7. Mælaborð velferðarsviðs 2024 (2024020127)
Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs fór yfir mælaborð ársins 2024.
Velferðarráð þakkar starfsfólki velferðarsviðs fyrir vel unnin störf á árinu. Rekstrarniðurstaða ársins er neikvæð um 8,4% en þá eiga eftir að koma inn endurgreiðslur frá ríkinu vegna 15. greinar laga um félagsþjónustu sveitarfélaga sem kemur til leiðréttingar og má þá gera ráð fyrir að rekstrarniðurstaða verði neikvæð um 3%. Ráðið hefur þungar áhyggjur af háum útgjöldum vegna veikindahlutfalls á sviðinu. Álagsmælingar og hátt veikindahlutfall sýna að bæta þarf mönnunarstöðu á sviðinu.
8. Fundargerð Samtakahópsins 3. mars 2025 (2025020056)
Fundargerðin lögð fram.
Fylgigögn:
Fundargerð Samtakahópsins 3. mars 2025
9. Fjárhagsaðstoð og sérstakur húsnæðisstuðningur febrúar 2025 - tölulegar upplýsingar (2025020181)
Tölulegar upplýsingar vegna fjárhagsaðstoðar og sérstaks húsnæðisstuðnings í febrúar 2025 lagðar fram.
Fjárhagsaðstoð
Í febrúar 2025 fékk 131 einstaklingur greidda fjárhagsaðstoð til framfærslu frá Reykjanesbæ.
Alls voru greiddar 19.546.404 kr. í fjárhagsaðstoð til framfærslu eða að meðaltali um 149.203 kr. á hvern einstakling. Fjöldi barna á framfæri foreldra/forráðamanna á fjárhagsaðstoð voru 38.
Í sama mánuði 2024 fengu 212 einstaklingar greidda fjárhagsaðstoð til framfærslu frá Reykjanesbæ. Alls voru greiddar 32.490.087 kr. í fjárhagsaðstoð til framfærslu eða að meðaltali 153.255 kr. á hvern einstakling. Fjöldi barna á framfæri foreldra/forráðamanna á fjárhagsaðstoð voru 73.
Sérstakur húsnæðisstuðningur
Í febrúar 2025 fengu 270 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélagsins. Samtals voru greiddar 6.731.938 kr.
Í sama mánuði 2024 fengu 326 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélagsins, samtals 7.046.259 kr.
Áfrýjunarnefnd
Í febrúar 2025 var haldinn 1 fundur í áfrýjunarnefnd og 6 erindi lögð fyrir nefndina. 5 erindi voru samþykkt, 1 erindi var samþykkt að hluta og synjað að hluta.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15:59. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 18. mars 2025.