Frá vinstri, Ásmundur Einar Daðason Mennta- og barnamálaráðherra, Ólöf Kristín Guðmundsdóttir kennsluráðgjafi á menntasviði og María Petrína Berg leikskólastjóri á Holti.
Í vor fengu Leikskólar Reykjanesbæjar sem eru ellefu og bókasafnið styrk úr Sprotasjóð til að vinna sameiginlega að verkefninu Leikgleði í gegnum sögur og söng.
Markmið verkefnisins er að styrkja hugtakaskilning, orðaforða, hlustunarskilning og frásagnarhæfni leikskólabarna í Reykjanesbæ með málörvandi aðferðum sem byggja á leik, söng og virkni. Aðferðirnar eru jafnframt til þess fallnar að auka samkennd og styrkja félagstengsl milli barna. Þannig er stuðlað að jafnvægi, öryggi, sjálfstrausti, tjáningarfærni og almennt andlegri farsæld þeirra, enda gefur augaleið að barn sem á auðvelt með að skilja aðra, getur og þorir að tjá sig og líður betur en barni sem á í erfiðleikum með það. Þess má geta að í leikskólum Reykjanesbæjar eru um 30% barna af erlendum uppruna. Því er sérstök ástæða til að leggja áherslu á málörvun til að fyrirbyggja skerta framtíðarmöguleika eða jafnvel félagslega jaðarsetningu síðar á lífsleiðinni.
Niðurstöður nýlegra íslenskra rannsókna benda til að leikskólabörn með annað móðurmál en íslensku nái almennt ekki góðum tökum á málinu og hafi oft lítinn og einhæfan orðaforða. Þetta er vandamál sem best er að bregðast við sem fyrst á skólagöngunni þar sem það verður erfiðara við að eiga eftir því sem á líður. Aðferðirnar sem beitt er í verkefninu gagnast vel í þessu samhengi. Þær eru þó ekki sérsniðnar fyrir þennan hóp heldur er þeim ætlað að stuðla að aukinni málfærni og tilfinningalegri farsæld allra barna, óháð því hvort þau séu fjöltyngd eða ekki. Verkefnastjóri verkefnisins er Ólöf Kristín Guðmundsdóttir kennsluráðgjafi á Menntasviði Reykjanesbæjar og sérfræðingur verkefnisins er Birte Harksen leikskólakennari sem hefur unnið með málörvandi aðferðir til margra ára.
Í leikskólum Reykjanesbæjar er unnið faglegt og gott starf og mun verkefnið efla það starf enn frekar.