Um 350 starfsmenn grunnskólanna sóttu ráðstefnuna
Hin árlega endurmenntunarráðstefna skrifstofu menntasviðs fyrir kennara og stjórnendur grunnskólanna var haldin í Hljómahöll þriðjudaginn 13. ágúst. Þrjú ólík erindi voru á dagskrá sem fjölluðu meðal annars um breytingar og streitu, forvitni og sköpun og leiðir sem eru færar til að styðja við nemendur sem eiga foreldra sem glíma við geðræn veikindi.
Í fyrsta erindi dagsins sem bar heitið Allt er breytingum háð fjallaði Hrefna Hugosdóttir, hjúkrunarfræðingur og sérfræðingur í vinnuvernd, um áhrif breytinga, streitukerfið og gaf starfsfólki grunnskóla ráð til að takast á við breytingar og streitu. Í öðru erindinu sem bar heitið Út fyrir þægindarammann með forvitni og sköpun kynnti Hildur Arna, kennari leiðir til að ýta undir forvitni, áhuga og sköpun nemenda með fjölbreyttum leiðum. Í síðasta erindi dagsins sögðu þær Sigríður Gísladóttir, stofnandi og framkvæmdarstjóri stuðningsúrræðisins Okkar Heimur og Þórunn Edda, félagsráðgjafi hvað rannsóknir segja okkur um verndandi þætti, birtingarmyndir og leiðir til að styðja við börn sem eiga foreldra sem glíma við geðræn veikindi.
Endurmenntunarráðstefnan er liður í því að styðja kennara í því að ígrunda starf sitt, opna augu þeirra fyrir nýjum leiðum og bæta við þekkingu þeirra með það að markmiði að ná sem bestum árangri fyrir nemendur og samfélagið allt. Lögð er áhersla á að kennarar séu ekki einungis í því hlutverki að vera þiggjendur þekkingar og fræðslu heldur virkir þátttakendur í að miðla og deila sinni reynslu og þekkingu í anda menntasamfélagsins.
Ráðstefnunni Farsæld og fjölbreytileiki er einnig ætlað að styðja við menntastefnu Reykjanesbæjar ásamt því að draga fram þær áskoranir sem mæta kennurum í okkar síbreytilega samfélagi og að benda á leiðir sem eru vænlegar til þess að mæta þeim áskorunum.
Dagskrá endurmenntunarráðstefnu skrifstofu menntasviðs