Þórey Ösp Gunnarsdóttir, safnstjóri Stapasafns
Þann 31. janúar opnar Stapasafn formlega fyrir almenningi. Safnið er staðsett í Stapaskóla á Dalsbraut 11 í Innri-Njarðvík og verður bæði skólabókasafn og almenningsbókasafn. Um er að ræða fyrsta samsteypusafnið í Reykjanesbæ, þar sem áhersla er lögð á að þjónusta bæði nemendur Stapaskóla og íbúa bæjarins.
Stapasafn verður svokallað samsteypusafn eða samblanda af almenningsbókasafni og skólabókasafni. Síðastliðin ár eða frá því að safnið var tekið í notkun hefur það verið nýtt eingöngu sem skólabókasafn fyrir Stapaskóla og því hafa megináherslur verið lagðar á bækur fyrir börn og ungmenni í safnkostinum. Undanfarin misseri hefur þó verið lögð áhersla á að safna nýjum og nýlegum bókum og byggja upp safnkost fyrir fullorðna líka og það hefur gengið mjög vel. “Við búum svo vel að eiga frábært bókasafn í Reykjanesbæ sem býr yfir stórkostlegum safnkosti. Stapasafn er útibú frá því safni og því allur safnkostur aðalsafns í boði fyrir lánþega Stapasafns og öfugt. Ef bókin sem leitað er af er ekki til í öðru safninu er hún fengin að láni frá hinu, þannig vinnum við saman sem ein heild,“ segir Þórey Ösp Gunnarsdóttir, safnstjóri Stapasafns.
Lánþegum verður áfram boðið upp á ýmislegt sem notið hefur mikilla vinsælda í Aðalsafni síðastliðin ár, þar má meðal annars nefna kökuformin, sögupokana, veislukassana og spilin.
Í Stapasafni verður einnig boðið upp á menningartengda viðburði, meðal annars þá sem hingað til hafa farið fram í aðalsafninu, á meðan flutningar þess í Hljómahöll standa yfir. Þar má nefna sögustundir og leshringi, auk nýrra viðburða sem munu þróast í samráði við samfélagið.
Hægt verður að fylgjast vel með á heimasíðu og samfélagsmiðlum Bókasafns Reykjanesbæjar til þess að missa ekki af öllu því skemmtilega og spennandi sem er framundan.
Öll hjartanlega velkomin!







